Stjórnvöld hafa gefið út að skólastarf í leik- og grunnskólum verði „með eðlilegum hætti“ frá og með 4. maí næstkomandi, en áfram verða í gildi samkomubann, sem þá mun miðast við 50 einstaklinga, og tveggja metra reglan svokallaða.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir það vafalaust leggjast vel í alla að skólar geti brátt snúið aftur til síns fyrra forms. Það sé þó afar mikilvægt að nýta vel þær vikur sem eru til stefnu þar sem fjölmörgum spurningum sé enn ósvarað.
„Hvað felst í þessu; eðlilegt skólastarf. Í eðlilegu skólastarfi koma oftar en ekki 50 einstaklingar eða fleiri saman. Svo eru uppi spurningar er snerta sóttvarnir, sem áfram hljóta að gegna mikilvægu hlutverki. Það þarf því að fá svör við þessum spurningum sem og öðrum svo við séum tilbúin þegar loks kemur að því að opna skólana aftur,“ segir Þorgerður Laufey í samtali við Morgunblaðið.
Almenn regla á kaffikróknum?
Níu leikskólabörn og 40 grunnskólanemendur hafa nú greinst með kórónuveiru í Reykjavík. Þá hafa einnig 35 starfsmenn leikskóla og 20 starfsmenn grunnskóla smitast af veirunni. Kemur þetta fram í svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn Morgunblaðsins, en tölurnar miðast við 14. apríl síðastliðinn.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey segir ljóst að öflugar sóttvarnir og breytt starfsemi skóla hafi skilað sínu. Það geti þó vart talist eðlilegt skólastarf ef framfylgja eigi áfram ströngum sóttvarnahólfum, sem kveða á um hámarksfjölda einstaklinga á tilteknu svæði, og tveggja metra reglunni. Nefnir hún í því samhengi skrifstofur og kaffistofur kennara og annarra starfsmanna skólanna.
„Þar hljóta að þurfa að gilda hinar almennu reglur um nálægð og fjölda. Það eru margir skólar vítt og breitt um landið sem eru með fleiri en 50 starfsmenn. Það eru allt upp í 200 starfsmenn í sumum skólum, þetta eru oft mjög stórir vinnustaðir,“ segir Þorgerður Laufey.
Greint hefur verið frá því hér í Morgunblaðinu að fjölmargir foreldrar nemenda í leik- og grunnskólum hafi að undanförnu haldið barni sínu heima af ótta við kórónuveirusmit. Hvort þeir muni nú senda börn sín í skóla á ný á eftir að koma í ljós.
Spurð hvort skólaskyldu verði framfylgt frá og með 4. maí svarar Þorgerður Laufey: „Það er góð spurning og þarna mun vafalaust reyna á sóttvarnalækni og heilbrigðisráðherra. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru fæst þeirra með skólaskyldu. Það er vissulega fræðsluskylda en skólaskylda er mun stærra hugtak. Það byggir á því að ef þú sendir ekki barnið í skólann þá ertu að brjóta lög. Þetta er eitt af þeim atriðum sem þarf að svara.“
Allir hafa lært eitthvað af ástandinu
Þorgerður Laufey segir skólastjórnendur, kennara, foreldra og nemendur nú reynslunni ríkari eftir þær miklu hömlur sem settar voru á skólastarf í mars síðastliðnum.
„Nemendur okkar hafa lært alveg gríðarlega mikið og það sem stendur upp úr er eflaust mikilvægi skólans sem stofnun í samfélaginu. Ég held að nemendur sakni mjög að komast í eðlilegt skólastarf og hitta þar félaga sína og kennara. Að sama skapi held ég að samfélagið hafi lært hvað skólinn og kennarar skipta miklu máli, verandi í djúpum samskiptum við nemendur á degi hverjum. Fyrir okkur kennara hefur þetta verið lærdómur á öllum sviðum því við þurftum jú að demba okkur út í fjarkennslu og -tækni. Þótt við værum nú flest meðvituð um þessi tæki þá þurftum við virkilega að nota kerfin. Svo held ég að allir hafi áttað sig á því að það sem gerist í kennslustofunni er einungis lítill hluti af vinnu kennara; undirbúningur, úrvinnsla, utanumhald, framvinda og sveigjanleiki — allt er þetta mikilvægt og ég held að kennarar hafi staðist prófið.“
Aðspurð segir Þorgerður Laufey ljóst að skólar landsins standa nú frammi fyrir miklum áskorunum næstu mánuði og ár, en ríkissjóður hefur orðið fyrir verulegu fjárhagslegu höggi vegna útbreiðslu kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda, bæði hér heima og erlendis. Líkir hún þessu við það ástand sem skapaðist í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.
„Við vitum að fram undan er erfiður tími og það er mikilvægt að við lærum af reynslu okkar úr hruninu og pössum innviði okkar. Skólakerfið og heilbrigðiskerfið urðu fyrir rosalegu tjóni og það verður að passa upp á að sú sveltistefna sem þá varð verði ekki nú. Við megum ekki lenda í því aftur,“ segir hún.
Tölurnar tala sínu máli
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir tölurnar sýna að kórónuveiran hafi ekki náð flugi í skólabyggingum borgarinnar, þökk sé sóttvörnum og vinnu starfsfólks.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
„Það kom um tíma töluverður ótti hjá fólki, en það er afar gott að sjá að það sem við gerðum til að minnka smit var vel gert,“ segir hann og bendir t.a.m. á að af 2.903 starfsmönnum grunnskóla hafi einungis verið 20 staðfest smit. Er hlutfall smitaðra því 0,7%. Á sama tíma smituðust 35 af 2.148 starfsmönnum leikskóla, eða 1,6%. Þegar kemur að nemendum er hlutfallið enn lægra, eða 0,3% í grunnskólum og 0,1% í leikskólum Reykjavíkurborgar.
Greint hefur verið frá því hvernig mæting nemenda í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar féll vegna veirunnar en nú er unnið að því að kanna mætingu eftir páskafrí. Segist Helgi vonast til þess að hægt verði að veita þær upplýsingar á næstu dögum.
Leik- og grunnskólar hafa ekki starfað með eðlilegum hætti sl. vikur. Á því verður breyting í næsta mánuði.
mbl.is/Hari