Olíunotkun í sjávarútvegi var rétt rúm 133 þúsund tonn á árinu 2019. Það er minnsta notkun í greininni frá upphafi mælinga, sem ná aftur til ársins 1982. Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Samkvæmt tölum frá Orkustofnun nam olíunotkun fiskiskipa 130 þúsund tonnum á árinu og dróst saman um rúm 4% frá fyrra ári. Samdrátturinn var öllu meiri í olíunotkun fiskimjölsverksmiðja, eða 63%, en þar nam notkunin tæplega 3 þúsund tonnum. Í heild nam samdrátturinn í greininni því 7% á milli ára.
Mikinn samdrátt í olíunotkun fiskimjölverksmiðja er talið mega rekja til loðnubrests. Hins vegar er bent á að „á undanförnum árum hefur sjávarútvegur notað helmingi minna af olíu til að veiða og vinna sama magn og hann gerði á síðustu árum fyrir aldamót. Það þýðir að sjávarútvegi hefur tekist að draga úr olíunotkun án þess að það komi niður á framleiðslu og gott betur. Það eru margir samverkandi þættir sem leggjast á eitt og skýra þessa þróun, svo sem bætt fiskveiðistjórnun, fjárfesting í tækjum og búnaði, fækkun og endurnýjun á skipum sem eru öflugri og hagkvæmari og breytt orkunotkun.“