„Það eru allir dásamlegir á sinn hátt“

Gígja kveðst hafa fundið strax fyrir því að hún hafi …
Gígja kveðst hafa fundið strax fyrir því að hún hafi verið á réttum stað þegar hún steig um borð í Tý. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Það var skyndihugdetta sem varð til þess að Gígja Vilhjálmsdóttir sótti um starf háseta umborð í Tý, varðskipi Landhelgisgæslu Íslands. „Mig langaði að prófa eitthvað alveg nýtt. Ég fékk frí úr vinnu á dvalarheimilinu Hlíð, þar sem ég starfaði áður, og fékk tækifæri til að leysa af sem háseti í einni ferð. Eftir það var ekki aftur snúið,“ segir Gígja.

„Þetta er æði. Frábært frá a til ö og kemur skemmtilega á óvart,“ svarar hún er hún er spurð hvernig henni líkar starfið. Gígja segir það ekki hafa tekið neinn tíma að venjast lífinu á sjó. „Mín reynsla af sjómennsku var áður bundin við það að liggja í fósturstellingu í Herjólfi og vilja deyja. Þannig að fólki fannst þetta mjög sérstök hugmynd hjá mér að láta á þetta reyna þar sem ég er manneskja sem verð veik í tívolítæki. En um leið og ég kom og labbaði um borð í Tý fékk ég strax tilfinningu fyrir því að hér á ég að vera,“ segir hún og hlær.

Áhöfnin á Tý
Áhöfnin á Tý Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Hún kveðst ekki upplifa mikla sjóveiki en viðurkennir þó að það hafa komið upp aðstæður sem gefur smá ugg. „En ekkert sem hefur háð mér eða ég hef fundið mikið fyrir. Á fyrsta túrnum og eftir fyrsta túrinn þá var enginn af þeim um borð, fjölskyldu eða vinum sem spurðu hvort þetta væri gaman eða hvernig gekk. Það var bara spurt hvort ég varð sjóveik, það var eina spurningin sem ég fékk.“

Mælir eindregið með starfinu

Er blaðamaður spyr hvort þetta sé ekki starf sem hún mæli með að fleiri prófi svarar Gígja tvímælalaust: „Algjörlega! Um að gera.“ Þá sé mikill kostur við starfið hversu fjölbreytt það er. „Í hásetastarfinu erum við að gera allan fjandann, það er enginn copy/paste dagur eftir dag. Og líka að fara úr þessari stöðluðu stelpuímynd er mjög gott. [...] En það er svolítið skrýtið að þurfa að vera lengi í burtu í einu, sérstaklega þegar ferðirnar lengjast óvænt og verða fimm vikur í stað þriggja. Þá skiptir miklu máli að eiga góða að og þar er ég svo sannarlega heppin. Ég á frábæran kærasta og mögnuð börn sem bíða manns heima.“ Eina eftirsjá hennar er að hafa ekki farið í starfið tuttugu árum fyrr.

Að halda sér í formi getur verið gott hópefli.
Að halda sér í formi getur verið gott hópefli. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Hásetinn er kannski óvenjulegur fyrir þær sakir að búa yfir þekkingu sem er ekki algeng meðal áhafnarmeðlima Landhelgisgæslunnar, en hún er lærður jógakennari bæði á sviði kundalínijóga og hot jóga. Þekking sem kemur að góðum notum enda hikar Gígja ekki við að fá áhöfnina með sér í jógaæfingar um borð.

Áhöfn í stellingum

„Þetta hefur gengið lýgilega vel. Þeir eru ótrúlega hlýðin og þægileg viðangsefni, jákvæðir og opnir fyrir þessu. Það er oft gaman hjá okkur og við erum að prófa nýja hluti,“ segir Gígja og . Það er samt ekki sjálfgefið að allar jógastellingar henti aðstæðum um borð, að sögn hennar. „Það er svolítið erfitt að prófa hvað sem er vegna aðstöðu og búnaðar erum við svolítið takmarkað hvað við getum gert. [...] Jafnvægisstellingar, við erum ekkert alltof mikið að taka þær fyrir. En við reynum ýmislegt og það endar nú bara á því að við hlæjum yfirleitt,“ útskýrir hún og hlær. Æfingarnar hafa lífgað rækilega upp á tilveruna bæði fyrir líkama og sál, að sögn Gígju sem segir uppátækið ekki hafa mætt neinum mótþróa af hálfu kolleganna. „Þetta eflir líka samveruna og er mjög hópefli hér innanborðs. Og allir duglegir að mæta, hvort sem það eru gömlu steingervingarnir eða hinir yngri.“

Spurð hvernig hún lýsir andanum um borð svarar Gígja: „Það er alveg yndislegt að vera hérna og kemur á óvart. Það er pínu eins og að vera á ættarmóti. Það eru allar tegundir af frændunum, en þetta er fjölskyldan þín. [...] Það eru allir dásamlegir á sinn hátt.“

Það er mikilvægt að halda sér í formi.
Það er mikilvægt að halda sér í formi. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: