Veiran mun breyta útskriftum skólanna

Ekki verður heimilt að halda útskrift án þess að virða …
Ekki verður heimilt að halda útskrift án þess að virða ströng fyrirmæli um sóttvarnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skólar eru nú margir farnir að huga að útskrift nemenda og verða athafnirnar ólíkar því sem við eigum að venjast sökum útbreiðslu kórónuveiru og þeirra umfangsmiklu sóttvarnaaðgerða sem gripið hefur verið til í skólum og samfélaginu öllu. Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ og formaður Skólameistarafélags Íslands, segir enga eina leið farna við útskriftir, skólastjórnendur séu að kanna alla möguleika í stöðunni.

„Útskriftir verða með mjög fjölbreyttum hætti, að ég tel. Menn hafa eitthvað rætt um hvort skólar ættu að taka sig saman en því hefur verið hafnað. Sumir munu reyna að fá nemendur til sín í einhverjum hollum á meðan aðrir ætla að vera með þetta alfarið á netinu. Við munum að öllum líkindum vera með útskriftina í beinni á Facebook og svo munu nemendur annaðhvort ná í prófskírteini sín eða fá þau send,“ segir Kristinn í samtali við Morgunblaðið og bætir við að honum finnist afar ólíklegt að skólum verði gefin undanþága frá sóttvarnaaðgerðum til að útskrifa nemendur í stórum hópum.

mbl.is