Skólar eru nú margir farnir að huga að útskrift nemenda og verða athafnirnar ólíkar því sem við eigum að venjast sökum útbreiðslu kórónuveiru og þeirra umfangsmiklu sóttvarnaaðgerða sem gripið hefur verið til í skólum og samfélaginu öllu. Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ og formaður Skólameistarafélags Íslands, segir enga eina leið farna við útskriftir, skólastjórnendur séu að kanna alla möguleika í stöðunni.
„Útskriftir verða með mjög fjölbreyttum hætti, að ég tel. Menn hafa eitthvað rætt um hvort skólar ættu að taka sig saman en því hefur verið hafnað. Sumir munu reyna að fá nemendur til sín í einhverjum hollum á meðan aðrir ætla að vera með þetta alfarið á netinu. Við munum að öllum líkindum vera með útskriftina í beinni á Facebook og svo munu nemendur annaðhvort ná í prófskírteini sín eða fá þau send,“ segir Kristinn í samtali við Morgunblaðið og bætir við að honum finnist afar ólíklegt að skólum verði gefin undanþága frá sóttvarnaaðgerðum til að útskrifa nemendur í stórum hópum.
Vilji skólar fá nemendur til sín í útskriftarathöfn segir Kristinn ljóst að fylgja verði öllum tilmælum um sóttvarnir, þ.e. að ekki séu fleiri en 50 einstaklingar í sama rými og að minnst tveir metrar séu á milli manna. „Þetta er kannski ekkert mjög flókið þannig séð, en þá þarf væntanlega að taka hópinn mjög rólega inn. Persónulega finnst mér einfaldara að hafa athöfnina rafræna. Við verðum þá með okkar ræðu, tilkynnum um dúx og verðum vonandi einnig með tónlistaratriði og allt saman í beinni á Facebook,“ segir Kristinn og bendir á að hann telji afar mikilvægt að nýta sér ástandið til þess að læra eitthvað nýtt. „Við höfum að vísu síðustu ár sent út okkar útskrift á Facebook. En ég reikna nú með því að við reynum að gera þetta aðeins flottara nú en áður.“
Eini árgangurinn sem ekki fær dimmisjón
Magnús Ingvason, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, segist vera að skoða þann möguleika að halda útskriftarathöfn í skólanum.
„Við ætlum að halda okkar útskrift á réttum tíma, 26. maí. En með nákvæmlega hvaða sniði, það á eftir að koma í ljós. Við eigum eftir að ákveða hvort hún verði í hollum, nokkurs konar raðútskrift með mismunandi hópum á ólíkum tímum. Okkur líst betur á það en rafútskrift enda erum við með bæði stóran sal og mjög stóra lóð sem hægt væri að nýta,“ segir Magnús og bætir við að veður þurfi þó að vera gott ef nýta á lóðina.
Að sprella með félögunum að prófum loknum er tilhlökkun hjá öllum verðandi stúdentum. Það verður þó ekki leyft í ár.
mbl.is/Hanna
Spurður hvort nemendur séu að þrýsta á skólann í von um að haldin verði útskriftarathöfn svarar Magnús: „Ekki mjög mikið en mér finnst nú líklegt að nemendur vilji þetta. Þau sjá afar mikið eftir dimmisjón og það er sagt að þetta sé eini árgangur Íslandssögunnar sem ekki fær dimmisjón. Það má nú ekki taka allt af þeim.“
Þá segir Magnús fremur ópersónulegt að halda útskrift á netinu. „Ef það er einhver kostur á því að halda þetta nokkurn veginn í lagi þá gerum við það. Og förum auðvitað eftir öllum fyrirmælum.“
Samfélag grunnskóla bíður nú eftir ráðherra
Greint hefur verið frá því að stjórnvöld hafi gefið út að skólastarf í leik- og grunnskólum verði „með eðlilegum hætti“ frá og með 4. maí næstkomandi, en áfram verður í gildi samkomubann, sem þá mun miðast við 50 einstaklinga, og tveggja metra reglan. Formaður Félags grunnskólakennara sagðist í viðtali við Morgunblaðið kalla eftir nánari skýringum enda fjölmörgum spurningum enn ósvarað varðandi skólahald í framhaldsskólum.
Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, tekur undir þetta og segist nú bíða eftir auglýsingu heilbrigðisráðherra í Stjórnartíðindum. „Núna bíður samfélag grunnskóla og stjórnendur eftir auglýsingu heilbrigðisráðherra sem birt verður samkvæmt tillögum sóttvarnalæknis. Og það er ekki fyrr en við sjáum þá auglýsingu sem hægt er að sjá fyrir sér starf grunnskóla eftir 4. maí,“ segir hann og bætir við að hann telji nokkuð öruggt að auglýsing ráðherra muni ekki kveða á um „hefðbundið“ skólastarf, líkt og stjórnvöld gáfu fyrst út á blaðamannafundi fyrir skemmstu. Það geti vart talist eðlilegt skólastarf ef halda eigi áfram ströngum sóttvarnahólfum, sem kveða á um hámarksfjölda einstaklinga á tilteknu svæði, og tveggja metra reglunni.
„Þegar við sjáum auglýsinguna mun það eflaust kalla eftir fjölda svara við ákveðnum spurningum, meðal annars því hvernig staðið verður að útskrift nemenda úr grunnskólum,“ segir hann, en líklegt er að auglýsing ráðherra verði birt laust eftir helgi enda þurfi skólar svigrúm til að undirbúa sig og starfið.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.