Vorboðinn mættur til Húsavíkur

Jónas Sævarsson var kátur þegar hann tók við rauðmaganum í …
Jónas Sævarsson var kátur þegar hann tók við rauðmaganum í dag. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Eftir langan og kaldan vetur má nú sjá vorbrag við höfnina á Húsavík. Grásleppusjómenn búnir að leggja net sín og aflabrögð nokkuð góð.

Hér áður fyrr þótti búhnykkur að rauðmaganum sem kom í grásleppunetin hjá Sigurði Kristjánssyni en það er af sem áður var. Sigurður er einn grásleppusjómannanna sem gera út frá Húsavík og hann segir allan gang á því hvað verði um rauðmagann sem hann veiddi.

„Stundum fer hann á markað en annars reyni ég að gefa hann í soðið en það er nú upp og ofan hvort það tekst,“ sagði Sigurður. „Þetta er vorboðinn ljúfi og algjört sælgæti,“ sagði Jónas Sævarsson sem tók við fiskinum og nokkuð ljóst hvað verður á borðum hjá honum í kvöld.

mbl.is