Forsvarsmenn BYKO vænta þess að geta strax nú um mánaðamótin tekið þá 125 starfsmenn sem á dögunum fóru á hlutabætur hjá Vinnumálastofnun aftur inn á launaskrá í fullu starfshlutfalli. Góð sala hefur verið í verslunum fyrirtækisins að undanförnu og ljóst að margir hafa nýtt slakann í yfirstandandi samkomubanni til framkvæmda á heimilum sínum. Aukist hefur til dæmis sala á málningu, gólfefnum eins og dúkum og parketi, verkfærum og árstíðatengdum vörum umfram það sem áætlað hafði verið.
„Í heild er þó nokkur samdráttur í sölu milli ára en staðan er samt sem áður betri en við reiknuðum með,“ segir Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO, í samtali við Morgunblaðið.
Panta, sækja og senda
Þegar stjórnvöld gáfu út fyrirmæli um ráðstafanir vegna kórónuveirunnar var gripið til ráðstafana hjá BYKO; afgreiðslutími í búðum styttur og þeim stærstu skipt upp. Verslunin í Breiddinni í Kópavogi er nú fjögur hólf og samanlagt mega ekki vera fleiri í húsi á hverjum tíma en 80.
Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO.
„Flesta daga eru biðraðir fyrir utan búðirnar. Takmarkanir sem í gildi eru hamla mjög afgreiðslugetu okkar. Við höfum því sett meiri kraft í vefverslunina og hvatt viðskiptavini til að panta þar vörur, sem fólk ýmist sækir eða við sendum,“ segir Sigurður Brynjar. „Vegna takmarkana um hve margir mega vera í sama rými í einu höfum við skipt starfsmannahópnum upp; fyrsta fólk kemur í hús klukkan sex á morgnana og svo kemur annar hópur síðdegis. Þessi ráðstöfun hefur einnig þann tilgang að draga úr smithættu og tryggja rekstrarsamfellu. Unnið er fram til klukkan tíu á kvöldin við afgreiðslu á pöntunum, fylla í hillur og slíkt. Gangurinn í þessu er góður.“
Bjartsýnn á sumarið
Mest sala er nú á vörum til framkvæmda innanhúss, en Sigurður kveðst bjartsýnn á sumarið. Ljóst sé að flestir haldi sig innanlands í sumar og lítið verði um fjöldasamkomur. Líklegt sé því að margir verði heima, máli húsið, beri á skjólveggi, hugi að garðinum og öðru viðhaldi. Vörur tengdar slíku séu nú á uppleið í sölu.
Stefán Jökull Sveinsson var í málningarleiðangri í Skútuvoginum.
mbl.is/Íris
„Svo er mjög til bóta að ríkið ætlar núna að stíga inn með fjárfestingaátak upp á 30-40 milljarða króna, sem er kröftug viðspyrna. Áhrifin koma fljótt fram. Mikilvægt er líka að ekki verði gefið eftir í byggingu á íbúðarhúsnæði til að tryggja jafnvægi á þeim markaði. Ef stjórnvöld myndu nú keyra hlutdeildarlánin í gegn hefði það mjög svo jákvæð áhrif á áframhaldandi stöðugleika á íbúðamarkaði,“ segir hann.
Á sama tíma og margir eru í framkvæmdum í heimaranni og þurfa margt að sækja í byggingarvöruverslanir er minna umleikis í stærri verkefnum, að sögn Árna Stefánssonar, forstjóra Húsasmiðjunnar. „Samkvæmt tölum frá Samtökum iðnaðarins eru íbúðir á fyrsta byggingarstigi á höfuðborgarsvæðinu rúmlega 40% færri nú en á sama tíma í fyrra. Auðvitað eru þúsundir íbúða enn í byggingu, en að svo miklu færri verkefni séu að fara af stað er áhyggjuefni.“
Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar.
Þessarar þróunar segir Árni að sjái stað í minni sölu á svokallaðri grófvöru, svo sem steypustyrktarjárni, byggingatimbri og jarðlögnum. Raunar rími þetta við opinberar tölur frá Rannsóknasetri verslunarinnar sem sýni samdrátt í sölu byggingarvara sjö af síðustu átta mánuðum. Í heild hafi salan á markaðnum minnkað um 10% milli ára fyrstu þrjá mánuði ársins.
Laghentir smíða sjálfir
„En einstaklingsmarkaðurinn er líflegur um þessa mundir, þrátt fyrir samkomubann, og algjör sprenging í netverslun á vefnum okkar. Margir eru greinilega að nota rólegan tíma í vinnu í framkvæmdir og mála og laga til. Gjarnan eru þetta verkefni sem sæmilega laghent fólk getur sjálft sinnt,“ segir Árni.
Svipast um eftir tólum og tækjum sem þarf í verkin. Þetta par var í Húsasmiðjunni.
mbl.is/Íris
„Sólpallaefni selst sem aldrei fyrr en við heyrum á iðnaðarmönnum að fólk virðist vegna smithættu síður vilja utanaðkomandi fólk inn á heimilin í viðhaldsverkefni undanfarnar vikur. Þetta er samt að lagast og væntanlega kemst þetta í lag upp úr maí. Þá bind ég líka vonir við átaksverkefnið Allir vinna, en samkvæmt því fæst virðisaukaskattur af vinnu iðnaðarmanna á framkvæmdastað að fullu endurgreiddur.“
Margir fengu sér einnig hressingu í verslunarferðinni.
mbl.is/Íris
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.