„Það er alltaf eitthvað óvænt sem kemur upp“

Jóhanna Rósa Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri Strong Wear, segir miklar áskoranir vera …
Jóhanna Rósa Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri Strong Wear, segir miklar áskoranir vera í rekstri fyrirtækisins, en að það sé engu að síður gaman að vera í framlínunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það verður ekki hjá því komist að í krefjandi aðstæðum þurfa starfsmenn að vera vel búnir og þegar grein verður jafn fyrirferðarmikil í hagkerfinu og sjávarútvegsfyrirtæki skapist grundvöllur fyrir tengdan rekstur.

„Stefnt er að því að fyrirtækið komi með nýjan vettling á markað í haust, en varan átti að rata á markað í sumar en vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hafa orðið nokkrar tafir á verkefninu, að sögn Jóhönnu Rósu, framkvæmdastjóra Strongwear.

En það er ekki bara kórónu- veiran sem truflar. Í fyrra brann húsnæði dreifingaraðilans og hafa systkinin ekki mætt þeirri áskorun með hangandi hendi og hafa fengið annan aðila til þess að dreifa vörum fyrirtækisins auk þess sem þau sinna því verki sjálf að hluta. „Þetta er greinilega markaður sem er síbreytilegur,“ segir Jóhanna Rósa og hlær. Hún bætir við að hún hafi ekki búist við því að það gætu orðið stór áföll og vísar til kórónuveirunnar 2020, brunans 2019 og sjómannaverkfallsins 2017. „Það er alltaf eitthvað óvænt sem kemur upp.“

Áskoranir víða

Hins vegar getur orðið lán í óláni og hefur eftirspurn eftir einnota hönskum aukist mikið á undanförnum dögum og vikum sem styrkt hefur söluna og er lagerinn orðinn tómur. „Eftirspurnin er mikil,“ segir Jóhanna Rósa, en fyrirtækið fær gríðarlegan fjölda fyrirspurna vegna einnota hanska og sem betur fer sé sending á leiðinni.

Þegar litið er fram á við blasir önnur áskorun við og það er aukin eftirspurn eftir einnota hönskum á heimsvísu, sérstaklega í Evrópu og Bandaríkjunum. Þessi aukning veldur því að erfitt getur verið að stækka pantanir þar sem framleiðslan sé í hámarki alls staðar, auk þess sem tafir á afhendingu hafa orðið vegna áhrifa veirunnar í þeim löndum sem framleiðsla fer fram í. Samhliða því að eftirspurn eftir hráefninu hefur aukist, hefur hráefniskostnaður hækkað og gengi krónunnar fallið.

Erfitt er að stækka pantanir þegar skortur er á hráefni.
Erfitt er að stækka pantanir þegar skortur er á hráefni. Ljósmynd/Strongwear

Jóhanna Rósa segir mikilvægt í þessum kringumstæðum að vera með stóra viðskiptavini sem standa við bakið á fyrirtækinu. Það er ákveðin samfélagsleg ábyrgð fólgin í því að stærri fyrirtæki haldi áfram að vera í viðskiptum við smærri fyrirtæki þannig að samkeppni sé haldið við og smærri fyrirtæki lifi af. Hún bætir við að fyrirtækið þeirra, Strongwear, leggi mikið upp úr að bjóða hágæða vöru á sanngjörnu verði.

Vakandi fyrir tækifærum

Þá er ekki síður mikilvægt að vera með sveigjanlegan kúnnahóp og þótt sjávarútvegurinn sé undirstaðan sé einnig að finna viðskiptavini Strongwear innan landbúnar, byggingar- og lyfjaiðnaðar og bifvélaverkstæða, svo fátt sé nefnt.

Mikil tæknivæðing hefur átt sér stað innan sjávarútvegs á undan- förnum árum sem hefur meðal annars falið í sér fækkun starfa. „Það er ekki endilega góð þróun fyrir okkur, en maður verður að líta á allt sem tækifæri og vera vakandi fyrir breytingum á markaði,“ segir Jóhanna Rósa sem bætir við að auknar kröfur um gæði í sjávarútvegi skapi grundvöll fyrir auknar kröfur til þess búnaðar sem nýttur er í þeim störfum sem eru í greininni, þar á meðal vettlinga og annars hlífðarbúnaðar. „Við höfum valið að bjóða fyrst og fremst upp á framúrskarandi gæði í samvinnu við sterka framleiðendur.“

Þegar ekki duga vettlingatökun þarf að hafa góða vettlinga.
Þegar ekki duga vettlingatökun þarf að hafa góða vettlinga. Ljósmynd/Strongwear

„Það eru forréttindi að vera í eigin atvinnurekstri en því fylgir líka ábyrgð og í því samhengi höfum við verið að kanna hvað við í Strongwear getum lagt af mörkum varðandi sjálfbæra þróun. Það sem liggur beinast við er að byrja á því að skoða kolefnissporið, hvaðan erum við að kaupa vöruna og hvar getum við gert betur í því sem við erum að gera. Þótt við séum lítil getur maður alltaf sagt að það sem við þó gerum telur,“ útskýrir hún.

Gaman að vera í framlínunni

Spurð um framtíðina svarar Jóhanna Rósa skýrt að markmiðið sé að styrkja Strongwear-vörumerkið, auka markaðshlutdeildina og vöruframboðið. „Eitt sem er á döfinni er nýir vettlingar sem við teljum að muni hjálpa okkur í því enda eru þeir léttari og liprari en þeir sem eru nú þegar á markaðnum, enda skipta þægindi miklu máli og þá sérstaklega fyrir sjómenn sem oft á tíðum vinna langar vaktir við erfiðar aðstæður. Þá verði gæði og þægindi að spila saman til að tryggja öryggi þeirra.“

Hvað varðar að starfa með bróður sínum segir Jóhanna Rósa samstarfið hafa gengið mjög vel. „Við erum náin og köstum hugmyndum mikið á milli okkar enda erum við með Strongwear í sífelldri endurskoðun um hvað megi betur fara. Við skiptum á milli okkar verkum en getum þó gengið í öll verk, sem gerir daginn fjölbreyttan, lifandi og skemmtilegan. Það er gaman og gefandi að geta verið líka í framlínunni og fundið hvað það er sem viðskiptavinurinn leitar eftir enda erum við hér til að þjónusta viðskiptavini Strongwear og leggjum við mikið upp úr að veita þeim okkar allra bestu þjónustu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: