Vilja auka hvalveiðar í þágu vistkerfisins

Øyvind A. Haram, samskiptastjóri samtaka norskra sjávarfangsfyrirtækja, segir að hrefnuveiðar …
Øyvind A. Haram, samskiptastjóri samtaka norskra sjávarfangsfyrirtækja, segir að hrefnuveiðar séu mikilvægur þáttur í að halda jafnvægi í vistkerfi hafsins. Ljósmynd/Aðsend

„Ef það á að taka nokkuð úr haf­inu verður að hugsa heild­stætt hvað varðar alla fæðukeðjuna,“ seg­ir Øyvind A. Haram, sam­skipta­stjóri sam­taka norskra sjáv­ar­fangs­fyr­ir­tækja (Sjømat Nor­ge), í sam­tali við 200 míl­ur. En sam­tök­in hafa í um­sögn til norsku fiski­stof­unn­ar (Fisker­idirek­toratet) við breyt­ingu norskra reglu­gerða um hval­veiðar sagt sjálf­bær­ar hrefnu­veiðar mik­il­væg­an þátt í stjórn­un vist­kerfi hafs­ins og hvetja sam­tök­in til auk­inna veiða.

„Það er aug­ljóst að hvöl­um hef­ur fjölgað í kjöl­far þess að þeir hafa í aukn­um mæli verið friðaðir. Það segja vís­inda­menn­irn­ir og sjó­menn­irn­ir líka, enda sjá þeir það með eig­in aug­um,“ seg­ir hann og bend­ir á að norsk­ir vís­inda­menn hafa ráðlagt út­gáfu veiðiheim­ilda sem nema um 1.200 hrefn­ur, en færri en 500 dýr hafa verið veidd í Nor­egi.

Telja sam­tök­in of litla veiði geta valdið vanda­mál­um fyr­ir líf­ríkið í haf­inu vegna afráns og hvetja þau norsk stjórn­völd til þess að leita leiða til þess að auka nýliðun í grein­inni. „Töl­urn­ar sýna að það er mögu­leiki að halda úti sjálf­bær­um veiðum á hrefnu. Og ef maður veiðir ekki hval verða til vanda­mál fyr­ir aðrar teg­und­ir. Hrefn­an þarf tölu­vert af fæðu úr haf­inu,“ seg­ir Haram sem seg­ir mik­il­vægt að veiðar séu stundaðar á grunni vís­inda­legra gagna. „Ef það er lítið um hvali í haf­inu á ekki að veiða þá.“

Hann viður­kenn­ir að ekki sé ná­kvæm tala til um um­fang afráns hvala og að þörf sé á frek­ari rann­sókn­um á því sviði. „Það hef­ur verið gefið í skyn, af hálfu vís­inda­manna, að um er að ræða tölu­vert mikið magn. Það er al­veg ljóst að þegar hvöl­um fjölg­ar þá borða þeir aðrar teg­und­ir í haf­inu og það get­ur á endamum komið niður á sjó­mönn­um.“

Auk­in neysla til að halda jafn­vægi

Haram seg­ir að í aukn­um mæli sé bent á hafið sem tæki­færi til mat­væla­fram­leiðslu til framtíðar, hvort sem um er að ræða stjórn­mála­menn, sam­tök eða aðra. „Það er mjög lítið hlut­fall af því sem við á jörðinni borðum sem kem­ur úr haf­inu. Við not­um gríðarleg landsvæði til þess að rækta mat og það er ljóst að það verður lögð auk­in áhersla á hafið, tæki­fær­in í haf­inu, og þá verður nýt­ing­in að vera sjálf­bær. Þá er al­veg eðli­legt að líta til þess að hval­ur er eitt af því sem synd­ir um hafið. Við mun­um þurfa að borða meira af því sem er neðar í fæðukeðjunni og mun­um þurfa að borða meiri hval sam­hliða því.“

mbl.is