Breskir fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað mjög um útbreiðslu kórónuveiru þar í landi og meðal annars borið aðgerðir breskra stjórnvalda til að hefta útbreiðslu smits saman við aðgerðir Asíuríkja. Breski miðillinn The Telegraph er einn þeirra og segir hann aðgerðir Breta litast af þeirri afstöðu að ekki sé með góðu móti hægt að stöðva útbreiðslu nýs víruss. Á sama tíma setja Asíuríki alla áherslu á að ná utan um vandann snemma í von um að draga úr dauðsföllum innan sinna landamæra.
Á meðan flestum ríkjum Suðaustur-Asíu hefur tekist að halda samfélagi sínu gangandi, fyrirtækjum í rekstri og dauðsföllum niðri ríkir neyðarástand á Bretlandseyjum með umfangsmiklum lokunum og miklu mannfalli. Til að skilja hvers vegna þessi mikli munur er uppi er nauðsynlegt að líta til þeirra ólíku aðgerða sem gripið hefur verið til í yfirstandandi faraldri kórónuveiru.
„Að leita skjóls er viðbragð sem heftir félagslegar athafnir flestra einstaklinga og er ólíkt sóttkví og einangrun. Aðgerðin tekur til samfélagsins alls og er almenningur þá beðinn um að halda kyrru heima fyrir til að tryggja eigið öryggi,“ segir í aðgerðum stjórnvalda á Taívan gegn faraldri inflúensu. Var áætlun þessi fyrst sett á blað þar í landi árið 2006 og gerir hún einnig ráð fyrir umfangsmiklum lokunum í samfélaginu.
Í aðgerðum stjórnvalda í Singapúr er talað um kórónuveirur, sem er hópur af skyldum veirum sem valda sjúkdómum í spendýrum og fuglum, og hvernig þær geta stökkbreyst á tiltölulega skömmum tíma, ekki ólíkt inflúensu. Stökkbreytingar í erfðaefni veira eru algengar og valda breytingum á eiginleikum veiranna. Í dæmi inflúensuveiru eða flensu eru það tíðar breytingar á erfðaefni veirunnar sem með tímanum leiða til þess að ónæmiskerfi mannsins þekkir hana ekki lengur með tilheyrandi sýkingarhættu á nýjan leik. Er þetta meðal annars ástæða þess að árlega koma upp faraldrar inflúensu.
„Markmið okkar er að koma þjóðinni í gegnum fyrstu bylgju faraldurs með því að draga úr dauðsföllum og smitum með hjálp aðgerða í samræmi við áætluð heilsufarsleg áhrif á almenning á sama tíma og tryggður er undirbúningur að því að bólusetja þjóðina alla,“ segir meðal annars í áætlun Singapúr.
Aðgerðir Breta við hugsanlegum heimsfaraldri voru uppfærðar eftir útbreiðslu svínainflúensu (H1N1) árið 2009, en um var að ræða sýkingu í öndunarfærum með skyndilegum hita og vöðvaverkjum. „Það verður ekki hægt að stöðva útbreiðslu eða uppræta heimsfaraldur inflúensu, hvorki í upprunaríkinu né í Bretlandi, því smit verða of hröð og víðtæk,“ segir í áætlunum Breta vegna faraldurs inflúensu. Þá segir þar einnig að vírusinn muni óhjákvæmilega dreifa úr sér og að staðbundnar aðgerðir til að draga úr smiti muni skila mjög takmörkuðum árangri á landsvísu.
Í viðbragðsáætlun Íslands vegna heimsfaraldurs er miðað að því að lágmarka áhrif faraldurs með því með því meðal annars að hindra eða seinka eins og kostur er að faraldur berist til landsins. Þá er lögð áhersla á að lágmarka smithættu og draga úr útbreiðslu faraldurs innanlands; styrkja nauðsynlega starfsemi og treysta innviði samfélagsins; beita samhæfðum vinnubrögðum og tryggja upplýsingaflæði; efla vöktun og farsóttagreiningu svo eitthvað sé nefnt.
Í umfjöllun The Telegraph segir að blaðið hafi sankað að sér öllum opinberum upplýsingum um heimsfaraldursaðgerðir Suðaustur-Asíuríkja og borið saman við þær bresku. Þar kveður ekki einungis við annan og ólíkan tón heldur eru áherslur með allt öðrum hætti. Á Bretlandi er litið svo á að ekki sé unnt að stöðva útbreiðslu nýs víruss á meðan Asíuríki leggja áherslu á aðgerðir til að lækka mannfall. Þannig gera Asíuríkin öll ráð fyrir eftirfarandi aðgerðum:
Í Suður-Kóreu eru nú alls um 10.700 kórónuveirusmit og hafa 237 látist þar vegna Covid-19, sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur. Frá upphafi faraldurs hafa stjórnvöld þar lagt mikla áherslu á skimanir og er nú búið að taka sýni úr yfir 500 þúsund manns, en áður en faraldurinn hófst voru 17 fullkomnar rannsóknastofur starfræktar í Suður-Kóreu til að annast prófanir af þessum toga.
„Á fyrstu stigum faraldurs þegar prófanir eru umfangsmiklar gæti þurft að grípa til einkastofa til að rannsaka sýni svo hægt verði að greina ný tilfelli sýkingar,“ segir til að mynda í áætlun Suður-Kóreu. Í Taívan er einnig lögð mikil áhersla á skimanir og segir meðal annars í þeirra áætlun að það sé mikilvæg til að fylgjast náið með stökkbreytingum vírussins.
Ísland er í hópi þeirra ríkja sem lagt hefur áherslu á skimun fyrir Covid-19 og er nú búið að taka hátt í 44 þúsund sýni hér á landi. Fyrsta staðfesta smit kórónuveiru á Íslandi greindist 28. febrúar síðastliðinn og hófst skimun fyrir sjúkdómnum 13. mars.
Í aðgerðaáætlunum Asíuríkja, þ.á m. Víetnam, Malasíu og Taílands, er mikil áhersla lögð á að rekja smit og senda þá sem hugsanlega hafa smitast af veirunni í sóttkví. „Smitrakning er sú aðgerð að bera kennsl á þá einstaklinga sem hafa hugsanlega smitast eftir að hafa verið berskjaldaðir fyrir smiti svo koma megi í veg fyrir frekar útbreiðslu sjúkdómsins. Nauðsynlegt kann að vera að rekja ferðir, kanna farsímaupplýsingar eða beita sóttkví,“ segir í áætlun Singapúr.
Stjórnvöld í Taívan segja harðar aðgerðir og skjót viðbrögð heilbrigðiskerfisins nauðsynleg komi upp skyndilegur heimsfaraldur nýrrar inflúensu. Til þess yrði gripið svo milda megi heilsufarsleg áhrif og tryggja samfélagslega og efnahagslega virkni á meðan heimsfaraldur gengur yfir. Eins leggur Suður-Kórea mikla áherslu á smitrakningu og heimasóttkví í sínum vörnum.
Smitrakning hefur einnig verið stór þáttur í aðgerðum Íslands og hefur smitrakningarteymi almannavarna til að mynda tekist að rekja nær öll smit, en fjöldi staðfestra smita eru nú 1.778. Einnig hefur verið búið til sérstakt smitrakningarapp í snjallsíma sem fólk getur nálgast og er tilgangur að auðvelda rakningu. Sambærilegt app hefur einnig verið notað erlendis, meðal annars í ríkjum Asíu.
Mjög hefur verið rætt um varnarbúnað framlínufólks í Evrópu og Bandaríkjunum og þann mikla skort sem á honum hefur verið í sumum ríkjum. Hafa þannig meðal annars birst fréttir af því þegar læknar og hjúkrunarfræðingar í stórborginni New York í Bandaríkjunum neyddust til að búa sér til hlífðarsloppa úr ruslapokum eftir að lagerar sjúkrahúsa tæmdust.
Skortur á nauðsynlegum varnarbúnaði hefur einnig verið mikið til umræðu á Bretlandseyjum. Í viðtali við The Telegraph lýsir læknirinn David Wrigley ástandinu og hvernig samstarfsfólk hans hafi leitað allra ráða við að verða sér úti um góðan hlífðarbúnað. „Þau sögðust vera að klára grímur og annan varnarbúnað; Getum við deilt þessu, fengið lánað eða flutt á milli heimshorna? Þetta á ekki að gerast, starfsfólkið á að fá að einbeita sér að sjúklingum. Það er í verkahring hins opinbera að sjá til þess að við höfum þann búnað sem nauðsynlegur er til að hjálpa sjúklingunum okkar,“ sagði hann.
Annar læknir, Asif Munaf, sagði í sama viðtali hátt í 20 lækna nú látna vegna Covid-19. Vert er þó að taka fram að talið er að hátt í 100 heilbrigðisstarfsmenn séu nú látnir á Bretlandseyjum. „Ég átti aldrei von á því að vera í þróuðu landi, fyrsta heims ríki, íklæddur plastsvuntum. Hver hefði getað ímyndað sér það. Þessi tilhugsun veldur mér ekki einungis vonbrigðum heldur hræðir mig einnig. Ég er hræddur um fjölskyldu mína þegar ég fer heim,“ sagði Munaf.
Í Singapúr hafa stjórnvöld ráðlagt öllum fyrirtækjum þar í landi að eiga til á lager andlitsgrímur, hanska og handspritt. Þá er einnig ráðlagt að þessar birgðir dugi til minnst þriggja mánaða og allt upp í sex mánuði. Að sama skapi hafa suðurkóresk stjórnvöld mælst til þess að heimili búi ávallt yfir helstu nauðsynjavörum til allt að fjögurra vikna. Í Taívan er fjölskyldan sögð undirstaða samfélags og um leið kjarninn þegar kemur að því að undirbúa aðgerðir við faraldri. „Við hefðbundnar aðstæður ættu á heimilinu að vera til nægjanlega margar andlitsgrímur handa allri fjölskyldunni. Þannig má koma í veg fyrir skort á andlitsgrímum og hamstri á þeim í miðjum faraldri,“ segir þar meðal annars.
Fram hefur komið í fjölmiðlum hér á landi að við upphaf faraldurs var birgðastaða góð, nóg var til af andlitsgrímum, hönskum og sóttvarnasloppum fyrir heilbrigðisstarfsfólk og annað framlínufólk. Eftir því sem leið á versnaði staðan og hefði hún getað orðið enn verri ef ekki hefði tekist að tryggja nýja sendingu af varnarbúnaði hingað.
Í aðgerðaáætlun Asíuríkja er lögð rík áhersla á náið eftirlit með komufarþegum á öllum landamærastöðvum, s.s. á flugvöllum og höfnum. Skimun og sóttkví er sagt mikilvægt til að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið. Er þetta algjör andstaða við Bretland en þar eru farþegar einungis hvattir til að láta vita finni þeir fyrir einhverjum flensueinkennum. Þá er nú í flestum ríkjum Asíu einnig búið að sjá til þess að hægt sé að skima komufarþega fyrir Covid-19 á landamærastöðvum og er skylda að komufarþegar sæti 14 daga sóttkví. Slíkt er ekki raunin á Bretlandseyjum.
Landamæri Íslands héldust opin á meðan flugsamgöngur vörðu. Ekki var tekin sú ákvörðun að senda erlenda ferðamenn í sóttkví við komuna til Keflavíkur. Almannavarnir skilgreindu nokkur svæði sem áhættusvæði 26. febrúar og var í kjölfarið öllum sem komu til landsins frá þessum svæðum gert að sæta 14 daga sóttkví. Tæpum mánuði seinna, eða 19. mars, voru öll lönd skilgreind sem áhættusvæði. Allir íslenskir ríkisborgarar og fólk með búsetu á Íslandi sem kom til landsins eftir dvöl erlendis var þá gert að sæta 14 daga sóttkví.
Þótt öll ríki Suðaustur-Asíu geri í áætlunum sínum einnig ráð fyrir umfangsmiklum lokunum, líkt og gripið hefur verið til í Evrópu og Bandaríkjunum, hefur þeim flestum, með vísan í það sem að ofan segir, tekist að koma í veg fyrir þær og mildað þannig efnahagslegt áfall. Eru ríki á borð við Taívan, Singapúr, Suður-Kóreu, Víetnam og Malasíu nú öll sögð í góðri stöðu efnahagslega eftir faraldurinn. Á sama tíma ríkir mikil óvissa um efnahag Bandaríkjanna og ríkja Evrópu, þ.á m. Íslands.
Til þess að lesa þessa frétt í fullri lengd þarftu að skrá þig inn.
Nýskráning er ókeypis og án skuldbindingar.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.