Samdráttur í afla nemur 76 þúsund tonnum

Á fyrsta árshelmingi fiskveiðiársins hefur orðið 15% samdráttur í afla …
Á fyrsta árshelmingi fiskveiðiársins hefur orðið 15% samdráttur í afla miðað við sama tímabil á síðasta fiskveiðiári. Ljósmynd/Þröstur Njálsson

Þegar yfirstandandi fiskveiðiár var hálfnað nam heildarafli íslenska flotans 420 þúsund tonnum en þegar síðasta fiskveiðiár var hálfnað var heildarafli flotans 496 þúsund tonn. Samdrátturinn milli fiskveiðiára nemur því 76 þúsund tonnum, eða 15%, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Þá nam samdráttur í botnfiskafla milli fiskveiðiára um 26 þúsund tonnum, eða 10%, þar af 6 þúsund tonn í þorski og svipað í ýsu. „Almennt er kvótastaðan í bolfiski í góðu jafnvægi og heldur rýmri en á fyrra fiskveiðiári, sérstaklega hjá krókaaflamarksbátum sem einungis hafa notað rúm 44% aflaheimildanna þegar árið er hálfnað,“ segir á vef stofnunarinnar.

Bent er á að mesti samdrátturinn í botnfisk fala sé í október, nóvember og janúar, en það er á þessum tíma sem veðurfar hefur haft veruleg áhrif á sjósókn.

Mynd/Fiskistofa

Mesti samdrátturinn varð í uppsjávarafla eða sem nemur ríflega 20% eða um 50 þúsund tonnum. Nokkur aukning var í síld en samdráttur var upp á 20 þúsund tonn í kolmunna og rúm 38 þúsund tonn í makríl, en  seinni hluti makrílvertíðarinnar ár hvert nær inn á fyrstu mánuði nýs fiskveiðiárs.

mbl.is