Fylgjast náið með Isavia og Icelandair Group

Katrín Jakobsdóttir settist niður með blaðamanni Morgunblaðsins vegna stöðunnar í …
Katrín Jakobsdóttir settist niður með blaðamanni Morgunblaðsins vegna stöðunnar í efnahagsmálum. mbl.is/Árni Sæberg

Það er í mörg horn að líta hjá stjórnvöldum þessa dagana. Aðgerðapakki tvö hefur litið dagsins ljós og forsætisráðherra er afdráttarlaus með að fleiri pakkar séu í bígerð. Á sama tíma fylgjast stjórnvöld náið með stöðu mála hjá kerfislega mikilvægum fyrirtækjum á borð við Icelandair Group og Isavia.

Að lokinni kynningu nýs aðgerðapakka ríkissjóðs settist Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra niður með blaðamanni og fór yfir stöðu mála sem hefur breyst dag frá degi allt frá því að kórónuveiran gerði sig heimakomna hér á landi. Katrín segir að þótt faraldurinn sé í rénun hér á landi muni ríkisstjórnin kynna fleiri aðgerðir til sögunnar á komandi vikum og mánuðum.

Hvers vegna var ráðist í þessar aðgerðir á þessum tímapunkti?

„Við erum að skoða hvar eldarnir brenna. Það stefnir í 15% atvinnuleysi, þannig að stóru áherslurnar nú eru að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki. Við komum að einhverju leyti til móts við stóru fyrirtækin í fyrri pakkanum með brúarlánunum. Þá viljum við líka koma til móts við þau fyrirtæki sem gert var að loka vegna ákvörðunar sóttvarnayfirvalda. Einnig viljum við búa til frekari atvinnutækifæri. Í fyrri pakkanum kynntum við fjárfestingarátak sem var tiltölulega einfalt að ráðast í. Nú höfum við haft aðeins meiri tíma til að skoða stöðuna og höfum valið nýsköpun, þekkingargeirann, skapandi greinar og matvælaframleiðslu, sem ég tel að feli í sér mikil tækifæri. Þá erum við að koma inn með félagslegar aðgerðir. Sumir kunna að segja að við séum að gera það snemma í ferlinu en reynslan af hruninu 2008 kennir okkur að það borgar sig, t.d. í geðheilbrigðismálunum, að taka utan um viðkvæma hópa sem eiga undir högg að sækja.“

Er nógu langt gengið?

Nýjustu aðgerðir eru kallaðar aðgerðapakki tvö. Þið hafið hins vegar tvívegis áður kynnt mótvægisaðgerðir, fyrst í ráðherrabústaðnum 10. mars, og svo í Hörpu 21. mars. Sú gagnrýni hefur heyrst, bæði frá atvinnulífi og stjórnarandstöðunni, að þið bregðist of seint við. Hefði komið til greina að grípa til enn umfangsmeiri aðgerða nú til að fyrirbyggja tjón og skakkaföll í hagkerfinu?

„Pakkar eitt og tvö fela í sér mikla viðspyrnu. Það sést á fjárfestingaáætluninni, breytingum á skattalögum til að snúa hjólunum af stað og núna áherslunni á fyrrnefnda geira. Þess vegna erum við að sækja fram með þessum pökkum. En eru þeir nógu stórir? Þessi pakki er um 60 milljarðar að umfangi þótt hluti af þeim fjármunum sé lánveitingar til fyrirtækja. Annað er bein útgjöld eða hliðrun á tekjuskatti. En báðir þessir pakkar eru gríðarlegir að umfangi í öllu sögulegu samhengi. Af hverju er þetta ekki síðasti pakkinn? Það er vegna þess að við erum í atburðarás þar sem við ákveðum ekki tímalínuna. Við erum að fást við veirufaraldur sem stýrir tímalínunni. Þetta eru aðstæður sem maður hélt að maður þyrfti aldrei að takast á við. Og það eru allir á sama báti, stjórnvöld um allan heim.“

Hefðu styrkirnir þurft að vera hærri?

Þið hafið ákveðið að veita fyrirtækjum beina styrki vegna lokana sem þau hafa þurft að grípa til á grundvelli ákvarðana stjórnvalda. Þessir styrkir verða að hámarki 2,4 milljónir fyrir hvert fyrirtæki. Er ekki hætt við að það dugi mjög skammt hjá mörgum sem orðið hafa fyrir algjöru tekjutapi? Hefðu þessir styrkir ekki þurft að verða miklu hærri?

„Þarna erum við að horfa á litla rekstraraðila sem hafa full færi á að koma sterkir inn þegar banninu verður aflétt. Við erum að tala um hárgreiðslustofur, snyrtistofur, fyrirtæki sem bjóða upp á þjónustu í mikilli nánd. Þar verður mikið að gera þegar lokuninni linnir. Oft eru þetta litlir vinnustaðir, oft með mjög lítinn efnahagsreikning, sem hafa jafnvel í sumum tilvikum aldrei þurft að leita eftir fyrirgreiðslu til viðskiptabanka sinna um nokkurn skapaðan hlut og eiga því ekki heima í stærri úrræðum sem við stillum upp. Þessir aðilar hafa auk þess möguleika á að leita í lánafyrirgreiðsluna sem við kynntum og fela í sér allt að sex milljóna króna lán. Þá dregst reyndar styrkurinn frá lánsfjárupphæðinni en það getur þó munað um þennan þátt, ekki síst þegar litið er til þess að vaxtakjörin eru betri en annars staðar bjóðast.“

Lagaheimildir til staðar og skýrar

Hafið þið haft fulla vissu fyrir því frá upphafi að lagaheimildir séu til staðar til að leggja þessar umfangsmiklu kvaðir á samfélagið?

„Það var farið yfir það í upphafi. Þessar ákvarðanir eru auðvitað ekki teknar í tómarúmi. Við höfum átt fundi með heilbrigðisráðherra, sóttvarnalækni, landlækni og yfirlögregluþjóni almannavarna sem hafa staðið í brúnni. Þar höfum við fundað um tillögur þeirra. Þar að auki eru víðtækar heimildir í sóttvarnalögum.“

Hefur ekki komið til greina að setja sérstök lög til að taka af allan vafa um heimildir yfirvalda í þessu efni?

„Við teljum þessar heimildir fullnægjandi. Nú höfum við hins vegar í höndum tillögur sóttvarnalæknis um að allir sem hingað komi á næstu mánuðum sæti sóttkví. Það kallar á ráðstafanir sem við höfum ekki séð lengi varðandi t.d. landamæraeftirlit. Það eru mál sem heyra undir dómsmálaráðherra og hún mun þurfa að stilla þá strengi af.“

Ákvarðanir virðast hafa verið teknar þannig að sóttvarnalæknir hefur lagt tillögur fyrir heilbrigðisráðherra, sem síðan hefur samþykkt þær óbreyttar. Í Bretlandi hefur t.d. verið spurt hvort hagfræðingar hafi ekki verið fengnir til að leggja mat á áhrif aðgerðanna áður en ákvarðanir voru teknar. Hefur það verið gert hér á landi?

„Þetta er margþætt. Í fyrsta lagi gera sóttvarnalögin ráð fyrir því að það sé í verkahring heilbrigðisráðherra að setja takmarkanir á samkomuhald og annað slíkt. Það gerir hún að tillögu sóttvarnalæknis. Heilbrigðisráðherra hefur tekið þetta upp í ríkisstjórn þegar slíkar tillögur hafa komið fram. Við höfum fylgt því pólitíska leiðarljósi að heilbrigðissjónarmiðin hafi forgang en af því að þú veltir fyrir þér þessu mati á efnahagslegu afleiðingum verð ég að segja að það er mjög gild spurning. Öll samfélög eru að spyrja sig að því núna hvaða afleiðingar þessar ákvarðanir muni hafa, ekki aðeins á efnahag ríkjanna núna heldur einnig efnahags- og velferðarkerfi framtíðarinnar. Við erum að skoða það núna. En nú er ljóst að samdráttur sem við héldum að yrði skammvinnur mun dragast mun meira á langinn. Það er hins vegar ekki aðeins vegna ákvarðana okkar sjálfra heldur þeirra aðgerða sem fela í sér lokun landamæra flestallra ríkja.“

En voru einhverjir hagfræðingar kallaðir til við mat á því hvað þetta myndi kalla yfir hagkerfið, t.d. seðlabankastjóri?

„Við höfum fundað töluvert með seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og aðalhagfræðingi bankans. Við höfum einnig kallað hagfræðinga til fundar Þjóðhagsráðs þar sem sitja aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar sveitarfélaga og Seðlabankans, auk forystumanna ríkisstjórnarinnar, og það er mjög vandmeðfarið hagsmunamat að segja hver sé skaðinn af því annars vegar að loka samfélaginu eins og við erum að gera, þótt við göngum ekki lengst allra þjóða í því, eða það að ná ekki tökum á veirunni, sem getur haft gríðarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér eins og við erum að sjá koma fram víða, við getum nefnt Ítalíu sem eitt dæmi. Kannski hefur enginn treyst sér til að meta þetta nákvæmlega eins og lóð á vogarskál en við höfum þó farið yfir möguleikana með ýmsum aðilum.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnir aðgerðir stjórnvalda.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnir aðgerðir stjórnvalda. mbl.is/Árni Sæberg

Læknarnir ráða för

Þannig að þegar sóttvarnalæknir gerir tillögur til ráðherra um aðgerðir standa ekki að baki þeim tillögum sérfræðiálit frá hagfræðingum um mögulegar afleiðingar sem af þeim kunna að hljótast?

„Nei. Matið hefur verið á grundvelli heilbrigðissjónarmiða. Í kjölfarið höfum við farið yfir það hvað það þýðir fyrir okkur efnahagslega og samfélagslega.“

Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir að þetta ástand vari lengi og er úthald ríkissjóðs takmarkalaust í því tilliti?

„Nei, það er ekki takmarkalaust. En eins og ég segi er það betra núna en árið 2008 þegar við féllum fyrst allra og áttum lítinn sem engan aðgang að lánsfjármagni. Staðan hér heima er önnur nú, hvort sem litið er til gjaldeyrisvaraforðans, peningastefnunnar og skuldsetningarinnar, sem á þeim tíma var að stóru leyti gengistryggð, bæði hjá atvinnulífi og heimilum. Við verðum hins vegar einhver ár að vinna okkur út úr þessu og þess vegna skiptir miklu máli að huga strax að sókninni og verðmætasköpun til framtíðar.“

Minni munu fá meiri stuðning

Í nýjustu tillögunum kemur fram að styrkja eigi fjölmiðla í þessu ástandi um 350 milljónir króna. Þar er kveðið á um að minni fjölmiðlar eigi að fá meiri stuðning en þeir sem stærri eru. Hvers vegna er það?

„Nú verður mikilvægt að heyra sjónarmið þingsins um þetta efni. Ríkisstjórnin hefur heitið því að koma til móts við stöðu fjölmiðlanna á þessu kjörtímabili. Við höfum haft frumvarp í þinglegri meðferð. Við sáum hins vegar fram á að það myndi taka lengri tíma að afgreiða það út vegna ástandsins og því vildum við sýna á þessi spil og að það væri sértækur stuðningur við einkarekna fjölmiðla. Það mun muna um hann. Í fjáraukalagafrumvarpinu er einfaldlega kveðið á um að það megi setja hámark á hvern fjölmiðil og eins lágmark sem minni fjölmiðlar muni njóta góðs af. Endanleg útfærsla liggur svo í höndum menntamálaráðherra, sem leitar leiðsagnar þingsins um útfærsluna.“

Nú hefur verið talað um samstöðu í núverandi ástandi og að ekki eigi að draga fólk og fyrirtæki í dilka. Með því að takmarka stuðninginn við stærstu miðlana er sannarlega verið að gera það, eða hvað?

„Það er alltaf vandasamt þegar fjármunir eru ekki ótakmarkaðir. Ég held að hvernig sem svona stuðningur er útfærður hljóti hann alltaf að hafa eitthvert hámark. Hins vegar held ég að það sé mikilvægt að horfa til ritstjórnarkostnaðar fjölmiðla því þetta er fyrst og fremst rökstutt með tilliti til lýðræðislegs hlutverks þeirra. Svo má alltaf deila um hvort hygla eigi litlum fjölmiðlum sérstaklega og þá með tilliti til nýsköpunar á fjölmiðlamarkaði.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðherra, kynnir aðgerðir stjórnvalda.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðherra, kynnir aðgerðir stjórnvalda. mbl.is/Árni Sæberg

Hluti af þekkingargeiranum

Á kynningarfundinum var greint frá því að veita ætti 250 milljónum í aukin listamannalaun. Þar bentir þú á að listamannalaun skiluðu sér með margföldunaráhrifum út í hagkerfið. Eru þau áhrif meiri en í tilfelli annarra starfa samfélagsins?

„Nei, en stundum er talað um að listir leiði ekki af sér neina verðmætasköpun og að þetta séu bara dúsur frá hinu opinbera. Það er ekki rétt, og það var það sem ég vildi leggja áherslu á í kynningunni. Þessi aðgerð er í sama anda og árið 2009 þegar við fjölguðum fólki á listamannalaunum. Þessi stuðningur hefur skipt verulegu máli því fjárfesting í skapandi greinum hefur stækkað þennan geira og haft mikil afleidd áhrif, t.d. í tengslum við ferðaþjónustuna. Menningin skiptir máli rétt eins og náttúran okkar. Listamannalaunin eru ekki dýr en þau hafa margfeldisáhrif eins og mörg önnur störf og þetta er í raun hluti af stuðningi við þekkingargeirann.“

Nú þegar við horfum yfir bóksölu sést að rithöfundar njóta góðs af núverandi ástandi. Er þörf á því að styðja þá sérstaklega umfram aðra þegar svo er ástatt?

„Menntamálaráðherra hefur kynnt hvernig hún ætli að dreifa þessum skapandi greinum. Það er mest í kvikmyndasjóð og í tónlistarsjóð. Það er til dæmis alveg ljóst að tónlistarmenn hafa orðið fyrir miklum afkomubresti í þessu ástandi vegna viðburðahalds, sem áfram verður takmarkað um einhvern tíma.“

Enn verið að semja um launahækkanir

Enn er verið að semja um launahækkanir hjá opinberum stéttum og berast tíðindi af nýjum samningum í hverri viku. Það er eins og fólk sé statt í öðrum veruleika en almenni vinnumarkaðurinn þar sem tugir þúsunda hafa misst vinnuna. Þá eru í pípunum hækkanir á grundvelli lífskjarasamninganna í byrjun næsta árs. Hefði ríkisstjórnin ekki þurft að mæla fyrir lögum sem frystu allar hækkanir til að koma í veg fyrir sjálfsköpuð högg á atvinnulífið í þessari stöðu?

„Við höfum verið að ljúka ýmsum samningum á opinbera markaðnum og verið er að greiða atkvæði um nokkra samninga. Einhver félög hafa einnig fellt samninga. Við höfum haldið okkar striki og samið innan ramma lífskjarasamningsins sem var gerður fyrir rúmu ári. Við munum sjá það þegar líður fram á árið hvort við þurfum að taka launamál til endurskoðunar. Mikið hefur verið spurt um laun stjórnmálamanna og ég hef sagt við því að það er ekki útilokað að við, ásamt öðrum toppum hjá hinu opinbera, þurfum að taka á okkur einhverjar skerðingar í þeim efnum. Við höfum hins vegar sagt að meðan við erum stödd í þessari óvissu höldum við okkar striki með samninga sem hafa verið lengi, lengi í farvatninu. Stéttir hafa lengi verið samningslausar og ég tel mikilvægt að ljúka samningum og ég er mjög ánægð með að það hafi tekist að hafa þá innan fyrrnefnds ramma. Sömuleiðis þykir mér leitt að sjá að sumir samningar hafi verið felldir.“

Endurskoða þarf launamálin

En eru ekki forsendur lífskjarasamninganna brostnar nú þegar? Er ábyrgt að semja á grundvelli samninga sem standast ekki skoðun?

„Það þarf síðan að taka þá stöðu þegar við áttum okkur betur á því hver halli ríkissjóðs verður, hvaða áhrif þær aðgerðir sem við erum að boða muni hafa á efnahagsmálin. Við höfum verið að kynna aðgerðir sem enn hafa ekki ratað inn í hagspár. Nú eigum við eftir að sjá hvaða áhrif þau munu hafa og þá munum við þurfa að gera áætlanir á grundvelli þess.“

Í hversu mikinn halla stefnir á þessu ári?

„Við vitum að hallinn verður verulegur á þessu ári. Ég ætla ekki að segja nákvæmlega hver hann verður því ég get ekki sagt nákvæmlega fyrir um það.“

Stefnir í 250 milljarða halla

Er mögulegt að hann verði 300 milljarðar?

„Við erum stöðugt að uppfæra sviðsmyndir okkar. Þær gera nú ráð fyrir allt að 250 milljarða halla.“

Er ekki óhjákvæmilegt að í kjölfar svona hamfara, þegar rykið er sest, þurfi ríkið að fara í naflaskoðun sem einhverjir kalla óþarfa en sumir myndu kalla verkefni sem mögulega mættu missa sín í samfélagi sem er ekki nándar nærri eins ríkt og það var fyrir þremur mánuðum?

„Auðvitað hangir svona verkefni á nálgun. Í fyrsta lagi finnst mér þessi faraldur sýna hversu mikilvægt það er fyrir okkur að eiga heilbrigðiskerfi eins og við eigum. Þann sveigjanleika sem það sýnir til að bregðast við þessum faraldri. Það segir mér að það skipti máli að eiga svona grunnstoðir. Ég get sagt það sama um menntakerfið, sem nánast yfir nótt umturnar sér til að mæta breyttum heimi. Við getum einnig horft á félagslega kerfið, sem er öflugt og ver fólk falli við atvinnumissi. Þetta eru grunnstoðir sem við þurfum að hafa til staðar. En svo má til lengri tíma litið, og það var hluti af fjárfestingarátakinu okkar í fyrsta pakkanum, fjárfesta í stafrænu Íslandi, nútímavæða rekstur hins opinbera, gera hlutina með einfaldari og hagkvæmari hætti. Það mun skila sér í aukinni hagkvæmni ríkissjóðs til lengri tíma litið.“

Hægt að nýta fjármagnið betur

Kallað hefur verið eftir að einfalda regluverk og létta álögum af fyrirtækjum. Veitingamenn óskuðu eftir tilslökunum sem opnuðu á sölu áfengis með mat sem seldur er úr húsi, byggingageirinn kallar eftir einfaldari byggingareglugerð og margir finna fyrir því að þótt olíuverð sé í sögulegri lægð haggast bensínverðið hér heima varla nokkuð vegna opinberra álaga. Er ekki verk að vinna þarna?

„Þetta eru dálítið ólík dæmi sem þú nefnir. Í ákveðnum geirum höfum við verið að einfalda regluverk. Við höfum þó það leiðarljós við slíka vinnu að tryggja réttindi neytenda, að gæði séu tryggð og slíkt. Byggingareglugerðin hefur verið nefnd og það hefur vinna verið í gangi af hálfu nokkurra ráðuneyta hvað það varðar. Ég vil að við vöndum okkur í þessari vinnu, köstum ekki barninu út með baðvatninu. Við eigum að vera kröfuhörð á sama tíma og við einföldum og léttum á kerfinu. Hvað varðar skatta og gjöld höfum við annars vegar verið að fresta sköttum og gjöldum og nú með þessari aðgerð sem snýst um að jafna tapið á móti hagnaði síðasta árs. Það mun skipta verulegu máli. Við þurfum líka að huga að því að tryggingagjaldið sem þessi stjórn hefur verið að lækka er það sem stendur undir atvinnuleysistryggingunum. Þess vegna er þetta vandmeðfarið. Þegar fyrirtækin eru að krefjast lægra tryggingagjalds hefur hlutabótaleiðin verið ákveðið skref til að koma til móts við þær kröfur. Fyrirtækin hafa getað lækkað launakostnaðinn og ríkið tekur á móti og nýtir til þess tryggingagjaldið.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir aðgerðir stjórnvalda.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir aðgerðir stjórnvalda. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert venjuleg lánafyrirgreiðsla

Nú þegar hefur verið bent á að stór hluti þeirra aðgerða sem nú hafa verið kynntar feli í sér lánveitingar og frestanir á greiðslu opinberra gjalda. Er ekki hætt við að þessar aðgerðir fresti einfaldlega vandanum og að á næsta ári finni fyrirtækin sig með drápsklyfjar fortíðar á bakinu?

„Þessi lán eru á stýrivöxtum Seðlabankans og eru því á mjög góðum kjörum og auk þess án afborgana í 18 mánuði og með 100% ríkisábyrgð. Þannig að þetta er ekki hefðbundin lánsfjármögnun. En með þessum aðgerðum erum við einnig að setja ákveðin skilyrði. Við viljum í senn styðja við fyrirtækin en einnig styðja þau til endurskipulagningar. Það er flókið verkefni fyrir ríkið því það verður alltaf umdeilt hvernig á að standa að slíkri endurskipulagningu.“

Fylgjast grannt með Isavia og Icelandair

Tvö fyrirtæki koma oftar upp í umræðunni en önnur þegar rýnt er í áfallið sem nú hefur riðið yfir. Annars vegar opinbera hlutafélagið Isavia og hins vegar Icelandair Group. Margt bendir til þess að lausafé beggja fyrirtækja muni þurrkast upp á fáum mánuðum ef ferðaþjónustan kemst ekki af stað á komandi sumri. Þurfa stjórnvöld ekki að grípa inn í stöðuna hjá þessum fyrirtækjum?

„Við höfum lagt Isavia til fjóra milljarða til fjárfestinga á þessu ári. Við munum hins vegar vafalaust þurfa að taka stöðu fyrirtækisins til endurskoðunar á árinu. Við fylgjumst sömuleiðis með samtali Icelandair við sína hluthafa. Þetta eru fyrirtæki sem tvímælalaust teljast kerfislega mikilvæg og við fylgjumst grannt með stöðu mála á þeim vettvangi.“

mbl.is