Knattspyrnusamband Íslands hefur hafið birtingu myndbanda á samfélagsmiðlum sínum þar sem um er að ræða æfingar sem krakkar geta framkvæmt einir og sér eða í litlum hópum, og hvatningarmyndbönd þar sem landsliðsfólk hvetur iðkendur til að halda áfram að hreyfa sig og æfa reglulega.
Verkefnið er kallað „Áfram Ísland“ og myndböndin munu birtast daglega á Instagram- og Facebook-síðum KSÍ en þau verður einnig að finna á Youtube-síðu sambandsins. Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sýndi það og sannaði í dag að árangursríkar æfingar þurfa ekki alltaf að vera mjög flóknar í framkvæmd.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.