„Við ætlum bara að hafa gaman af þessu. Meðan við höfum tíma höldum við áfram,“ segir Guðný Lára Gunnarsdóttir, sem leitt hefur hóp netverja í tilraun til að hrekja burt kórónuveiruna með söng. Íslensk útgáfa Guðnýjar og fjölda annarra af laginu Eye of the Tiger hefur vakið athygli að undanförnu og nýtt lag er í bígerð.
Guðný og eiginmaður hennar, Stefán Örn Viðarsson, eru búsett á Selfossi. Hún segir að þau hjónin sitji sjaldnast auðum höndum, eru til að mynda virk í Leikfélagi Selfoss, og því tóku þau kórónuveirufaraldrinum, með tilheyrandi innilokun og samkomubanni, sérstaklega illa.
Bróðir Guðnýjar er Helgi Haraldsson á Seyðisfirði og hann stofnaði hópinn Syngjum veiruna í burtu á Facebook. Hópurinn var stofnaður í lok mars og á fyrstu 20 dögum hans höfðu 20 þúsund manns skráð sig til leiks og alls um tvö þúsund myndbönd verið send inn.
„Við hjónin höfum verið heimavinnandi að mestu leyti síðan samkomubann var sett á. Allt hefur þetta gengið mjög vel og hefur tónlistin einna helst hjálpað okkur á heimilinu mikið við að bíða faraldurinn af okkur,“ segir Guðný en öll fjölskyldan hefur vitaskuld tekið þátt í að syngja veiruna burt á Facebook. Segir hún að það hafi vissulega stytt stundirnar en rétt fyrir páska hafi eirðarleysi og hangs verið orðið allsráðandi á heimilinu. Þá hafi þeim hjónum dottið í hug að tína út nokkra söngfugla úr facebookhópnum og „reyna að skapa eitthvað stórkostlegt með þeim heiman úr stofu“, eins og hún orðar það. „Við vorum og erum hreinlega agndofa yfir öllu þessu hugrakka hæfileikaríka fólki á öllum aldri,“ segir hún en upptökum frá fjölda söngvara var skeytt saman í myndband sem finna má á Youtube.
Fyrir valinu varð lagið Eye of the Tiger með nýjum íslenskum texta þeirra hjóna. „Textinn fjallar um innri og ytri baráttu okkar við að kljást við þetta ástand sem nú ríkir í heiminum, með slatta af húmor að sjálfsögðu, því það er ekkert mikilvægara en að halda í gleðina.“
Meira er á teikniborðinu hjá kórónukórnum. Í gær var hafist handa við upptökur á íslenskri útgáfu hins kunna bítlalags All You Need Is Love. „Er það ekki þannig að í dag þurfum við bara knús?“ spyr Guðný Lára að endingu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. apríl.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.