Ítalski líffræðingurinn Andrew Mangoni náði myndbandi af marglyttu synda um síki Feneyja nú á dögunum. Marglyttur eru sjaldséð sjón í síkjunum en vegna minni bátaumferðar í síkjunum eru þau nú tærari en ella.
Feneyjar eru vinsæll ferðamannastaður en með útgöngubanni á Ítalíu og útbreiðslu kórónuveirunnar eru engir ferðamenn þar á kreiki. Þar af leiðandi er umferðin sem engin í síkjunum.
„Ég náði myndbandi af marglyttu sem synti nálægt San Marco torginu, aðeins nokkrum sentímetrum fyrir neðan yfirborð vatnsins,“ sagði Mangoni í viðtali við CNN Travel.
Hann segir að samblanda af lágri sjávarstöðu og minni umferð valdi því að jarðvegurinn á botni síkjanna rótist ekki upp. Því séu síkin mun tærari en áður og því sést dýralífið betur.
Ítölsk yfirvöld hafa tekið í sama streng og Manigoni og segja að tæri sjórinn sé ekki merki um minni mengun heldur séu einfaldlegar afleiðingar minni umferðar í síkjunum. Mengun í lofti hefur hinsvegar minnkað.
Myndbandið af marglyttunni má sjá hér fyrir neðan.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.