Ég hvet fólk til að prófa þetta með börnunum sínum, þetta er hin besta skemmtun hvort sem það er í covid eða án veiru. Virkilega gaman fyrir alla og fræðandi fyrir krakkana,“ segir Maj-Britt Briem, en hún og eiginmaður hennar, Einar Þ. Eyjólfsson, og dæturnar þrjár, Herdís María, Þóra Guðrún og Valý Karen, gerðu sér lítið fyrir og fóru í innihaldsrík og fjörug ferðalög innanhúss nú á veirutímum þegar ferðabann gildir og fólk þarf að vera mikið heima við.
„Við gerðum þetta í fyrsta sinn þegar við bjuggum í Svíþjóð fyrir nokkrum árum, en blésum nýju lífi í þetta núna í covid hér heima á Íslandi og skruppum til Mexíkó og Afríku. Við vildum fara þangað sem væri gott veður, sól og blíða, og spennandi matur. Þetta hefur lagst vel í stelpurnar, þeim finnst þetta svakalega skemmtilegt og eru allar rosalega til í þetta.“
„Og elda grískan mat í leiðinni, en maðurinn minn hefur mikinn áhuga á framandi matarmenningu. Við tókum þetta alla leið í Svíþjóð á sínum tíma, þegar við ferðuðumst til fyrsta landsins með þessum hætti, til Grikklands. Stelpurnar klæddu sig upp og völdu sér hver sína grísku gyðju og við lærðum um goðafræðina, landið og höfuðborgina Aþenu. Við lærðum líka um tungumálið, hvernig fólk heilsast á grísku og segir takk fyrir,“ segir Maj-Britt og bætir við að í framhaldinu hafi hvert og eitt þeirra valið land og skrifað á miða og sett í hatt.
„Upp úr hattinum drógum við svo það land sem tekið var fyrir næst. Marokkó, Frakkland, Spánn, Kína, Indland og Belgía voru þar á meðal, en við tókum eitt land fyrir með nokkuð löngu millibili, því þetta er spari-skemmtun. Við höfum reynt að nota sem mest það sem við eigum heima í búninga og fylgihluti, en við keyptum afrísku kjólana á stelpurnar í Firðinum í Hafnarfirði og styrktum gott málefni í leiðinni. Þær eru spenntastar fyrir flóknustu búningunum; þegar við vorum með Belgíu voru þær í strumpabúningum og máluðu sig allar bláar.“
„Stelpurnar sjá alveg um það, þær fara á netið og finna lög frá viðkomandi landi og búa ýmist til dansana sjálfar eða fara inn á Just Dance-leikinn, þar eru stundum dansar við lög frá því landi sem við tökum fyrir,“ segir Maj-Britt og bætir við að þau reyni að koma fræðslu um sögu og menningu landanna til skila með skemmtilegum hætti.
„Við vorum með ratleik þegar við tókum Mexíkó fyrir, þá bjó pabbi þeirra til í hverju herbergi einhvern stað frá landinu, þær leituðu að vísbendingum í herbergjunum og þurftu að svara staðreyndum um Mexíkó til að komast áfram. Stundum þurftu þær að gúgla eða fara í sögubækur til að finna svörin, hafa svolítið fyrir þessu. Þeim fannst þetta mjög skemmtilegt og spennandi og þær leystu þetta í samvinnu, voru ekki í keppni sín á milli,“ segir Maj-Britt og bætir við að þau hafi valið alla heimsálfuna Afríku, af því erfitt var að velja eitt Afríkuland.
„Við fræddumst um heila heimsálfu og m.a. um Nelson Mandela og aðskilnaðarstefnuna í S-Afríku. Höfuðborg hvers lands verða stelpurnar alltaf að læra, íbúafjölda og fleiri staðreyndir. Við höldum þessu lifandi á milli þema með því að rifja upp og spjalla um löndin, vonandi situr eitthvað eftir af því sem þær læra í þessum innanhússferðalögum. Þetta er búið að vera rosa skemmtilegt og gaman að prófa nýja rétti, við fáum mikið út úr því foreldrarnir að leita eftir uppskriftum áður en kemur að deginum. Sumir réttir hafa verið svo vel heppnaðir að við höfum eldað þá oft aftur. Ég mæli með að fjölskyldur ferðist með þessum hætti innanhúss en ég tek fram að það þarf alls ekki að taka þetta svona „alla leið“ eins og við, hver getur gert með sínum hætti,“ segir Maj-Britt og bætir við að næst ætli þau að taka fyrir Havaí. „Þar er svo góður grillmatur sem hentar vel í sumar, og hægt að vera með húlla-dansa.“
Marinering
Öllu blandað saman og 400 g risarækjur látnar marinerast í kæliskáp í 30 mínútur.
Meðlæti
Dressing
Allt sett í soft tacos eða tortillur.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. apríl 2020.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.