Segir Hæstarétt hafa brugðist þjóðinni

Það þótti mikill fengur að makríll kom í lögsöguna á …
Það þótti mikill fengur að makríll kom í lögsöguna á sínum tíma. Fyrrverandi ráðherra segist hafa staðið rétt að ráðstöfun aflaheimilda þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi dæmt gegn ríkinu málinu. Morgunblaðið/ Börkur Kjartansson

„Það er mín skoðun að Hæstirétt­ur hafi brugðist þjóðinni í þessu máli og gengið í lið með ein­stök­um „kvóta­greif­um“ og dæmt gegn þeirri laga­grein sem hon­um bar fyrst og fremst að horfa til,“ seg­ir Jón Bjarna­son, fyrr­ver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, um mak­ríl­dóma Hæsta­rétt­ar og skaðabóta­mál sjö út­gerða á hend­ur ís­lenska rík­inu í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu í dag. Fimm út­gerðanna hafa fallið frá skaðabóta­mál­inu.

Jón vís­ar með orðum sín­um til fyrstu grein­ar laga um stjórn fisk­veiða, en þar seg­ir: „Nytja­stofn­ar á Íslands­miðum eru sam­eign ís­lensku þjóðar­inn­ar. Mark­mið laga þess­ara er að stuðla að vernd­un og hag­kvæmri nýt­ingu þeirra og tryggja með því trausta at­vinnu og byggð í land­inu.“

Hann seg­ir að eft­ir komu mak­ríls­ins í ís­lenska lög­sögu hafi verið „ákveðið að skipta veiðiheim­ild­um í mak­ríl á út­gerðarflokka, þannig að stóru upp­sjáv­ar­skip­in sem höfðu ein­göngu veitt til bræðslu fengju áfram svipað magn og þau höfðu veitt árið á und­an en aukn­um heild­arafla var deilt út á frysti­tog­ara, ís­fisk­skip, smá­báta og línu­báta. Jafn­framt var sett ströng skylda um mann­eld­is­vinnslu á all­an mak­ríl, sem stór­jók verðmæti afl­ans og skapaði fjölda mik­il­vægra starfa í fisk­vinnsl­um vítt og breitt um landið.“

Jón Bjarnason.
Jón Bjarna­son.

Þá hafi verið talið að ákv­arðanir ráðherra hafi verið lög­mæt­ar þar sem um nýj­an fiski­stofn hafi verið að ræða. Tel­ur Jón að ákv­arðanir hans í embætti ráðherra, bæði hvað varðar mak­ríl­inn og aðra þætti svo sem strand­veiðar, „hafi átt drjúg­an þátt í því að leiða þjóðina út úr þreng­ing­um fjár­mála­hruns­ins“.

Deilt á mörg­um víg­stöðvum

Sam­hliða því að rekja mak­ríl­dóm­inn vík­ur Jón meðal ann­ars að mak­ríl­deil­unni við Evr­ópu­sam­bandið og þeim deil­um sem um málið virðast hafa verið inn­an rík­is­stjórn­ar Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur á ár­un­um 2009 til 2011.

„Vinna við ESB-um­sókn­ina var á fullri ferð þessi ár og all­ir vissu um mína af­stöðu í þeim mál­um. Við stóðum auk þess í harðvítug­um deil­um við ESB um rétt okk­ar til mak­ríl­veiðanna. ESB af­neitaði öll­um rétti okk­ar í þeim efn­um og lét afar dólgs­lega, hótaði ít­rekað að stöðva aðild­ar­viðræðurn­ar við ESB ef við hætt­um ekki mak­ríl­veiðunum. Fæt­ur for­sæt­is­ráðherra og fleiri vildu bogna und­an þeim hót­un­um.

 Það verður að segj­ast hér hreint út að hvorki þær út­gerðir, sem síðar höfðuðu mál og kröfðust tuga millj­arða í bæt­ur vegna veiðiheim­ilda í mak­ríl, né aðrir, hefðu fengið marga brönd­una ef ESB-aðild­arsinn­ar í rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um hefðu fengið að ráða. Það er köld staðreynd. ESB hélt því fram, al­veg eins og stóru bræðslu­út­gerðirn­ar, að banda­lagið ætti all­an mak­ríl sem synti meðfram Íslands­strönd­um. Hót­an­ir ESB voru afar gróf­ar og vöktu það mik­inn ugg að full­trú­ar LÍÚ komu á fund ráðherra og báðu hann að slaka á kröf­un­um í mak­ríl­deil­unni ef það mætti friða ESB. Þá hafði ESB hótað viðskipta­stríði og lönd­un­ar­banni á ís­lensk­an fisk sem það lét koma til fram­kvæmda á Fær­ey­ing­um.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: