Veiran sé ekki nýtt í pólitískum tilgangi

Nær enginn var á ferli í miðbæ Reykjavíkur þrátt fyrir …
Nær enginn var á ferli í miðbæ Reykjavíkur þrátt fyrir gott veður. Vill borgarstjóri nú gefa gangandi meira svigrúm með lokunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Okkar reynsla af öllum þessum lokunum er hreint út sagt skelfileg. Þetta kemur mjög illa við okkur og má sem dæmi nefna að sala hefur verið 20 prósent minni í allan vetur en veturinn á undan,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, annar eigenda Máls og menningar við Laugaveg í Reykjavík.

Mjög hefur verið rætt um stöðu miðbæjarins að undanförnu og óánægju kaupmanna með götulokanir, þrengingar og breytta akstursstefnu um Laugaveg. Segja þeir Reykjavíkurborg ekki hlusta á áhyggjur sínar og að breytingarnar séu til þess fallnar að skaða rekstur fyrirtækja. Um nýliðna helgi viðraði borgarstjóri svo þá hugmynd að loka enn frekar fyrir bílaumferð í miðborginni svo gangandi vegfarendur gætu virt svokallaða tveggja metra reglu.

Þá sagði borgarstjóri þetta myndu styrkja rekstur verslana og veitingastaða þar sem kaupmönnum yrði gefið færi á að útvíkka starfsemi sína út á götur og gangstéttir.

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir.
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir. mbl.is/RAX

Arndís Björg segist hafa fylgst vel með þróun mála, fólk komi í bæinn um leið og lokunum er aflétt.

„Ég man enn eftir því, þetta var í verkfalli Eflingar, að allt í einu voru óvenjumargir Íslendingar komnir í búðina og meira líf úti á götu. Þegar ég geng út þá átta ég mig á ástæðunni; það var búið að opna hliðin. Og fólk var að keyra fram hjá, leggja bílum og hoppa inn í verslanir.“

Spurð hvort hugmyndir borgarstjóra um enn frekari lokanir muni styrkja rekstur Máls og menningar kveður Arndís Björg nei við.

„Við erum ekki að fara út á Laugaveg með vörur og bókaborð í tonnatali. Þetta er örugglega ágætt fólk í borgarstjórn, en ekkert þeirra hefur staðið í rekstri. Svo mikið er víst.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Svara seint eða alls ekki

Sólveig Grétarsdóttir, eigandi Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar, segir að hugmynd borgarstjóra sé í besta falli undarleg. Gagnist hún einhverjum séu það helst veitingamenn.

„Þessar fáu verslanir sem eftir eru á þessu svæði eru ekki að setja vörur út á götu þar sem er rigning og rok. Þar að auki þyrfti einhver að vakta vörurnar úti og það er ekki hægt. Kannski eru einhver veitingahús sem geta nýtt sér þetta en ég myndi persónulega vilja sleppa því að sitja úti í vindinum á Laugavegi. Þar er sjaldnast sól og blíða,“ segir Sólveig og bætir við að frekari lokanir muni einungis skaða reksturinn enn frekar.

„Á virkum dögum er Laugavegurinn nánast tómur. Hér eru engir útlendingar lengur og Íslendingar fjölmenna ekki. Ef það kemur gott veður um helgi þá myndast kannski svolítið streymi í tvo tíma. Ég stóð vaktina síðasta laugardag og það er ekki hægt að halda því fram að Laugavegurinn hafi verið fullur af fólki þótt nokkrir röltu þar um með barnavagna,“ segir Sólveig.

Sólveig Grétarsdóttir.
Sólveig Grétarsdóttir. mbl.is/Hanna

Þá sagðist borgarstjóri myndu vilja fara út í þessar breytingar í góðu samstarfi við rekstraraðila. Sólveig bendir hins vegar á að hún hafi hingað til átt afar erfitt með að ná sambandi við borgarstjóra.

„Ég hef sent nokkra tölvupósta á Dag [B. Eggertsson borgarstjóra], Sigurborgu [Ósk Haraldsdóttur, borgarfulltrúa Pírata] og samgöngustjóra Reykjavíkurborgar vegna breyttrar akstursstefnu á Laugavegi, en ég veit að margir nenna hreinlega ekki að koma í bæinn út af þessu. Ég fæ aldrei nein svör. Þeim dettur ekki í hug að svara manni, nema í eitt skipti kom svar frá Sigurborgu tveimur mánuðum seinna.“

„Til þessa höfum við ekki sett okkur upp á móti þessum lokunum, þær hafa ekki haft svo mikil áhrif á okkur. En núna finnum við mjög fyrir þessu þegar ferðamaðurinn er farinn. Eins og staðan er í dag þá vilja viðskiptavinir getað stoppað bíla sína nálægt og hoppað inn. Okkur finnst því ekki skynsamlegt að loka meira núna,“ segir Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir, skartgripahönnuður í Aurum við Bankastræti, og bætir við að breytt akstursstefna á Laugavegi sé afar sérkennileg og til þess fallin að valda ruglingi í umferð.

Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir.
Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Spurð hvort starfsfólk Aurum muni bera skartgripi út á götu í sölubása kveður Guðbjörg Kristín nei við. „Þetta á sennilega við um kaffihús og veitingastaði. Það hefur verið blómlegt líf hér á sumrin og stundum ekki pláss fyrir bílinn, en þetta hefur breyst núna.“

Gunnar Guðjónsson, sjónfræðingur í Profil-Optik Gleraugnamiðstöðinni við Laugaveg, segist lengi hafa barist gegn götulokunum í miðbænum.

„Við viljum engar göngugötur. Viðskipti hrapa gríðarlega þegar götunum er lokað og nú kemur borgarstjóri fram með tveggja metra regluna sem ástæðu. Hann vill bara loka öllum bænum, svo einfalt er það. Þetta snýst einungis um pólitík,“ segir hann.

Gunnar Guðjónsson.
Gunnar Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá fullyrðir Gunnar að stærstur hluti rekstraraðila í miðbæ Reykjavíkur séu á móti götulokunum og þrengingum. „Ég stóð á sínum tíma að gerð undirskriftalista þar sem 274 rekstraraðilar í miðborginni skrifuðu undir og sögðust vera gegn göngugötu. Þetta var einföld spurning og ákveðið svar; nei við viljum ekki hafa göngugötur. Þetta er afstaða meginþorra allra rekstraraðila. Sama niðurstaða, eða um 70 prósent, sögðust vera á þessari skoðun í könnun Center sem Miðborgin okkar stóð að með Samtökum verslunar og þjónustu.“

Gunnar segir málið ekkert sérlega flókið; aðgengi sé einfaldlega slæmt í miðbænum. „Ég er kaupmaður og sé að aðgengi að minni verslun er ekki nógu gott. Kúnnar kvarta undan þessu og skorti á bílastæðum sem menn þurfa jú að borga fyrir. Það er ekki hægt að halda því fram að við séum að tala allt niður hér, við segjum einfaldlega sannleikann og fólk er hætt að koma niður í miðborgina út af gjöldum, þrengingum og lokunum. Er þetta eitthvað flókið?“  

Úrelt útspil hjá borgarstjóra

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir borgarstjóra nú vera að draga almannavarnir inn í sínar persónulegu skoðanir og kosningaloforð Samfylkingarinnar.

„Þetta er hreint út sagt með ólíkindum. Borgarstjóri er með þessu að notfæra sér ástandið. Að fara að banna fólki að keyra um miðbæinn í fjölskyldubílnum er valdbeiting af verstu tegund. Ég vil minna á að Dagur á ekki miðbæinn, við landsmenn eigum hann öll,“ segir Vigdís.

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir mbl.is/Hari

Aðspurð segir Vigdís marga hafa sett sig í samband við hana út af hugmynd borgarstjóra, íbúa jafnt sem verslunarmenn, og furðað sig á útspilinu. Segir hún fólk vilja búa í sátt og samlyndi en ekki þurfa sífellt að taka slaginn við Reykjavíkurborg. 

„Fólk sem á sinn bíl vill geta keyrt í úthverfin og út á land. En sá hópur er að missa þolinmæðina,“ segir hún.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir stefnt að því að afnema tveggja metra regluna eftir mánuð og að skipulagsbreytingar í Reykjavík taki oft mánuði og upp í ár.

Eyþór Arnalds.
Eyþór Arnalds. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta útspil borgarstjóra er úrelt áður en farið er að skoða það. Og mér sýnist almannavarnateymið ekki ætla að láta teyma sig inn í skotgrafirnar,“ segir Eyþór og heldur áfram: „Stjórnmálamenn á Íslandi hafa reynt að standa saman þegar kemur að því að hlusta á og taka þátt í að framkvæma fyrirmæli almannavarna. Þess vega finnst mér þetta hálfsmekklaust,“ segir hann og vísar til þess að borgarstjóri vilji nú grípa til lokana með vísan til nálægðarreglu almannavarna.

„Það er smekklaust að ætla að nýta sér kórónuveiruna í pólitískum tilgangi.“

mbl.is