„Það eru alltaf að koma góðar fréttir“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við komuna á fund ríkisstjórnarinnar sem fer …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við komuna á fund ríkisstjórnarinnar sem fer fram í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rík­is­stjórn­in fund­ar þessa stund­ina í Ráðherra­bú­staðnum við Tjörn­ina um fram­hald hluta­bóta­leiðar­inn­ar og stuðning við launa­greiðslur fyr­ir­tækja. 

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra var spurð fyr­ir fund­inn hvort nú væru góðar frétt­ir á leiðinni fyr­ir ferðaþjón­ust­una: „Það eru alltaf að koma góðar frétt­ir,“ svaraði hún glöð í bragði en gaf ekki upp hvernig fram­hald þess­ara aðgerða myndi líta út, en það mun koma fram á blaðamanna­fundi kl. 11.30 í Safna­hús­inu á Hverf­is­götu.

Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra sagði rík­is­stjórn­ina hafa talað skýrt um að spurn­ing­um um fram­hald hluta­bóta­leiðar­inn­ar yrði svarað. „Við von­umst til að geta gert það í dag eft­ir þenn­an fund,“ sagði hann.

Ríkisstjórnarfundur 28. apríl í Ráðherrrabústaðnum. Bjarni Benediktsson.
Rík­is­stjórn­ar­fund­ur 28. apríl í Ráðherrra­bú­staðnum. Bjarni Bene­dikts­son. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Hluta­bóta­leiðin svo­nefnda felst í að rík­is­sjóður hef­ur greitt 75% launa starfs­manna þeirra fyr­ir­tækja sem lentu í tekju­stöðvun vegna sótt­varnaaðgerða yf­ir­valda. Þessi leið hef­ur verið far­in í apríl og verður far­in í maí, en ekk­ert hef­ur verið gefið upp um hversu leng­ur áfram eða hversu hátt hlut­fallið verði í fram­hald­inu.

Annað sem gert er ráð fyr­ir að verði kynnt á fund­in­um í há­deg­inu er stuðning­ur stjórn­valda við launa­greiðslur fyr­ir­tækja og í þeim efn­um á eft­ir að koma í ljós hvort stjórn­völd muni taka þátt í að greiða upp­sagn­ar­frest fyr­ir starfs­menn fyr­ir­tækja, því ella hef­ur því verið haldið fram að fyr­ir­tæk­in stefni í þrot. Hingað til hef­ur fyr­ir­tækj­um ekki verið heim­ilt að nýta hluta­bóta­leiðina á meðan upp­sagn­ar­frest­ur­inn líður.

mbl.is