Ríkisstjórnin fundar þessa stundina í Ráðherrabústaðnum við Tjörnina um framhald hlutabótaleiðarinnar og stuðning við launagreiðslur fyrirtækja.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var spurð fyrir fundinn hvort nú væru góðar fréttir á leiðinni fyrir ferðaþjónustuna: „Það eru alltaf að koma góðar fréttir,“ svaraði hún glöð í bragði en gaf ekki upp hvernig framhald þessara aðgerða myndi líta út, en það mun koma fram á blaðamannafundi kl. 11.30 í Safnahúsinu á Hverfisgötu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði ríkisstjórnina hafa talað skýrt um að spurningum um framhald hlutabótaleiðarinnar yrði svarað. „Við vonumst til að geta gert það í dag eftir þennan fund,“ sagði hann.
Hlutabótaleiðin svonefnda felst í að ríkissjóður hefur greitt 75% launa starfsmanna þeirra fyrirtækja sem lentu í tekjustöðvun vegna sóttvarnaaðgerða yfirvalda. Þessi leið hefur verið farin í apríl og verður farin í maí, en ekkert hefur verið gefið upp um hversu lengur áfram eða hversu hátt hlutfallið verði í framhaldinu.
Annað sem gert er ráð fyrir að verði kynnt á fundinum í hádeginu er stuðningur stjórnvalda við launagreiðslur fyrirtækja og í þeim efnum á eftir að koma í ljós hvort stjórnvöld muni taka þátt í að greiða uppsagnarfrest fyrir starfsmenn fyrirtækja, því ella hefur því verið haldið fram að fyrirtækin stefni í þrot. Hingað til hefur fyrirtækjum ekki verið heimilt að nýta hlutabótaleiðina á meðan uppsagnarfresturinn líður.