Brim og Samherji enn með mestu aflahlutdeildina

Brim er með mestu aflahlutdeildina eða 10,13%. Það er þó …
Brim er með mestu aflahlutdeildina eða 10,13%. Það er þó minnkun frá í september þegar fyrirtækið var með 10,44%. mbl.is/​Hari

Litlar breytingar eru á hvaða fyrirtæki eru í efstu sætunum frá því sams konar upplýsingar voru birtar í september í kjölfar úthlutunar aflamarks í upphafi nýs fiskveiðiárs, segir á vef Fiskistofu og hefur stofnunin birt lista yfir 100 fyrirtæki sem eru með mestu aflahlutdeildina og 50 fyrirtæki með mestu hlutdeildina í krókaaflamarkskerfinu.

Af tölunum að ráða er Brim með stærstu aflahlutdeildina eða 10,13% en félagið var með 10,44% í september og Samherji með næstmestu hlutdeildina eða 7,02% en var með 7,10% í september. Þar á eftir kemur Fisk-Seafood með 5,48%, Síldarvinnslan með 5,22% og Þorbjörn með 4,8%.

Þau tíu fyrirtæki sem hafa stærstu aflahlutdeildina búa yfir 52,42% af aflaheimildunum og tuttugu stærstu yfir 74,16%. Næstu 80  fyrirtækin fara samanlagt með 23,84%.

Meiri dreifing í krókaaflamarkskerfinu

Grunnur ehf., dótturfélags Fiskvinnslunnar Kambs, er með mestu hlutdeildina eða 4,51%, Stakkavík ehf. með 4,09% og Jakob Valgeir ehf. 4,07%. Samtals eru tíu stærstu fyrirtækin með krókaaflahlutdeild sem nemur 38,16% og tuttugu stærstu með 62,64%.

Grunnur ehf. sem gerir út Kristján HF-100 er með stærstu …
Grunnur ehf. sem gerir út Kristján HF-100 er með stærstu krókaflahlutdeildina. Ljósmynd/Kambur hf.

Samkvæmt lögum er hámarks aflahlutdeild hvers fyrirtækis og tengdra aðila, samkvæmt skilgreiningu laga, í krókaaflamarkskerfinu 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu. En samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%.

Útgerðaraðilum fjölgar en samt ekki

Fiskistofa greinir frá því að 946 útgerðarfyrirtæki hafi verið starfandi á fiskveiðiárinu 2005/2006 en í mars hafi þeir aðeins verið 446 sem er fækkun um 500 eða 52,8%. Hins vegar er bent á að þessar tölur taka ekki tillit til aflaheimilda í makríl og ef þær eru teknar með eru útgerðaraðilar nú 693 og með þessu hefur aðilum fjölgað milli fiskveiðiára. „Á bak við þessa fjölgun liggja ekki miklar hlutdeildir því að margar útgerðir sem eru nýjar á listanum eru þar vegna þess að þær ráða fyrir örlitlum hlutdeildum í makríl,“ segir á vef Fiskistofu.

mbl.is