Borgarstjóri hefur borið það upp við sóttvarnalækni hvort grípa eigi til götulokana í Reykjavík til að tryggja nálægðarreglu almannavarna. Í samtali við Morgunblaðið segist Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ekki hafa skoðun á því hvort loka eigi fyrir bílaumferð í miðbænum eða ekki.
„Við höfum ekki sérstaka skoðun á því hvernig menn útfæra þær tillögur sem við komum með,“ segir hann og bætir við: „Ef menn vilja loka götum, þá er það bara þeirra mál.“
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins hafa stigið fram í samtölum við Morgunblaðið og sagt borgarstjóra vera að nýta sér kórónuveiruna í pólitískum tilgangi til að loka fyrir bílaumferð um fleiri götur. Undir þetta sjónarmið tekur einnig Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
„Að mínu mati er bara verið að nýta sér ástandið og nota það sem yfirskin. Það að hafa spurt sóttvarnalækni sýnir að verið sé að reyna að finna fólk sem almenningur treystir til að koma með svör um götulokanir eða ekki,“ segir Kolbrún og bætir við að fjölmargir íbúar og rekstraraðilar séu mjög ósáttir við götulokanir meirihlutans í miðbænum.
„Það er alveg ljóst að þessar ákvarðanir hafa gengið gegn vilja mjög margra. Ég skil bara ekki af hverju menn geta ekki endurskoðað meirihlutasáttmála sinn í ljósi þess að rekstur hefur hrunið. Það þarf ekki annað en að ganga þarna um og sjá öll auðu plássin,“ segir Kolbrún.
Afar langsótt tenging
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segir það af og frá að verið sé að nýta sér kórónuveiru í pólitískum tilgangi. Engin ákvörðun hafi verið tekin um frekari lokanir.
„Við erum fyrst og fremst að hugsa um hvaða aðgerðir hægt sé að grípa til vegna Covid-19,“ segir Líf og bætir við að áfram verði farið eftir meirihlutasáttmálanum sem kveður meðal annars á um að Laugavegur verði göngugata árið um kring.
Þá segir Líf það vera mjög frumlega túlkun að halda því fram að borgarstjóri sé með einhverju móti að draga almannavarnir inn í kosningaloforð Samfylkingarinnar, líkt og borgarfulltrúi Miðflokksins sagði nýverið í Morgunblaðinu.
„Þetta er afar langsótt og ekkert annað en rakalaus della. Að búa til borg fyrir gangandi vegfarendur er ekki einkamál Samfylkingarinnar. Þetta eru bara útúrsnúningar,“ segir Líf og ítrekar að engin vinna sé hafin við nýjar götulokanir í miðbænum.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, tekur í svipaðan streng og Líf. Segir hún enga vinnu í gangi varðandi götulokanir, slíkt sé þó ekki með öllu útilokað.
„Þetta er nú bara einhver hugmynd sem sett er fram á Twitter og borgarstjóri tekur vel í. Ef þetta er í skoðun þá er það bara óformlegt. Ég veit ekki til þess að komin sé fram nein tillaga um frekari lokanir. En við erum auðvitað opin fyrir því að skoða það ef borgarbúar vilja það og telja öryggi sínu betur borgið með því að hafa meira rými til að ganga um. Svona mál þarf bara að skoða í heild sinni og þá auðvitað með rekstraraðilum líka,“ segir hún.
Þá segir Heiða Björg það vera fáránlegt að halda því fram að verið sé að tengja veiruna við pólitísk áherslumál. „Borgarstjóri tekur þarna vel í hugmynd sem borgarbúi setur fram en hann bendir einfaldlega á að það geti verið þröngt á göngugötum. Og mér finnst sjálfsagt að hann skoði það. Að halda því fram að þetta sé eitthvað pólitískt er bara fáránlegt.“
Vill fjölga göngusvæðum í borginni
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir flokk sinn hafa þá stefnu að gera Laugaveg að göngugötu allt árið. „Mér finnst Covid-19 ekki ástæða til þess að hætta við það og breyta út frá plönum. Persónulega er ég opinn fyrir því seinna að stækka eitthvað göngusvæðið en það hefur ekki verið rætt sérstaklega núna. Ef þessi tilraun gengur vel þá er mjög ólíklegt að ég berjist gegn því að stækka göngusvæðin í borginni.“
Spurður út í gagnrýni á borgarstjóra svarar Pawel: „Það er ekkert nýtt í því að það sé áherslumunur á milli okkar og stórs hluta Sjálfstæðisflokksins. Ég vil taka fram að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa verið fylgjandi göngugötum. Miðflokkurinn er svo alltaf á móti. Það er því ekkert sem breytist og ég get ekki séð að verið sé að nýta sér Covid-19.“
Verslunareigendur hafa margir mótmælt lokunum og var myndin tekin í fyrra þegar hópur þeirra afhenti borgarstjóra mótmælalista.
mbl.is/Eggert Jóhannesson
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.