„Ég lít bara á þessar aðgerðir sem valdníðslu og ofríki“

„Ég mun á þriðjudag leggja fram tillögu í borgarstjórn þess efnis að fallið verði frá boðuðum lokunum á Laugavegi, Vegamótastíg og Skólavörðustíg. Enda er þessi tillaga stórskrítin og ber merki þess að borgarstjóri verði að hafa síðasta orðið í þessu máli, en á sama tíma hafa kaupmenn verið að rembast við að hafa opið,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hún í máli sínu til þess að á fundi skipulags- og samgönguráðs, sem haldinn var 29. apríl síðastliðinn, var samþykkt tillaga að þremur göngugötum; á Laugavegi frá Klapparstíg að Ingólfsstræti; á Vegamótastíg frá Laugavegi að Grettisgötu og á Skólavörðustíg frá Bergstaðastræti að Laugavegi. Var tillaga þessi samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni, en henni hefur nú verið vísað til borgarráðs.

„Við sáum nú öll hvernig borgarstjóri ætlaði að nýta sér almannavarnir í þessu máli og hafði samband við sóttvarnalækni. En hann var nú alveg kaffærður með það útspil eftir að sóttvarnalæknir sagðist ekki hafa skoðun á götulokunum í Reykjavík. Nú kemur þetta, ekkert annað en svar við því sem á undan hefur gengið. Hann vill bara hafa síðasta orðið,“ segir Vigdís.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segist áfram munu berjast gegn lokunum.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segist áfram munu berjast gegn lokunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram kom í fyrri umfjöllun Morgunblaðsins að borgarstjóri hafi borið það upp við sóttvarnalækni hvort grípa eigi til götulokana í Reykjavík til að tryggja nálægðarreglu almannavarna vegna Covid-19. „Við höfum ekki sérstaka skoðun á því hvernig menn útfæra þær tillögur sem við komum með,“ sagði sóttvarnalæknir þá í samtali við blaðið. „Ef menn vilja loka götum, þá er það bara þeirra mál.“

Nokkuð hefur verið fjallað um kaupmenn við Laugaveg sem eru ósáttir við þá hugmynd að gera verslunargötuna að göngugötu allt árið um kring. Vert er að geta þess að ekki allir kaupmenn eru á þeirri skoðun, margir hafa bent á að verslun þeirra hafi aukist með tilkomu göngugatna og að slík svæði séu til þess fallin að auðga miðbæinn og stuðla að fjölbreytileika. Vigdís bendir þó á að mjög stór hópur kaupmanna sé á annarri skoðun og að ekki megi horfa fram hjá áhyggjum þeirra.

Fjölmörg verslunarpláss standa auð á Laugaveginum og annars staðar í …
Fjölmörg verslunarpláss standa auð á Laugaveginum og annars staðar í miðbæ. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er bara í mínum störfum að hlusta á þessa aðila sem hafa áhyggjur; kaupmenn, íbúa og veitingahúsaeigendur á þessu svæði. Það er ekki annað hægt en að berjast af öllu afli á móti þessum lokunum þegar svo stór hópur hefur áhyggjur. Ég lít bara á þessar aðgerðir sem valdníðslu og ofríki,“ segir hún.

Bergmál inni í glerhúsi borgarstjóra

Fram kom í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata að reynsla síðustu níu ára af Laugavegi sem göngugötu á sumrin hafi verið góð. „Enda hefur það fyrirkomulag notið stuðnings mikils meirihluta borgarbúa ef marka má fjölda kannana sem gerðar hafa verið.“

Vigdís gefur lítið fyrir þessa fullyrðingu og segir öllum nóg boðið þegar kemur að lokunaráráttu borgarstjóra og meirihlutans. „Allar tillögur um að hafa miðbæinn opinn fyrir bílaumferð er hafnað. Til að bíta hausinn af skömminni var akstursstefnu breytt á Laugaveginum. Mikið ákall er frá rekstraraðilum og íbúa að falla frá þeirri ákvörðun. Ekkert er hlustað,“ segir Vigdís og heldur áfram: „Glerhýsið sem borgarstjóri og meirihlutinn býr í er orðið mjög stórt og bergmálið þar inni algjört. Meirihlutinn kýs að vera í stríði við allt og alla. Þessi ákvörðun er mikil ögrun við rekstraraðila og íbúa svæðisins,“ segir hún og bendir á að enn sé hægt að falla frá áðurnefndri ákvörðun um göngugötur og því muni hún leggja fram tillögu sína á þriðjudag.

Miðbærinn verður meira og minna lokaður

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram bókun þegar göngugöturnar voru samþykktar á fundi skipulags- og samgönguráðs. Kemur þar fram að vinnubrögð borgaryfirvalda hafi verið ámælisverð þar sem ekkert hafi verið hlustað á sjónarmið hagsmunaaðila og mótmæli þeirra. „[H]eldur var þeim boðið upp á eftirásamráð, þegar búið var að taka ákvörðun um varanlega lokun Laugavegarins. Það er ekki það samráð sem meirihlutinn lofaði og borgarbúar óska.“

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir meirihlutann einungis bjóða upp á …
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir meirihlutann einungis bjóða upp á svikasamráð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kallar þetta „svikasamráð“ og bendir á að rekstur hafi verið þungur í miðborginni undanfarið og margir rekstraraðilar gefist upp. Mun árangursríkara hefði, að hennar sögn, verið að styðja við bakið á rekstraraðilum í miðborginni og bæta rekstrarumhverfið með því að leyfa bílaumferð í bland við gangandi vegfarendur. Segist hún nú óttast að þetta útspil meirihlutans verði rothögg fyrir marga. 

„Með þessu er verið að loka stórum hluta miðbæjarins og þetta kemur í veg fyrir gegnum umferð. Hafa ber í huga að þetta eru tillögur um heilsárslokanir. Við þetta munu svo vafalaust bætast sumarlokanir. Það má því auðveldlega gera ráð fyrir að miðbærinn verði meira og minna alveg lokaður fyrir bílaumferð á sumrin,“ segir Marta og bætir við að henni finnist alvarlegt að meirihlutinn taki ákvörðun sem þessa á meðan algjör ósamstaða er um svo umfangsmiklar lokanir hjá rekstraraðilum á svæðinu.

„Ég tel ljóst að rekstraraðilar munu margir lenda í miklum erfiðleikum og einhverjir munu þurfa að skella í lás. En það er að vísu ekkert nýtt því við höfum horft á eftir tugum fyrirtækja sem neyðst hafa til að flýja miðbæ Reykjavíkur vegna lokunaráráttu meirihlutans. Það er í raun illskiljanlegt hvers vegna borgarstjóri og hans félagar hlusta ekki á fólkið í bænum. Það eina sem boðið er upp á er svikasamráð. Í þeirra huga er það samráð að leyfa þátttöku annarra þegar kemur að því að ákveða hvaða blóm eigi að vera í hinu og þessu blómakeri eða hvernig almenningsbekkur skal líta út. Það er allt og sumt.“

Verslunarmenn fjölmenntu í Ráðhúsið í fyrra og afhentu borgarstjóra þá …
Verslunarmenn fjölmenntu í Ráðhúsið í fyrra og afhentu borgarstjóra þá mótmælalista. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is