Selur fyrir 600 milljónir í Brim

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er stærsti eigandi Brims, hefur selt um 0,8% hlut í félaginu fyrir um 600 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, er meirihlutaeigandi í ÚR.

Samtals seldi félagið 15 milljónir hluta á genginu 40. Samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa Brims átti ÚR 676.726.180 hluti í Brim í lok marsmánaðar, eða um 34,6%. Í tilkynningunni kemur fram að eftir viðskiptin sé fjöldi hluta í eigu fjárhagslega tengdra aðila 859.870.977 hlutir, en Guðmundur á meðal annars 19.797 hluti sjálfur. Hluti fjárhagslega tengdra aðila eftir viðskiptin er því 44% í félaginu.

LSR er næst stærsti hluthafi Brim með um 11,3% hlut og Lífeyrissjóður verslunarmanna með 10,7%.

mbl.is