Varðskipið Þór kom til hafnar í Reykjavík á mánudag eftir fimm vikna gæsluferð. Til að tryggja að Landhelgisgæslan gæti haldið úti öflugu viðbragði á hafinu umhverfis Ísland, miðað við þær sóttvarnaráðstafanir sem nauðsynlegar eru, voru ferðir varðskipanna lengdar. Þór og Týr eru nú fimm vikur í senn á sjó í stað þriggja eins og venjulegt er. Týr lagði af stað í fimm vikna eftirlitsferð 15. apríl sl. og er nú staddur við Vestfirði.
Halldór B. Nellett var skipherra í þessum túr Þórs. Hann hefur verið á varðskipunum nær óslitið í 48 ár og Halldór segir túrinn hafa verið mjög sérstakan. Í fyrsta lagi hafi þetta verið lengsta úthald sem hann hafi farið í á varðskipi á Íslandsmiðum og í öðru lagi hafi varðskipsmenn ekki mátt hafa neitt samneyti við fólk í landi vegna veirunnar sem herjað hefur á landsmenn.
Fyrstu fjórar vikurnar fóru varðskipsmenn bara einu sinni í land. Það var á Siglunesi, þar sem þeir hittu ekki nokkurn mann. Voru menn fegnir að komast aðeins frá borði og liðka sig. „Það var engin áhætta tekin því við erum hluti af viðbragðsteyminu á Íslandi. Ef smit kæmi upp um borð væri skipið þar með úr leik,“ segir Halldór, og bætir við að svona ástand hafi hann aldrei upplifað áður.
Margt hefur drifið á daga varðskipsmanna í þessari löngu ferð, eins og lesa má í fréttum á heimasíðu Landhelgisgæslunnar. Má þar nefna að Þór var sendur til að kanna hafís undan Vestfjörðum, skipið fjarlægði hvalshræ við Þórshöfn og varðskipsmenn björguðu hval sem var fastur í veiðarfærum fiskibáts suður af Langanesi. Þá má nefna að haldin var fallbyssuæfing norðvestur af Straumnesi svo viðhalda mætti kunnáttu áhafnarinnar í fallbyssufræðum.
Loks nefnir Halldór að ný aðferð hafi verið prófuð í fyrsta skipti, fjareftirlit með grásleppubátum. Siglt var með léttabáti upp að 19 slíkum bátum og skoðað hvort allt væri ekki í lagi en ekki farið um borð. „Þarna var tveggja metra reglan höfð í heiðri,“ segir hann.
Halldór kvaðst feginn að veturinn væri liðinn og komið sumar. „Þetta er einhver leiðinlegasti vetur sem ég hef upplifað á varðskipunum. Sífelldar brælur og tíð óveður í allan vetur.“
Ákvörðunin um aukna viðveru varðskipanna á Íslandsmiðum, vegna þess ástands sem nú ríkir, var tekin í samráði við áhafnir skipanna. Mikill skilningur var hjá áhöfnunum á mikilvægi þess að lengja ferðir skipanna og voru allir tilbúnir til að leggja sitt af mörkum svo vel mætti fara. Landhelgisgæslan er afar þakklát áhöfnunum fyrir fórnfýsina, segir í frétt á heimasíðu Gæslunnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. apríl.