Leiðin upp að einum hæsta og fallegasta fossi landsins, Glym í Hvalfirði, er vel stikuð og merkt. Leiðin liggur frá bílastæði í Botnsdal í Hvalfirði og liggur í gegnum Þvottahelli að Botnsá. Þar er venjulega trjádrumbur með línu sem hægt er að ganga yfir. Hann er hins vegar tekinn niður á haustin og ekki settur upp aftur fyrr en að sumri árið eftir. Á vorin eru fossinn og áin vatnsmikill og því ekki æskilegt að gera tilraun til að vaða þar sem drumburinn er vanur að vera.
Það er hins vegar önnur ómerkt leið sem hægt er að fara að vori. Sú leið hefst á sama stað, það er við bílastæðið við Glym. Við hliðið hjá bílastæðinu er hægt að velja um tvær leiðir. Leiðina að Glym og leiðina að Leggjabrjóti. Til að komast að Glym að vori er hægt að velja leiðina að Leggjabrjóti. Sú leið liggur fram hjá gömlu eyðibýli og yfir tún. Því næst er komið að brú yfir ána. Eftir brúna er mikilvægt að ganga meðfram ánni en sú leið er ekki merkt. Það eru kindaslóðar meðfram áni sem gott er að fylgja. Það þarf að vaða fjórum sinnum yfir ána áður en komið er að þeim stað sem trjádrumburinn fyrrnefndi er vanur að vera og þar tekur hin merkta leið upp að Glym við. Sú leið endar á toppi Glyms en þar er áin breið og mun grynnri en fyrir neðan fossinn. Það er merktur staur þar sem mælt er með að vaða yfir ána. Síðan tekur við ganga hinum megin við fossinn niður að bílastæðinu þar sem gangan hófst.
Það er mikilvægt að vera vel undirbúinn fyrir slíka ferð og sýna aðgát. Gott er að hafa vaðskó með góðu gripi og göngustafi til að styðja sig við yfir ána. Þá er gott að hafa vana manneskju með í för sem getur leiðbeint samferðafólki sínu um bestu leiðirnar yfir vöðin.
Valgerður Húnbogadóttir er félagi í hópnum Fjallastelpur sem hægt er að finna á Facebook og á Instagram. Hópurinn er tengslanet fyrir konur sem stunda útivist og er ætlað að hvetja konur til dáða innan útivistar og vera vettvangur þar sem þær geta rætt útivist á forsendum kvenna.