Í samkomubanninu undanfarinn rúman mánuð hefur Hilmar Hafsteinsson keyrt út pítsur til viðskiptavina Rauða ljónsins á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi, en hann er einn eigenda staðarins sem og Steikhússins við Tryggvagötu í Reykjavík, þar sem hann er veitinga- og rekstrarstjóri. „Þetta hefur verið skemmtileg tilbreyting, en nú þurfum við að gera allt tilbúið á Steikhúsinu áður en við opnum þar aftur á miðvikudag,“ segir hann.
Þegar Hilmar tók við sem rekstrarstjóri veitingastaðanna eftir að hafa útskrifast fyrst sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 2016 og síðan sem framleiðslumaður frá Menntaskólanum í Kópavogi 2018 átti hann ekki von á því að starfið yrði nánast alfarið fólgið í því að keyra út pítsur til viðskiptavina í óákveðinn tíma á líðandi ári. En enginn sá kórónuveirufaraldurinn fyrir, allt í einu var komið á samkomubann, Steikhúsinu var lokað og Hilmar og Eyjólfur Gestur Ingólfsson yfirmatreiðslumaður fluttu sig yfir á Rauða ljónið.
Vegna samkomubannsins, sem byrjaði um miðjan mars, var rólegt á Rauða ljóninu, engar beinar útsendingar frá enskum fótboltavöllum og almennt lítið um að vera. „Við urðum að bregðast við breyttu ástandi í samfélaginu og þegar gestir okkar gátu ekki lengur komið í mat til okkar var ekki annað í stöðunni en að fara með matinn til fólksins,“ segir Hilmar. „Mér finnst gaman að vinna, vinn mikið og nenni ekki að vera aðgerðalaus heima. Þess vegna tók ég að mér að sendast með matinn milli klukkan fimm og níu á hverjum degi og sé ekki eftir því – þetta hefur verið gaman.“
Rauða ljónið var ekkert nema nafnið, þegar Hafsteinn Egilsson, faðir Hilmars, keypti húsnæðið og opnaði samnefndan stað aftur eftir bankahrunið 2008. „Fjölskyldan stóð að þessu saman og við opnuðum 1. maí 2009,“ segir Hilmar, sem var í námi í Verslunarskóla Íslands samfara vinnu á staðnum. „Ég hef því unnið á Rauða ljóninu í 11 ár þó ég hafi meira verið á Steikhúsinu eftir að ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur.“ Til nánari útskýringar segist hann hafa mikinn áhuga á mat og víni í hæsta gæðaflokki og þess vegna hafi hann farið í framreiðslunám samfara því að vinna á Steikhúsinu. Þar hafi hann unnið sig upp og þegar Níels bróðir hans, sem var rekstrar- og veitingastjóri á Steikhúsinu, tók við rekstri íbúðahótels fjölskyldunnar á Tenerife, hafi hann tekið við keflinu.
Útgöngubann hefur verið á Spáni undanfarnar vikur, þó aðeins sé farið að slaka á því, en þegar ljóst var hvert stefndi kom Hafsteinn, sem hefur verið Níels innanhandar við reksturinn, heim frá Tenerife og aðstoðaði Hilmar í útkeyrslunni. „Við feðgarnir höfum verið á fullu í útkeyrslunni,“ segir Hilmar um þjónustuna sem lauk í gærkvöldi.
Tíminn hefur liðið hratt og nú einbeitir Hilmar sér að Steikhúsinu. „Eftir á að hyggja var þetta frábær hugmynd að snúa dæminu við, að fara með matinn til fólksins,“ segir hann. „Mér hefur alltaf þótt gaman að vinna á Ljóninu og þetta var skemmtileg nýbreytni en núna bíð ég spenntur eftir því að geta opnað Steikhúsið aftur.“ Hann segir samt að reksturinn verði með breyttu sniði til að byrja með, opið fimm daga í viku frá klukkan 17-22, en lokað á mánudögum og þriðjudögum. „Við vitum ekki hvað við erum að fara út í og förum því varlega í sakirnar, en vonandi getum við haft opið alla daga sem fyrst. Við megum hafa 50 manns inni í einu og hlýðum Víði.“
Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.