Eins konar hryðjuverk gegn fjölskyldubílnum

Hópur manna á vegum Reykjavíkurborgar vinnur nú að lagningu hjólastígs …
Hópur manna á vegum Reykjavíkurborgar vinnur nú að lagningu hjólastígs og uppsetningu strætóskýlis við Geirsgötu. mbl.is/Árni Sæberg

Vaskur hópur manna á vegum Reykjavíkurborgar hefur undanfarið sést við vinnu við Geirsgötu í miðbænum. Var hópurinn þá að vinna að uppsetningu á nýrri stoppistöð Strætó en nokkra athygli vekur að ekkert útskot fylgir nýju stöðinni. Þetta veldur því að strætisvagnar munu þurfa að stoppa á miðri akbraut til að hleypa farþegum sínum inn og út úr vagninum með fyrirséðum töfum á umferð um götuna.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir framkvæmdina ekkert annað en hluta af þrengingarstefnu meirihlutans í Reykjavík. Geirsgata sé mikilvæg samgönguæð og framkvæmd sem þessi eins konar hryðjuverk gegn fjölskyldubílnum.

„Ef strætó á að fara að stoppa þarna á miðri götu með hugsanlegri slysahættu þá lýsi ég fullri ábyrgð á hendur borgarstjóra og meirihlutans. Það er komið að þanmörkum hvað þrengingarstefnu þessa fólks varðar og þetta svæði nálgast það að verða tifandi tímasprengja,“ segir Vigdís í samtali við Morgunblaðið.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísar hún meðal annars í máli sínu til þeirra framkvæmda sem í sumar eru áformaðar á Tryggvagötu, en að óbreyttu verður gatan gerð að einstefnugötu í vesturátt.

Fram kemur í bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dagsett 16. janúar 2020, að fyrirhugað sé að breyta deiliskipulagi Kvosarinnar vegna svæðis sem nær eftir Tryggvagötu frá gatnamótum Grófarinnar í vestri að Pósthússtræti í austri og lóðar Tollhússins. Í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata segir að framkvæmdin sé „forsenda fyrir breytingum sem miða að því að gera götuna fallegri og mannvænni. Breytingin felur meðal annars í sér að fallegt og nokkuð stórt torg verður til við suðurhlið Tollhússins,“ en á þeirri hlið hússins er mósaíkverk Gerðar Helgadóttur myndhöggvara. Þá er í bókuninni svæðinu lýst sem sólríku og skjólsælu.

Talsverð umferð er um Geirsgötu og er nú viðbúið að …
Talsverð umferð er um Geirsgötu og er nú viðbúið að það muni hægjast á henni með tilkomu skýlisins. mbl.is/Árni Sæberg

Vigdís gefur lítið fyrir þessar lýsingar, líkir þeim við útópíu og bendir á að um sé að ræða skuggasvæði í borginni. Þá segir hún kostnaðaráætlun gera ráð fyrir að minnst 400 milljónir fari í breytingar á Tryggvagötu.

„Það á í þessu verkefni að afleggja um 50 bílastæði við Tollhúsið og beina allri umferð inn á Geirsgötu. Það sér það hver maður að þetta gengur ekki svona,“ segir Vigdís og heldur áfram: „Svo má ekki gleyma því að þessi bílastæði standa við ríkisstofnun, sem allir eiga jú að hafa aðgang að. Það er því beinlínis verið að hefta aðgengi fólks að ríkisstofnun í miðbænum.“

Vilja ekki hraða og hávaða

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, segist ekki óttast óþarfa umferðartafir á Geirsgötu eftir tilkomu skýlisins. Tvær akgreinar séu í hvora átt, þ.e. til austurs og vesturs.

„Það þarf ekki að hafa áhyggjur af umferð þó strætó stoppi þarna í skamma stund. Þetta snýst um forgangsröðun ferðamáta, en norðanmegin við götuna er verið að leggja hjólastíg og við viljum hafa hann óslitinn,“ segir hún og bendir á að ekki sé æskilegt að fella stoppistöð inn að honum. „Það gæti sett óvarða vegfarendur í meiri hættu. Ekki má gleyma því að þetta er inni í miðbænum og þar viljum við ekki hafa hraðakstur og umferðarhávaða.“

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.

Olíuflutningar hafa verið um Geirsgötu undanfarin ár og hefur í Morgunblaðinu verið greint frá áhyggjum af hugsanlegu slysi olíubíla vegna umferðarþunga í miðbænum. Sigurborg Ósk segist ekki halda að ein stoppistöð Strætó muni valda mikilli hættu. „Umferðin fer ekki hratt um þetta svæði hvort eð er. Hluti af framkvæmdunum er að bæta við trjám á miðsvæði milli akstursstefna. Þessi gata er að taka á sig breytingum í átt að borgargötu. Dæmi um það eru meðal annars T-gatnamótin við Lækjargötu. Miðbærinn okkar er bara annars eðlis en hann var og við getum ekki gert ráð fyrir því að keyra hratt í gegnum hann lengur. Enda viljum við það ekki.“ 

Hvað framkvæmdir við Tryggvagötu varðar þá segir Sigurborg Ósk svæðið bjóða upp á mörg spennandi tækifæri. „Við gerum ráð fyrir torgi fyrir framan mósaíkmyndina þar sem fólk getur setið. Svo verður þarna gróður og önnur aðstaða fyrir fólk,“ segir hún, en á þessu svæði verða einnig heimil þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða og eitt þjónustustopp fyrir rekstraraðila við Tryggvagötu. Þá verður einnig tímabundin stöðvun þjónustuaðila heimil í Naustunum sunnan við Tryggvagötu en sérstakt stæði ekki tilgreint þar.

Tryggvagötu verður breytt í einstefnugötu og við mósaíkmyndina í fjarska …
Tryggvagötu verður breytt í einstefnugötu og við mósaíkmyndina í fjarska víkja bílastæði fyrir torgi. mbl.is/Árni Sæberg

Spurð hvort bílastæðin við Tollhúsið séu líkleg til að slá í gegn sem útisvæði almennings kveður Sigurborg Ósk já við. Svæðið sé, þrátt fyrir ummæli borgarfulltrúa Miðflokksins, sólríkt og skjólgott. „Upp við listaverkið má finna sólríkasta blettinn, það snýr í suður og er í skjóli frá vindinum sem kemur frá höfninni. Það þýðir ekki að hafa bílastæði á svona svæði. Svo er þetta allt í nánd við nýja torgið í kringum Bæjarins beztu og gömlu steinbryggjuna. Þetta er allt orðið mjög flott og verður með þessu enn flottara.“ 

Hjólastígurinn liggur norðan við Geirsgötu.
Hjólastígurinn liggur norðan við Geirsgötu. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn gerir svo öllum líkir

Mjög hefur verið fjallað um kaupmenn við Laugaveg sem margir hverjir eru afar ósáttir með götulokanir í miðborginni. Hafa þeir meðal annars sagt þær bitna á rekstri og fullyrt að Íslendingar kjósi fremur að versla annars staðar sökum slæms aðgengis og fárra bílastæða. Sigurborg Ósk segir það ljóst að Laugavegur verði göngugata allt árið um kring. Slíkt eigi ekki að koma á óvart. Eins sé stefnt að því að Hlemmur verði bíllaust svæði.

„Ég held það verði kannski aldrei hægt að sætta öll sjónarmið en okkar hagur er að fá sem flesta niður í miðbæ, sem öflugasta rekstraraðila og bestan aðbúnað fyrir borgarbúa og gesti. Það teljum við okkur vera að gera með göngugötum líkt og borgir um allan heim.“

Sumir kaupmenn hafa bent á að Reykjavíkurborg stundi slæmt samráð og hlusti seint og illa á gagnrýnisraddir. Spurð út í þetta svarar hún: „Það er erfitt að andmæla orðum fólks þegar það upplifir að ekki sé hlustað á sig. Og það er leitt að heyra. En við tökum tillit til allra sjónarmiða í þessu ferli, sem er nokkuð langt. Það er þannig að enginn gerir svo öllum líki en við teljum okkur vera að starfa fyrir fólkið í borginni.“ 

mbl.is