Arion banki tapaði tæplega 2,2 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins. Arðsemi eiginfjár var neikvæð um 4,6% á tímabilinu. Á sama tímabili í fyrra hagnaðist bankinn um rétt rúman milljarð króna og var arðsemi eiginfjár þá jákvæð um 2,1%.
Þetta kemur fram í uppgjöri bankans sem birt var nú síðdegis.
Einkum eru teknir til þrír þættir sem orsakað hafi neikvæða afkomu á fyrsta ársfjórðungi 2020.
Hreinar fjármunatekjur hafi verið neikvæðar um tvo milljarða króna, „einkum vegna gangvirðisbreytinga hlutabréfa vegna óhagstæðrar þróunar á mörkuðum, hrein virðisbreyting verið neikvæð um 2.860 milljónir króna, aðallega vegna svartsýnni forsendna í IFRS 9-líkönum bankans, einkum ef horft er til væntrar þróunar atvinnuleysis og tilfærslu viðskiptavina í ferðamannatengdri starfsemi í þrep 2, og aflögð starfsemi, sem var neikvæð um 889 milljónir króna vegna taprekstrar Valitor og matsbreytinga í Sólbjargi og Stakksbergi, en öll dótturfélögin eru flokkuð sem eignir til sölu,“ segir í tilkynningu frá bankanum.
Heildareignir námu 1.188 milljörðum króna í lok marsmánaðar, samanborið við 1.082 milljarða króna í árslok 2019. Lausafé bankans jókst þar sem ekki varð af fyrirhugaðri 10 milljarða króna arðgreiðslu, bankinn gaf út skuldabréf undir viðbótar eiginfjárþætti 1 í febrúar og innlán jukust. Lán til viðskiptavina hækkuðu lítillega frá áramótum, aðallega húsnæðislán.
Innlán jukust um 9,4% frá áramótum en bankinn hefur lagt áherslu á innlán í fjármögnun sinni. Heildar eigið fé í lok mars nam 184 milljörðum króna, samanborið við 190 milljarða króna í árslok 2019 en lækkunin er einkum tilkomin vegna áframhaldandi kaupa á eigin bréfum bankans á fyrsta ársfjórðungi 2020.
„Eiginfjárhlutfall bankans (CAR-hlutfall) var 27,5% í lok mars 2020 en var 24,0% í árslok 2019. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 22,5% í lok mars 2020, samanborið við 21,2% í árslok 2019.
Eiginfjárgrunnur samstæðunnar jókst um 23,3 milljarða króna frá áramótum, einkum vegna vel heppnaðrar útgáfu á 100 milljóna dollara skuldabréfs undir viðbótar eiginfjárþætti 1 í febrúar 2020 og vegna ákvörðunar stjórnar Arion banka um að leggja til að ekki verði af fyrirhugaðri arðgreiðslu vegna ársins 2019 í ljósi Covid-19 heimsfaraldursins og tilmæla Seðlabanka Íslands þar að lútandi.
Sú ákvörðun verður til þess að tillaga um 10 milljarða króna arðgreiðslu, sem lá fyrir í árslok 2019, hefur ekki lengur áhrif til lækkunar á eiginfjárgrunni samstæðunnar,“ segir enn fremur í tilkynningu bankans.
Bankinn er sagður stefna áfram á að ná markmiðum sínum til meðallangs tíma að því gefnu að efnahagslífið jafni sig innan þess tíma.
Haft er eftir Benedikti Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að afkoman markist mjög af heimsfaraldri kórónuveiru.
„Afkoman á fjórðungnum er neikvæð um rúmlega tvo milljarða króna einkum vegna þátta sem tengjast Covid-19 svo sem þróunar verðbréfamarkaða og efnahagslífsins almennt. Markaðsvirði hlutabréfaeignar bankans lækkaði um rúma tvo milljarða króna, niðurfærslur lána námu um þremur milljörðum, eða um 0,38% af lánasafni bankans, og neikvæð áhrif félaga til sölu námu um einum milljarði króna.
Niðurfærslur lána eru að mestu tilkomnar vegna væntinga um erfiðleika í efnahagslífinu og þar með auknum líkum á vanskilum. Lánasafn bankans er sem fyrr vel dreift á milli lána til einstaklinga og fyrirtækja, en um 91% af útlánum bankans eru tryggð með veðum, þar af 70% með veðum í fasteignum.
Kjarnastarfsemi bankans þróast með nokkuð jákvæðum hætti á ársfjórðungnum borið saman við fyrsta ársfjórðung 2019 þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Til að mynda eykst vaxtamunur bankans, tekjur af kjarnastarfsemi aukast um 9% og rekstrarkostnaður dregst saman um 10%. Áhersla á grunnstoðir í rekstri bankans heldur áfram og fjárhagsleg markmið hafa ekki breyst þó mögulega sé lengra í að þau náist,“ segir Benedikt.
„Við höfum aðstoðað viðskiptavini okkar síðustu vikur og mánuði og gert okkar besta til að hjálpa þeim að bregðast við þeim einstæðu aðstæðum sem Covid-19 hefur leitt af sér. Einstaklingar hafa fyrst og fremst óskað eftir greiðsluhléi íbúðalána og höfum við komið til móts við óskir hátt í tvö þúsund viðskiptavina um greiðsluhlé.
Eru nú rúmlega 11% lána bankans til einstaklinga í greiðslufrystingu. Við höfum jafnframt lagt áherslu á að vera í góðu sambandi við forsvarsfólk fyrirtækja til að fara yfir stöðu mála og horfur og hafa fjölmörg fyrirtæki óskað eftir frystingu lána. Við höfum gert okkar besta til að koma til móts við þau og eru nú um 9% lána til fyrirtækja í frystingu. Alls hefur bankinn því fryst um 10% af lánasafni sínu.“
„Aðdáunarverður árangur hefur náðst í baráttu við Covid-19 veiruna hér á landi sem er á undanhaldi. Efnahagslegar afleiðingar veirunnar eru enn að koma fram og eru þær einhverjar þær harkalegustu sem við höfum séð á seinni tímum. Ef að líkum lætur þá má gera ráð fyrir að nokkuð sé í að ferðaþjónusta hér á landi taki við sér og nái fyrri hæðum með jákvæðum áhrifum fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Arion banki mun áfram leggja sitt af mörkum og styðja við sína viðskiptavini.
Útgáfa bankans í febrúar á skuldabréfi undir viðbótareiginfjárþætti 1 sem og ákvörðun stjórnar bankans um að falla frá endurkaupastefnu og útgreiðslu arðs gera að verkum að eiginfjár- og lausafjárstaða bankans er óvenju sterk og 27,5% eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) hærra en nokkru sinni. Þriðjungur af eigin fé bankans, eða um 63 milljarðar króna, er umfram lögboðið lágmark og er bankinn því vel í stakk búinn til að takast á við þær aðstæður sem nú eru uppi.“