Mótmæla fordæmalausri ákvörðum ráðherra

Bæjarráð Akraness mótmælir tilhögun stöðvunar grásleppuveiða og krefst þess að …
Bæjarráð Akraness mótmælir tilhögun stöðvunar grásleppuveiða og krefst þess að ákvörðunin verði endurskoðuð. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarráð Akraness krefst þess í fundargerð sinni ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að stöðva grásleppu veiðar með skömmum fyrirvara verði endurskoðuð. Bann var sett á veiðarnar með reglugerð og var tilkynning þess efnis birt síðdegis 30. apríl og tók bannið gildi á miðnætti aðfararnótt sunnudags 3. maí.

Ákvörðunin hefur sætt mikilli gagnrýni og var á laugardag 2. maí haft eftir Örn Pálsson, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, að um væri að ræða „forkastanleg vinnubrögð“ að tilkynna bannið með skömmum fyrirvara og síðdegis á fimmtudegi fyrir langa helgi.

Taldi Örn ákvörðunina verða til þess að grásleppusjómenn myndu óhjákvæmilega verða lögbrjótar þar sem erfitt yrði að ná inn netunum fyrir þann tíma sem bannið tók gildi.

„Bæjarráð Akraness tekur undir með félagsmönnum í smábátafélaginu Sæljóni á Akranesi og mótmælir fordæmalausri ákvörðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að stöðva grásleppuveiðar með alltof skömmum fyrirvara,“ segir í fundargerð bæjarráðs Akraness. Jafnframt er bent á að „misvægi er á milli landshluta hvað varðar grásleppuveiðar og gerir þá kröfu að ráðherra endurskoði ákvörðun sína þannig að jafnræðis verði gætt.“

mbl.is