Ámælisvert samráðsleysi hjá Reykjavíkurborg

Auðvelt er að búa til útskot fyrir strætó á þessu …
Auðvelt er að búa til útskot fyrir strætó á þessu svæði enda nóg pláss. Við það yrði þó hjólastígur norðan við skýlið að taka á sig sveig. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Við hér á Seltjarnarnesi erum orðin langþreytt á því hvernig málum sem þessu er hugsunarlaust ýtt áfram. Geirsgata er, ásamt Hringbraut, samgönguæð okkar og það verður að tryggja gott flæði bílaumferðar á þessum götum í stað þess að þrengja sífellt að. Það voru því gríðarleg vonbrigði að upplifa þetta mikla samráðsleysi hjá Reykjavíkurborg,“ segir Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hann í máli sínu til framkvæmdar við Geirsgötu í miðbæ Reykjavíkur. Er þar verið að setja upp nýja stoppistöð Strætó og hefur það vakið talsverða athygli að ekkert útskot fylgir stöðinni, líkt og greint var frá hér í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag. Þetta veldur því að strætisvagnar munu þurfa að stoppa á miðri akbraut til að hleypa farþegum sínum inn og út úr vagninum með fyrirséðum töfum á umferð um Geirsgötu.

mbl.is