Hagkerfið gæti dregist saman um 9%

Greiningin felur í sér sviðsmynd um mögulega efnahagsframvindu að gefnum …
Greiningin felur í sér sviðsmynd um mögulega efnahagsframvindu að gefnum forsendum um að ferðamenn skili sér ekki til landsins það sem eftir lifir árs og að árið 2021 sæki 1 milljón ferðamanna landið heim. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hag­kerfið gæti dreg­ist sam­an um um það bil 9% á þessu ári ef for­send­ur grein­ing­ar sem fjár­mála- og efna­hags­ráðuneytið hef­ur unnið sem miða að því að varpa ljósi á mögu­lega stærðargráðu áfalls­ins sem hag­kerfið stend­ur frammi fyr­ir vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru. 

„Grein­ing ráðuneyt­is­ins bygg­ir á raun­hæf­um en nokkuð svart­sýn­um for­send­um um dýpt krepp­unn­ar,“ seg­ir í frétt á vef Stjórn­ar­ráðsins. Niður­stöður henn­ar fela ekki í sér spá um lík­leg­ustu fram­vindu efna­hags­mála held­ur sviðsmynd um mögu­lega efna­hags­fram­vindu að gefn­um for­send­um um að ferðamenn skili sér ekki til lands­ins það sem eft­ir lif­ir árs og að árið 2021 sæki 1 millj­ón ferðamanna landið heim. Til sam­an­b­urðar ger­ir ný­leg sviðsmynd KPMG ráð fyr­ir 1,3 millj­ón ferðamönn­um á næsta ári.

Niður­stöður grein­ing­ar­inn­ar, sem unn­in var 20. apríl, eru á þá leið að hag­kerfið gæti dreg­ist sam­an um u.þ.b. 9% í ár ef for­send­ur henn­ar raun­ger­ast. Verði það niðurstaðan er um að ræða ívið minni sam­drátt en sam­an­lagt árin 2009 og 2010. Þá bend­ir grein­ing­in til þess að hag­kerfið gæti vaxið um 5% strax á næsta ári. Niður­stöðurn­ar gefa til kynna að einka­neysla gæti dreg­ist sam­an um 9% í ár en vaxið kröft­ug­lega á því næsta. 

Hrun í ferðalög­um er­lend­is og tveggja stafa at­vinnu­leysi

Tals­verðan hluta sam­drátt­ar­ins má rekja til hruns í neyslu Íslend­inga á ferðalög­um er­lend­is sem aðeins var gert ráð fyr­ir að skili sér að hluta í inn­lenda neyslu. Útlit er fyr­ir að fyrr verði undið ofan af sótt­varnaaðgerðum en for­send­ur sviðsmynd­ar­inn­ar gerðu ráð fyr­ir og vís­bend­ing­ar hafa þegar borist um að sam­drátt­ur einka­neyslu gæti reynst minni en niður­stöður grein­ing­ar­inn­ar gefa til kynna. At­vinnu­leysi yfir árið gæti reynst í tveggja stafa tölu, en hafa ber hug­fast að síðan grein­ing­in var unn­in hef­ur hlutastar­fa­leið stjórn­valda verið fram­lengd um tvo mánuði. Útlit er fyr­ir mesta út­flutn­ings­sam­drátt frá því mæl­ing­ar hóf­ust en tölu­verður sam­drátt­ur inn­flutn­ings kem­ur í veg fyr­ir að halli mynd­ist á viðskipta­jöfnuði.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina