Festi hættir í hlutabótaleiðinni

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi. Ljósmynd/Aðsend

Festi hf. er hætt að nýta sér hluta­bóta­leið stjórn­valda til að greiða starfs­fólki sínu laun og breyt­ing­in tek­ur gildi í dag. Hingað til hef­ur kostnaður fyr­ir rík­is­sjóð numið 45 millj­ón­um vegna greiðslna til Fest­ar en hann verður ekki meiri úr þessu.

Eggert Þór Kristó­fers­son seg­ir ákvörðun­ina á sín­um tíma hafa verið tekna í góðum hug. „Það hvarflaði ekki að okk­ur að hún myndi orka tví­mæl­is enda fór fyr­ir­tækið í einu og öllu að til­mæl­um stjórn­valda. Festi vill árétta að síðan hluta­bóta­leiðin var kynnt sem úrræði stjórn­valda að þá hef­ur fé­lagið ekki greitt út arð eða keypt eig­in hluta­bréf,“ seg­ir Eggert í til­kynn­ingu um málið. 

„Það eru ein­kenni­leg­ir tím­ar sem við lif­um núna og margt óvænt sem kem­ur upp í dag­leg­um rekstri sem við lær­um af. Festi hef­ur ákveðið frá og með deg­in­um í dag að nýta ekki hluta­bóta­leiðina,“ seg­ir Eggert þá.

Harðlega gagn­rýnd 

Festi rek­ur meðal ann­ars N1, Elko og Krón­una og Eggert for­stjóri sagði í viðtali í gær að fé­lagið stæði „mjög vel.“ Þrátt fyr­ir gott ástand, hafi það ákveðið að nýta sér hluta­bóta­leiðina, enda hafi það haft heim­ild til þess. Ætl­un­in hafi verið að koma í veg fyr­ir upp­sagn­ir.

Stór og stönd­ug fé­lög eins og Festi hafa verið gagn­rýnd, meðal ann­ars af æðstu ráðamönn­um þjóðar­inn­ar, fyr­ir að nýta sér úrræði sem eru ætluð þeim sem standa mjög illa vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. 

Í til­kynn­ing­unni seg­ir að fé­lagið hafi orðið fyr­ir tekjutapi á ákveðnum sviðum. „Versl­an­ir ELKO í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar sem og nokkr­ar þjón­ustu­stöðvar N1 urðu fyr­ir al­gjöru eða miklu tekjutapi og veru­leg­um tak­mörk­un­um á starf­semi vegna áhrifa af COVID-19 og sam­komu­banns stjórn­valda.  Hluta­bóta­leiðin var nýtt að hvatn­ingu stjórn­valda í stað þess að grípa til upp­sagna og vernda þannig  ráðning­ar­sam­band við starfs­fólk, enda er okk­ur um­hugað um að vernda störf og halda því góða starfs­fólki sem hjá okk­ur starfar.“

mbl.is