Bjórinn Gunna Ö. fór í verslanir í dag en bjórinn heitir eftir baráttukonunni Guðrúnu Ögmundsdóttir sem lést þann 31. desember 2019. Gunna Ö. er brugguð af hinu nýstofnaða félagi KONU félagi kvenna í bruggi. KONA færði Gísla Víkingssyni, ekkli Guðrúnar, og fjölskyldu hennar Gunnu Ö. í dag.
„Þetta er bjór sem við brugguðum saman á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars síðastliðinn. Þetta er í þriðja skipti sem konur í bjórbransanum á Íslandi hittast og brugga bjór saman,“ segir Ásta Ósk Hlöðversdóttir, formaður félagsins. Ásta hefur verið í bruggbransanum á Íslandi um nokkurra ára skeið og er nú bruggmeistari í Ölvisholti.
Bruggkonur á Íslandi tileinka bjórinn ár hvert kvenhetjum Íslandssögunnar sem hafa veitt þeim innblástur. Ásta segir að bruggheimurinn sé ansi karllægur og tilgangur félagsins sé að styðja við konur í bransanum.
„Þetta hefur verið okkar tækifæri til að spjalla saman um hvernig það er að vera kona í þessum bransa og hvaða sérstöku áskoranir við þurfum oft að takast á við,“ segir Ásta.
Bruggkonurnar nýttu tímann á meðan samkomubanni stóð til þess að stofna félagið og nú 3 mánuðum eftir að þær hittust á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er Gunna Ö. tilbúin. Gunna Ö. er Pale Ale bjór kryddaður með Pink Boot Society humlum.
„Það er ekki nauðsynlegt að vera karl til að brugga bjór og bjórinn er allra. Ég held að það sé nú búið að breytast aðeins á síðustu árum og bestu bjórnördarnir í dag eru konur,“ segir Ásta.
Guðrúnu Ögmundsdóttur ættu flestir að kannast við en hún var áberandi í baráttu kvenna og hinsegin fólks. Hún hlaut ótal viðurkenningar fyrir brautryðjandastörf í þágu mannréttinda, m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2019 fyrir framlag í þágu mannúðar og jafnréttisbaráttu hinsegin fólks.
Guðrún var fyrst kjörin til setu í borgarstjórn fyrir Kvennalistann árið 1992 og fyrir Reykjavíkurlistann 1994-1998. Hún var kjörin í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Samfylkinguna árið 2017. Guðrún var kjörin á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi árið 1999 og sat á þingi til ársins 2007.