Nokkuð hefur verið um tilkynningar til Hafrannsóknastofnunar síðustu vikur um fullorðna loðnu inni á fjörðum fyrir norðan land og jafnvel rekna á fjörur, t.d. í Hrútafirði.
Strandveiðimenn í Eyjafirði töluðu í vikunni um að þorskurinn væri stútfullur af loðnu. Utar við Eyjafjörðinn veiddist vel af þorski í gær og mikið var af loðnu í þorskmögunum, í mörgum tilvikum var hún hrognafull. Einn þorskanna hafði sporðrennt um 40 loðnum áður en hann beit á krók veiðimannsins í Arnarnesvík utan við Hjalteyri.
Birkir Bárðarson fiskifræðingur segir að fréttir um hrygningarloðnu fyrir Norðurlandi komi ekki á óvart. Síðustu ár hafi talsvert af loðnunni hrygnt fyrir norðan og ljóst sé að hrygning hafi verið að aukast þar, að því er segir í Morgunbaðinu í dag.