Fagurfræðin fullkomnuð

Florian Schneider með Kraftwerk á gullaldarárum sveitarinnar á seinnihluta áttunda …
Florian Schneider með Kraftwerk á gullaldarárum sveitarinnar á seinnihluta áttunda áratugarins.

Hvar er hægt að byrja þegar kem­ur að því að skrifa um Kraftwerk. Þegar frétt­irn­ar bár­ust af því að Flori­an Schnei­der, ann­ar af stofn­end­um sveit­ar­inn­ar, hefði lát­ist í vik­unni létu viðbrögðin ekki bíða eft­ir sér á sam­fé­lags­miðlum. Aðdá­end­ur hér­lend­is eru marg­ir og þeir eru ófá­ir, sér­stak­lega á meðal þeirra sem virki­lega láta tónlist sig varða, sem halda því full­um fet­um fram að sveit­in sé sú áhrifa­mesta sem hef­ur komið fram. Mikið til í því en auðvitað ómögu­legt að sann­reyna.

Ris­ar í tónlist, fólk á borð við Coldplay og Dav­id Bowie, hef­ur ekki leynt aðdá­un­inni og þá aug­lýsi ég hér með eft­ir raf­tón­list­ar­manni sem ekki kann að meta Kraftwerk. Afar ólík­legt hann sé ein­hversstaðar. Ég hef hitt tón­listar­fólk sem kann ekki að meta Bítl­ana! en ég man ekki eft­ir nein­um sem hlust­ar á tónlist af ein­hverj­um áhuga sem leiðist Kraftwerk. Al­ger­lega ósnert­an­leg sveit.  

Margt hef­ur verið skrifað um Flori­an. Aristó­krat­an, list­nem­ann og arki­tekta­son­inn frá Dus­seldorf sem ólst upp í Þýskalandi eft­ir­stríðsár­anna. Hann gaf ekki mörg færi á viðtöl­um í gegn­um tíðina en eft­ir því sem maður hef­ur heyrt frá fólki sem komst í ná­vígi við kapp­ann var hann víst skraut­leg­ur furðufugl. Hér verður þó lítið gert til að kafa dýpra í það, hér er safnað sam­an nokkr­um áhug­verðum upp­tök­um af ferli Flori­ans með Kraftwerk en mikið magn af mynd­skeiðum er að finna í youtu­be með sveit­inni.

Fyrsta upp­tak­an sjón­varps­upp­tak­an sem finna má á net­inu af Kraftwerk koma fram er frá ár­inu 1970. Hljóm­ur­inn er frum­stæður en greini­lega má heyra vísi að því sem koma skyldi og ljóst var að stefn­an hafði verið tek­in á ókönnuð mið. Þarna voru þeir fé­lag­ar enn sem komið var síðahærðir og hippaleg­ir sem átti auðvitað eft­ir að breyt­ast. Flori­an sést þarna með þverf­laut­una sem var stór þátt­ur af Kraftwerk-hljómn­um í upp­hafi. 

Á sömu tón­leik­um má heyra enn sterk­ari vís­bend­ing­ar um átt­ina sem þeir Flori­an og Ralf stefndu í. Takt­föst, stíl­hrein og kulda­leg en eit­ursvöl tónlist. Fyrsta tekn­óið.

1973 var búið að skipta hefðbundnu tromm­u­setti út fyr­ir frum­stæðar tölvutromm­ur. Þarna voru dreng­irn­ir greini­lega komn­ir á sporið enda einug­is eitt ár í út­gáfu Autobahn. 

Spotify mætti halda að Autobahn væri fyrsta plata sveit­ar­inn­ar en áður höfðu þeir gefið út plöt­ur sem voru ekki jafn meitlaðar hug­mynda­fræðilega og meira í ætt við tíðarand­ann. Mik­il­vægi plöt­unn­ar verður lík­lega seint of­metið. Þarna sneru þeir hug­mynd­um fólks um tónlist og popp al­ger­lega á hvolf og opnuðu leiðir fyr­ir sig og aðra sem höfðu áður verið óhugs­andi.

Hér má sjá hvernig vél­ræn tónlist Þjóðverj­anna kom kvik­mynda­tök­uliði BBC fyr­ir sjón­ir árið 1975. 

Á næstu sjö árum komu út Radio-Acti­vity, Trans Europa Express, Die Mensch-Maschine og Compu­terwelt. Ótrú­leg­ur sprett­ur. Á þess­ari upp­töku frá ár­inu 1978 má sjá Kraftwerk í sinni tær­ustu mynd. Naum­hyggju­leg fag­ur­fræði sveit­ar­inn­ar full­komnuð í flutn­ingi á lag­inu um vél­menn­in, ein­um af stærstu smell­um sveit­ar­inn­ar.  

Lík­lega hef­ur eng­inn verið jafn inn­blás­inn í lýs­ing­um á mik­il­vægi Kraftwerk en þeir Berg­ur Ebbi og Snorri Helga­son í Fíla­lag þegar þeir fíluðu Trans Europa Express. Það er al­veg óhætt að rifja það upp við þetta tæki­færi enda erum við að tala um einn af stærstu meist­ur­un­um sem er fall­inn frá.

mbl.is