Landhelgisgæslan varar við hafís undan Vestfjörðum en síðustu daga hefur hafísröndin fært sig nær landi og var ísröndin klukkan 21 á föstudagskvöld í um 30 sjómílna fjarlægð frá Straumnesi. Nokkur skip eru á veiðum við ísröndina.
Á sunnudagskvöld er spáð allhvassri vest-suðvestan átt á svæðinu og gæti ísinn þá færst nær landi. Meðfylgjandi kort sýnir ísbrúnina sem varðskipið Týr fylgdi eftir aðfaranótt laugardags. Íshrafl og ísmolar geta verið utan svæðisins.
Á Facebook-síðu Eldfjallafræði og náttúruváhópi Háskóla Íslands er einnig vakin athygli á hafísnum með glæsilegri MODIS gervitunglamynd úr Terra tungli NASA. Um 32 sjómílur eru í hafísinn, sem sést vel á mynd á reki á milli Íslands og Grænlands.