Ævintýri í sveitinni fyrir alla fjölskylduna

Ferðaþjónustubændurnir að Rauðuskriðum; hjónin Þorsteinn Guðjónsson og Ingveldur Guðný Sveinsdóttir …
Ferðaþjónustubændurnir að Rauðuskriðum; hjónin Þorsteinn Guðjónsson og Ingveldur Guðný Sveinsdóttir en þau tóku við rekstrinum á býlinu fyrir rúmum 30 árum.

„Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún.“ Svo mælti Gunnar forðum. Fljótshlíðin er vissulega fögur en umhverfi hennar býr að auki yfir fjölmörgum náttúrperlum sem mörg hafa misst af á ferðum sínum um Suðurlandið.

Á miðjum ökrunum bleiku, sem Markarfljótið hefur nostrað við að leggja með framburði sínum síðustu árþúsundir, við rætur hins stórmerkilega smáfjalls, Stóra Dímon, kúrir býlið Rauðuskriður. Þar búa bændurnir Ingveldur Guðný Sveinsdóttir og Þorsteinn Guðjónsson  ásamt börnum sínum og stunda hefðbundinn búskap samhliða ferðaþjónustu og öðrum störfum. Samhliða auknum umsvifum ferðaþjónustunnar víða um land hefur það færst í vöxt að bændur bjóði ferðamönnum að gista við bæinn. Oft í smáhýsum en einnig hefur t.d. gömlum útihúsum verið breytt í gistiheimili. Sjarminn við bændagistingu felst ekki síst í þeirri gamalgrónu íslensku gestrisni sem mætir fólki á ferðalagi. Gestrisni sem er bæði vinalegri og persónulegri en sú staðlaða kurteisi sem ferðamenn mæta á hótelum.

Hjalta Guðmundssyni, sem er 11 ára, finnst ekkert krúttlegra en …
Hjalta Guðmundssyni, sem er 11 ára, finnst ekkert krúttlegra en nýfædd lömb.

Dóra Magnúsdóttir, verkefnasstjóri í Greiningar- og ráðgjafarstöð, fór nýlega ásamt fjölskyldu sinni, eiginmanni og þremur börnum, í tveggja nátta helgarfrí í smáhýsum Rauðuskriða í byrjun maí. Þegar leitað var að spennandi og hagstæðum gistimöguleikum eftir margra vikna samveru fjölskyldunnar í borginni, gerð það útslagið að sauðburður væri yfirstandandi.

„Ég held að mér og krökkunum finnist ekkert eins krúttlegt og nýfædd lömb. Við stoppum oft þar sem hægt er út á landi snemmsumars til að skoða lömbin en það er yfirleitt frekar erfitt að komast að þeim,“ sagði Dóra. Heitur pottur kom líka sterkur inn í sundlaugaleysinu ásamt möguleikanum á útreiðatúr. Ekta sveitafrí fyrir borgarbörnin.

Blessuð sveitin brást ekki, því þau voru varla búin að koma sér fyrir í tveimur notalegum smáhýsum þegar Ingveldur hóaði í þau og sagði að það blikkuðu rauð ljós á fæðingardeildinni! Hin roskna ær, Frú Sigríður var komin að burði. „Við rukum til í miklum spenningi og það stóð heima, lítil snoppa stóð út úr Frú Sigríði og fyrr en varir var fyrsta lambið borið. Í tilefni af komu fyrstu íslensku ferðamannanna þetta árið var lambið, snaggarleg svarthvít gimbur, umsvifalaust nefnd Dóra og vorgesturinn að springa úr stolti.“

Hér er Frú Sigríður búin að bera tveimur lömbum en …
Hér er Frú Sigríður búin að bera tveimur lömbum en eitt er óborið. Gimbrin Dóra er strax farin að sýna karaktereinkenni hálftíma gömul með því að klifra ofan á mömmu sinni en litla systir Frigg er nýborin eins og sjá má. Loki kom um það bil hálftíma síðar.

Yngri dóttir Dóru, Lára Guðbjörg, er mikið búin að velta norrænni goðafræði fyrir sér. Eftir smá spjall hennar við Ingveldi yfir óbornum ánum kom í ljós að Ingveldur var sama sinnis og hafði einhvern tíma ætlað að nefna börn sín nöfnum úr goðafræðinni en það hafði þó ekki gengið eftir. Þær sáu því báðar leik á borði, að nefna yngri systkini nýbornu gimbrarinnar Frigg og Loka, en Frú Sigríður var hvorki meira né minna en þrílembd.

Það kórónar heimsókn í sveitina að komast á hestbak. Sérstaklega …
Það kórónar heimsókn í sveitina að komast á hestbak. Sérstaklega fyrir börnin úr borginni.

„Þetta var sko upplifunarferðaþjónusta í hæsta gæðaklassa. Krakkarnir ótrúlega spennt og heilmikið sem þau lærðu af þessu. Meðan á dvölinni stóð hlupu þau reglulega yfir í fjárhúsið til Frú Sigríðar og þríburanna til að kanna hvernig þau höfðu það.“

Potturinn var auðvitað prófaður, róið á nálægu vatni og farið á hestbak eins og vera ber. „Það eru þarna margar fallegar náttúruperlur allt um kring sem ég vissi ekki af, eins og til dæmis Gluggafoss og Nauthúsagil. Og þó ég hafi vitað af Stóra Dímon, enda blasir hún við frá þjóðveginum, kom á óvart hversu gaman var að ganga á hana. Fjallið er aðgengilegt og spennandi með allskyns hellum og holum sem krakkar hrífast af,“ segir Dóra að lokum hæstánægð með helgarfríið.

Gestir á Rauðuskriðum geta fengið lánaðan árabát og róið á …
Gestir á Rauðuskriðum geta fengið lánaðan árabát og róið á vatninu með sýn á þrjá jökla samtímis.
mbl.is