Mér hefur alltaf þótt gaman að púsla. Ég hef púslað mjög mikið um ævina, svo það var kærkomið að hafa svona mikinn tíma til að sinna þessu áhugamáli nú á veirutímum,“ segir Jónína Björg Grétarsdóttir, eða Ninna eins og hún er alltaf kölluð, sem gerði sér lítið fyrir og púslaði ellefu risastór púsl í aprílmánuði einum.
„Ég er langt komin með tólfta púslið. Þetta voru allt þúsund bita púsl, nema eitt sem var fimm hundruð bita. Mér reiknast þá til að ég hafi handleikið og raðað tólf þúsund og fimm hundruð púslbitum í þessari covid-tíð,“ segir Ninna og hlær.
„Og nóg er eftir, ég er ekkert hætt að púsla. Ég held ég eigi tíu púslpakka í viðbót sem ég get dregið fram, þetta eru fleiri en tuttugu púsl í það heila sem ég á til í geymslum mínum.“
Þegar Ninna er spurð hvað sé svona frábært við að púsla segir hún það fyrst og fremst vera róandi.
„Þetta er líka spennandi, því öll mín púsl eru þannig að ég hef enga fyrirmynd til hliðsjónar þegar ég byrja að púsla. Allt eru þetta púsl þar sem myndin sem á að púsla er af einhverju sem fólkið á myndinni á kassanum horfir á. Púslarinn hefur því ekki hugmynd um hvað það er. Maður verður bara að byrja einhvers staðar og svo kemur í ljós hvaða mynd þetta er. Mér finnst það gera þetta enn skemmtilegra, erfiðara og meira spennandi,“ segir Ninna og bætir við að hún púsli líka í tölvunni.
„Ég fæ seint nóg af því að púsla.“
Þegar Ninna er spurð hversu lengi hún sé að púsla þúsund bita púsl segist hún oftast byrja á nýju púsli seinnipart dags og sé yfirleitt langt komin með það þegar hún fer að sofa.
„Ég sit nokkuð við þetta ef ég er á annað borð byrjuð. Þegar ég hef lokið við púsl rugla ég því jafnharðan aftur og pakka ofan í kassa, ég hef ekkert pláss til að láta þetta standa.“
En Ninna lætur ekki duga að púsla af miklum móð, hún hefur líka nýtt heimavist í covid-tíð til að grípa í prjóna.
„Ég hef dregið upp ýmislegt óklárað sem ég veit af inni í skápum hjá mér, til dæmis lopapeysu sem ég fór í fýlu út í fyrir þremur árum af því mér gekk svo illa með hettuna á henni. Ég henti henni bara inn í skáp þar sem hún hefur fengið að dúsa allan þennan tíma. Mér tókst að klára hana um daginn. Ég lauk líka við litla barnapeysu og nýtti garnafganga til að prjóna húfur á barnabörnin. Það er hægt að nýta tímann á svo margan hátt, ég kýs að gera það svona. Auðvitað förum við líka í göngutúra til að passa upp á hreyfinguna og tökum endalaust til heima hjá okkur,“ segir Ninna sem lenti í því líkt og margir að starfshlutfall hennar var minnkað niður í 25 prósent þegar covid-innilokun skall á.
„Ég fer til vinnu tvisvar í viku eftir hádegi og einn dag fyrir hádegi, í þrjá tíma í senn,“ segir Ninna sem starfar hjá heildsölu.
Ninna og maður hennar Þóroddur Sveinsson fluttu til höfuðborgarinnar fyrir fjórum árum, en þau höfðu þá búið í 25 ár á Möðruvöllum í Hörgárdal.
„Flutningarnir komu til af því að Þóroddur var fluttur til í starfi, hann er lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og var tilraunastjóri á tilraunabúinu á Möðruvöllum. Við erum bæði fædd og uppalin í Reykjavík, svo það er ekkert nýtt fyrir okkur að búa í höfuðborginni, en vissulega eru þetta viðbrigði, allt orðið stærra og umferðin þyngri en þegar við vorum yngri. Við förum auðvitað oft norður, við hefðum til dæmis verið fyrir norðan um liðna helgi, ef ekki væri fyrir veiruna, því barnabarnið okkar sem býr fyrir norðan á fjögurra ára afmæli. Erfiðust finnst okkur þessi einangrun frá öllum sem okkur þykir vænt um.“
Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. maí.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.