„Ég sendi borgarstjóra bréfið og ræddi við hann í síma. Hann tók jákvætt í erindi mitt og sagðist myndu láta sitt fólk fara yfir það,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til bréfs, dagsett 7. maí, sem sent var Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.
Í bréfinu mótmælir Ásgerður fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar framkvæmdum Reykjavíkurborgar á Geirsgötu í miðbænum. En líkt og greint hefur verið frá hér í Morgunblaðinu er þar verið að setja upp nýja stoppistöð Strætó og verður hún án útskots.
Þetta veldur því að strætisvagnar munu þurfa að stoppa á miðri akbraut til að hleypa farþegum sínum inn og út úr vagninum með fyrirséðum töfum á umferð. Ásgerður segir framkvæmdir þessar ekki í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um skipulag svæðisins, sem undirritað var 12. nóvember 2013, þar sem þær þrengi að umferð að Seltjarnarnesi.
Hindrar eðlilegan akstur
„Samkomulagið var gert í tengslum við að Seltjarnarnesbær féllst á niðurfellingu Holtsganga úr svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, en þeim hafði verið ætlað að auðvelda umferð gegnum miðbæinn og Þingholtin. Var á breytinguna fallist fyrir mjög eindregna ósk Reykjavíkurborgar því bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi höfðu þá um nokkurt skeið ítrekað lýst áhyggjum af þróun samgöngumála vesturhluta höfuðborgarsvæðisins til framtíðar litið og lagt áherslu á að tryggð verði bæði hversdagslega og í hugsanlegum neyðartilvikum greið og örugg umferð bifreiða um borgarhlutana, enda sé það jafnt í þágu íbúa á Seltjarnarnesi og í Reykjavík,“ segir í bréfi til borgarstjóra sem Morgunblaðið hefur undir höndum.
Bent er á í bréfinu að þótt ekki sé ráðgerð niðurfelling akreinar á Geirsgötu í bókstaflegri merkingu sé „fullljóst að reglubundnar stöðvanir strætisvagna með tilheyrandi bið eftir að farþegar fari í og út úr vögnum mun koma í veg fyrir eðlilegan akstur um götuna sem nú þegar er iðulega þungur“. Mun stoppistöðin, að mati Seltjarnarnesbæjar, valda svo mikilli truflun að það samrýmist engan veginn tilgangi og texta samkomulagsins og þeim skuldbindingum sem Reykjavíkurborg tók á sig með gerð þess. Er því óskað eftir því að núverandi framkvæmd verði endurskoðuð og/eða horfið með öllu frá biðstöð strætisvagna á þessum stað.
„Við erum með skýr markmið“
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, segir stoppistöð ekki vera eitt af „stóru málunum“ um þessar mundir.
„Við hljótum að geta leyst úr þessu. Það eru sameiginlegir hagsmunir sveitarfélaga að breyta ferðavenjum og skapa góða aðstöðu fyrir hjólandi og almenningssamgöngur. [...] Þetta er ekki stórt mál, hér er verið að gera úlfalda úr mýflugu. Að strætó stoppi í örskamma stund getur ekki verið eitt af stóru málunum í okkar samfélagi,“ segir hún.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir.
Spurð hvort framkvæmdin sé brot á samkomulagi milli sveitarfélaganna segir Sigurborg Ósk þörf á að kanna það. „Þetta er ekki þrenging, það er í raun verið að bæta flæði og bæta flutningsgetu með því að hafa tvöfaldan hjólreiðastíg eftir Miðbakkanum. Þó einkabíllinn þurfi að stoppa í örskamma stund þá er það fullkomlega sjálfsagður hlutur.“
Komi aftur á móti í ljós að framkvæmdin sé brot á samkomulaginu segir Sigurborg Ósk sveitarfélögin þá þurfa að ræða lausnir.
„Við erum með skýr markmið um hvað við viljum gera og hverju við viljum ná fram. Við teljum okkur vera að gera það með framkvæmdinni eins og hún er,“ segir hún.
Hefðu átt að biðja um leyfi
Líkt og greint hefur verið frá er Geirsgata í Reykjavík einn af stofnvegum landsins, en með því er átt við vegi sem tengja saman byggðir landsins og eru þeir í umsjá Vegagerðarinnar. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, staðfesti við Morgunblaðið fyrir helgi að Reykjavíkurborg hefði ekki spurt Vegagerðina um leyfi áður en framkvæmdir hófust. Spurður hvort borgin hefði átt að gera það svaraði hann: „Vegurinn er enn í okkar umsjá og því hefði verið kurteisi að gera það.“
Spurð út í þetta svarar Sigurborg Ósk. „Ég get alveg tekið undir það. Það er alltaf kurteisi að tala saman, engin spurning. En þetta er ekki stórt mál. Þegar þetta er allt saman komið í gagnið þá munu borgarbúar og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu finna lítið sem ekkert fyrir þessu.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.