Vinna er hafin við að greina stöðu sveitarfélaga vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að sveitarfélögin í landinu þyrftu um 40-60 milljarða króna vegna aukinna útgjalda og tekjuskerðingar af völdum veirunnar.
Spurður út í þessi ummæli segir Bjarni: „Ef sveitarfélögin þurfa 40-50 milljarða þá get ég sagt að ríkið þarf ekki minna en 300 milljarða. Svo geta þessir aðilar talað saman um hvor eigi að bæta við sig.“ Ekki er sumsé að heyra á ráðherra að til standi að ríkið taki á sig allan þann kostnað.
Í viðtalinu sagðist Aldís einnig telja nauðsynlegt að ráðist yrði í sértækar aðgerðir í þeim sveitarfélögum þar sem atvinnuleysi er mest. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa hingað til verið almennar og ekki verið stutt við eitt svæði umfram önnur. Bjarni segir þó að úrræðin sem gripið hefur verið til séu óbeint mikilvægur stuðningur við þau svæði sem verst hafi orðið úti. Nefnir hann í því skyni hlutastarfaleiðina og aðgerðir sem snúa að ferðaþjónustu.
Spurður út í frekari aðgerðir segir hann að fjármunir hafi sérstaklega verið teknir frá fyrir Suðurnes. Um 25 prósent fólks á vinnumarkaði á Suðurnesjum þiggja atvinnuleysisbætur, þar af eru 14,4% á hlutabótum en rúm 10% án atvinnu.
„Það er ekki komið að því að við skoðum nánar sérstaklega þau svæði á landsbyggðinni sem hafa orðið illa úti,“ segir Bjarni. „En við vitum að á stöðum eins og Vík í Mýrdal er atvinnuleysi að nálgast 50%, sem er gríðarlega alvarleg staða.“