Össur ætlar að endurgreiða hlutabætur

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Össur hf. mun end­ur­greiða Vinnu­mála­stofn­un þá fjár­muni sem runnið hafa til 165 starfs­manna fé­lags­ins á meðan þeir voru í hluta­starfi vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Þá mun fyr­ir­tækið einnig hætta að nota úrræðið hér á landi. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá fé­lag­inu, en mik­il gagn­rýni hef­ur komið fram eft­ir að ljóst varð að fjöldi fyr­ir­tækja sem stóðu vel höfðu jafn­framt nýtt sér hluta­bóta­leið stjórn­valda.

Ráðamenn hafa sagt að leiðin sé hugsuð vegna brýnn­ar nauðsynj­ar, en ekki fyr­ir stönd­ug fyr­ir­tæki. Sagði Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra að stönd­ug fyr­ir­tæki sem hefðu nýtt sér þessa leið væru að stinga „rýt­ingi í sam­stöðuna“ í þjóðfé­lag­inu.

Festi, Hag­ar, Brim, Origo, Esja og Skelj­ung­ur hafa öll áður greint frá því að þau muni end­ur­greiða Vinnu­mála­stofn­un vegna hluta­bóta sem starfs­fólki fyr­ir­tækj­anna voru greidd­ar.

Í til­kynn­ingu Öss­ur­ar kem­ur fram að fyr­ir­tækið hafi um miðjan apríl ákveðið að nýta sér úrræðið og víða um heim hafi sala fyr­ir­tæk­is­ins minnkað um helm­ing og verið enn á niður­leið. „Ljóst var að þessi þróun myndi hafa mik­il áhrif á fjár­hags­stöðu fyr­ir­tæk­is­ins og því var gripið til víðtækra aðgerða til að minnka bæði um­svif og kostnað. Þess­ar aðgerðir hafa haft áhrif á störf og starfs­hlut­fall um 1.000 starfs­manna fyr­ir­tæk­is­ins um all­an heim, þar af 165 á Íslandi. Sú óvissa sem ríkt hef­ur um framtíðina hefði, án hluta­bóta­úr­ræðis­ins á Íslandi og sam­bæri­legra mót­vægisaðgerða í öðrum lönd­um, leitt til upp­sagna hér­lend­is sem er­lend­is. Nú mánuði síðar er enn mik­il óvissa, en merki eru um að markaðir fyr­ir­tæk­is­ins séu að taka við sér á ný.“

Össur.
Össur. Ljós­mynd/​Aðsend

Tekið er fram að ákvörðun um arðgreiðslu vegna síðasta árs hafi verið tek­in áður en áhrif af far­aldr­in­um hafi orðið ljós.  „Þá var kaup­um á eig­in bréf­um hætt 17. mars, um mánuði áður en Össur nýtti sér úrræði stjórn­valda.“

„Ekki er full samstaða hér á landi um að fyr­ir­tæki nýti hluta­bóta­úr­ræðið

„Við erum stjórn­völd­um hér­lend­is og er­lend­is afar þakk­lát fyr­ir aðgerðir sem hafa gert okk­ur kleift að viðhalda verðmætu ráðning­ar­sam­bandi við okk­ar starfs­menn. Nú ligg­ur fyr­ir að ekki er full samstaða hér á landi um að fyr­ir­tæki nýti hluta­bóta­úr­ræðið. Það er okk­ur mik­ils virði að starfa í góðri sátt við sam­fé­lög­in þar sem við störf­um. Við greiðum því til baka alla þá fjár­muni sem starfs­menn okk­ar hafa fengið hér á landi vegna hluta­bót­ar­leiðar­inn­ar, sem námu um 20 millj­ón­um króna á tíma­bil­inu 18.-30. apríl.“

mbl.is