Flugfélagið Qatar Airways þakkar heilbrigðisstarfsfólki fyrir framlag sitt í baráttunni gegn kórónuveirunni með 100 þúsund fríum flugmiðum.
Í færslu á vef flugfélagsins sem birt var í gær, 12. maí, kemur fram að heilbrigðisstarfsfólk geti sótt um allt að tvær fríar flugferðir með flugfélaginu fyrir sig og eina manneskju í viðbót.
Þar að auki býður flugfélagið heilbrigðisstarfsfólki upp á 35 prósenta afslátt í fríhöfn sinni í Hamad International Airport í Doha í Katar.
Í færslunni segir að heilbrigðisstarfsfólk þurfi að skila inn umsókn fyrir miðnætti 18. maí. Flugfélagið mun gefa ákveðnum fjölda heilbrigðisstarfsmanna í hverju landi kóða daglega.
Qatar Airways hefur flogið til 30 áfangastaða meðan kórónuveiruheimsfaraldurinn hefur geisað og hyggst stækka áætlun sína í lok maí og bæta við rúmlega 50 áfangastöðum. Í byrjun júní er gert ráð fyrir að flugfélagið fljúgi til rúmlega 80 áfangastaða.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.