Norska ríkisstjórnin ákvað í dag að framlengja tímabundin lagaákvæði um greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna í launalausu leyfi út októbermánuð. Samtök atvinnulífsins (SA) vekja athygli á þessu á vefsíðu sinni.
Tímabilið sem fyrirtækjum er heimilt að hafa starfsmenn í launalausu leyfi verður jafnframt lengt. Norsk stjórnvöld komu á bráðabirgðaákvæði í lögum 20. mars síðastliðinn sem heimiluðu greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna í launalausu leyfi út júnímánuð og þar var greiðsluskylda fyrirtækis stytt úr fimmtán dögum í tvo frá dagsetningu tilkynningar um tímabundið launalaust leyfi.
Nýjustu breytingarnar á lögunum eru þær að launamenn sem hafa nýtt sér 26 vikna rétt til bótagreiðslna í launalausu leyfi að fullu geta samt fengið bætur út októbermánuð. Þegar launalausu leyfi lýkur er vinnuveitandi skyldugur til að greiða starfsmönnum sínum laun að nýju. Breytingarnar eru tilkomnar vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir þeim, samkvæmt SA.
Atvinnuleysi hefur aukist mikið í Noregi undanfarið vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirunnar en 90% þeirra sem sótt hafa um atvinnuleysisbætur eru í launalausu leyfi. 40% fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn hafa nýtt sér úrræðið tímabundið.
Norskir kjarasamningar kveða á um tímabundið launalaust leyfi starfsfólks en launalaust leyfi að hluta er heimilt niður í 40% starfshlutfall. Fyrirtækjum er sömuleiðis heimilt að fella starfsfólk af launaskrá í allt að sex mánuði ef þau sýna fram á verulegt tekjufall og eru starfsfólki tryggðar bætur eftir að greiðsluskyldu vinnuveitenda líkur.
Starfsmenn í launalausu leyfi halda ráðningarsambandi við fyrirtæki og eiga þannig rétt á áframhaldandi starfi að leyfinu loknu. Ef áframhaldandi starf er ekki í boði að afloknu tímabili launalauss leyfis tekur uppsagnarfrestur við.
Fyrirtækjum er einungis heimilt að setja starfsmenn í launalaust leyfi ef aðstæður sem skerða starfsemi þeirra verulega eru tímabundnar. Þau áhrif sem kórónuveiran hefur haft á efnahaginn og atvinnulífið falla undir slíkar aðstæður.
Skilyrði fyrir því að úrræðið sé heimilt er að metið sé líklegt að verkefnaskortur fyrirtækis sé eingöngu tímabundinn. Fyrirtæki verða jafnframt að sýna fram á líkur þess að tekjur aukist á ný sem tryggi verkefni og laun fyrir starfsmennina sem settir voru í launalaust leyfi.
Starfsmanni er skylt að mæta aftur til vinnu að loknu tímabili launalauss leyfis en ef ekki er talið líklegt að tekjur aukist að nýju ber fyrirtækinu að segja starfsfólki upp störfum.