Íslenska auglýsingastofan Peel hyggst ráða önnur innlend framleiðslufyrirtæki og fleira vant auglýsingafólk til að vinna með sér að markaðsátaki sem ætlað er að laða erlenda ferðamenn aftur til landsins.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá auglýsingastofunni. Hún varð hlutskörpust í félagi við alþjóðlegu auglýsingastofuna M&C Saatchi í útboði Íslandsstofu vegna herferðarinnar sem á að hefjast um það leyti sem landið verður opnað að nýju.
Bent er á að auglýsingastofan hafi hafnað í efsta sæti í útboðinu sem hljóðaði upp á 300 milljónir króna og þar sem valnefnd skipuð 13 ólíkum sérfræðingum, auk Ríkiskaupa, völdu á milli fimmtán bjóðenda.
„Flest tilboðin sem bárust byggðust á einhvers konar samstarfi innlendra og erlendra auglýsingastofa. Peel varð efst í 9 af 11 valþáttum en auglýsingastofan Pipar var númer tvö í röðinni og munaði mjóu á þessum tveimur fyrirtækjum. Matsþættirnir voru sem áður segir fjölmargir og tóku meðal annars tillit til gæða hugmyndavinnu, verðs, reynslu og styrkleika teymanna,“ segir í tilkynningunni.
„Ég er sammála Guðmundi Pálssyni hjá Pipar, sem hefur tjáð sig um úrslit útboðsins í fjölmiðlum í dag, um að það skiptir miklu máli að hafa öflugan auglýsinga- og markaðsgeira á Íslandi. Sú mikla samkeppni sem sást í útboðinu er í mínum huga til vitnis um hversu öflugar og metnaðarfullar íslenskar auglýsingastofur eru,“ er haft eftir Magnúsi Magnússyni, stofnanda og framkvæmdastjóra Peel.
Hans sýn er á þá leið að gæðin í íslenskum auglýsingageira séu best varðveitt með því að eiga í samstarfi við fremsta auglýsingafólk í heimi. Verkefnið snúi að því að markaðssetja Ísland í útlöndum og til að ná góðum árangri þurfi að vinna með fólki sem þekki vel til á þessum mörkuðum og starfi þar alla daga.
„Öll íslensk flugfélög hafa til dæmis í gegnum árin leitað til erlendra fyrirtækja varðandi aðstoð við að koma sér á framfæri við ferðamenn í hverju landi fyrir sig,“ er haft eftir Magnúsi sem segir að Ísland verði auglýst sem áfangastaður í öðrum löndum.
„Stór hluti af framleiðslunni mun fara fram hér því þekkingin á landinu sem við erum að markaðssetja skiptir máli. Við ætlum að ráða til okkar fjölda íslenskra undirverktaka á ýmsum sviðum framleiðslunnar og því munu margir fleiri njóta góðs af verkefninu. Staðreyndin er líka bara sú að íslenskt auglýsingafólk er mjög öflugt og félagar okkar í þessu verkefni á M&C Saatchi hafa nefnt það sérstaklega við okkur að þeim finnist magnað hvað auglýsingar eru í háum gæðaflokki hér, miðað við hvað þetta er fámennt samfélag.“