„Þurfum að vera auðmjúk gagnvart þessari stöðu“

Lilja og Ásmundur á kynningarfundinum í dag.
Lilja og Ásmundur á kynningarfundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mennta­málaráðherra og fé­lags- og barna­málaráðherra vilja reyna til hins ýtr­asta að skapa sum­arstörf og önn­ur úrræði fyr­ir náms­menn áður en gripið verður til annarra aðgerða eins og at­vinnu­leys­is­bóta. 

Lilja Al­freðsdótt­ir mennta­málaráðherra og Ásmund­ur Ein­ar Daðason fé­lags- og barna­málaráðherra kynntu í dag áform stjórn­valda um að skapa að minnsta kosti 3.400 sum­ar­störf fyr­ir náms­menn 18 ára og eldri. 

Í sam­tali við mbl.is seg­ist Ásmund­ur ekki til­bú­inn til þess að gef­ast upp á því verk­efni að skapa nægi­lega mörg störf fyr­ir stúd­enta í sum­ar, en könn­un Stúd­entaráðs Há­skóla Íslands frá því í apríl benti til þess að um 7.000 stúd­ent­ar væru ekki komn­ir með sum­arstarf. 

„Það lít­ur þannig út að störf­in sem við erum að skapa verði fleiri en við gerðum ráð fyr­ir í upp­hafi. Hugs­un­in er sú að við mun­um áfram getað skapað fleiri störf. Við vilj­um ekki gef­ast upp á því fyr­ir fram. Verk­efnið er að vinna hratt og vel í því. Ég hef þá trú að okk­ur tak­ist að skapa störf og önn­ur úrræði þannig að ekki þurfi að koma til at­vinnu­leys­is­bóta eða annarr­ar sér­stakr­ar fram­færslu,“ seg­ir Ásmund­ur.

Ásmund­ur seg­ir að stjórn­völd muni skoða og tryggja önn­ur úrræði ef ekki tekst að skapa nægi­lega mörg sum­arstörf, til þess að koma til móts við þá stúd­enta sem lenda á milli skips og bryggju.

„Það er auðvitað þannig að sam­fé­lagið okk­ar á að tryggja ör­ygg­is­net fyr­ir alla sína borg­ara. Ég vil hins veg­ar ekki gef­ast upp á því verk­efni að skapa fleiri störf fyr­ir fram. Við erum auðvitað að vinna á mjög kröpp­um tíma og taka hérna átak sem er 10 ára gam­alt sem við erum þegar búin að fjór­falda. Það er mjög lík­legt að við náum að fimm, sex eða sjö­falda það,“ seg­ir Ásmund­ur.  

„Ég vil ekki gef­ast upp á því verk­efni því við eig­um fyrst og síðast að skapa störf og það gafst vel á ár­un­um eft­ir efna­hags­hrunið og það lít­ur þannig út að þetta muni gef­ast mjög vel núna líka, alla­vega miðað við hvernig þetta fer af stað. En tím­inn er knapp­ur og við erum að reyna að hlaupa í kappi við hann. Verk­efnið er að skapa öll­um náms­mönn­um störf eða úrræði og ég mun ekki gef­ast upp fyr­ir því fyr­ir fram án þess að hafa látið reyna á það til hins ýtr­asta.“

Rétt til at­vinnu­leys­is­bóta þurfi að skoða al­mennt

Lilja tek­ur í sama streng og Ásmund­ur og seg­ir það mark­mið stjórn­valda að ná að virkja sem flesta náms­menn í sum­ar. 

„Við stefn­um að því að virkja sem flesta náms­menn í sum­ar. Við ger­um það ann­ars veg­ar með sum­ar­námi og hins veg­ar með gríðarlegri aukn­ingu á sum­arstörf­um sem hið op­in­bera kem­ur að. Ég tel að þess­ar aðgerðir séu til þess falln­ar að virkja þúsund­ir náms­manna.“

Í sam­tali við mbl.is fyrr í dag sögðu full­trú­ar stúd­enta­hreyf­ing­ar­inn­ar að það fel­ist órétt­læti í því að náms­menn greiði af laun­um sín­um trygg­inga­gjald en eigi síðan ekki rétt á at­vinnu­leys­is­bót­um. Lilja seg­ir að þetta sé í skoðun hjá stjórn­völd­um. 

„Það er auðvitað ým­is­legt sem teng­ist rétt­in­um er varðar þá sem hafa verið að greiða trygg­inga­gjöld. Stjórn­völd eru að skoða það og við höf­um átt í far­sælu og ár­ang­urs­ríku sam­starfi við stúd­enta og þetta er eitt af því sem við erum að skoða, þenn­an rétt og þá al­mennt,“ seg­ir Lilja.  

„Við erum að skoða alla þætti þess­ar stóru sam­fé­lags­legu áskor­un­ar sem við stönd­um nú frammi fyr­ir, því að at­vinnu­leysi hef­ur auk­ist. Við skoðum alla þá þætti sem geta mögu­lega aðstoðað fólkið okk­ar.“ 

Lilja seg­ir það ekki úti­lokað að önn­ur úrræði verði skoðuð í fram­hald­inu, ná­ist ekki að tryggja úrræði fyr­ir alla náms­menn í sum­ar. 

„Við byrj­um á þessu og svo sjá­um við hvað set­ur. Við erum að gera þetta skipu­lega, eitt skref í einu, og svo sjá­um við hver staðan er. Við þurf­um að vera auðmjúk gagn­vart þess­ari stöðu og end­ur­skoða hana reglu­lega. Það vilja all­ir vera virk­ir og við leggj­um áherslu á slík úrræði.“

mbl.is