Afli íslenskra fiskiskipa var 88,8 þúsund tonn í apríl sem er 21% minni afli en í apríl 2019, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands. Þar segir að þorskafli hafi verið svipaður milli ára í aprílmánuði. Hins vegar var verulegur samdráttur í veiðum á ýsu, ufsa og karfa.
Þá segir að samdráttur var einnig í uppsjávarafla þar sem landað magn kolmunna dróst saman um 31%. 3.601 tonnum var landað af grásleppu og rauðmaga í apríl, þar af var tæplega 60% landað á Norðurlandi sem er nokkur aukning miðað við fyrri ár.
Frá maí 2019 til apríl 2020 nam heildarafli 966 þúsund tonnum sem er 13% minni afli en á sama tímabili ári fyrr.