Lokadagur og verðlaun aflakónga liðin tíð

Þrír ættliðir á Bárði SH og allir heita þeir Pétur …
Þrír ættliðir á Bárði SH og allir heita þeir Pétur Pétursson. Afli bátsins er sagður með ólíkindum.

Lokadagur vetrarvertíðar eru orð sem sjaldan sjást nú orðið, en var að finna í frétt í Morgunblaðinu á þriðjudag. Þar var greint frá metafla skipverja á Bárði SH, sem komu með 2.311 tonn að landi frá áramótum til 11. maí, sem er gamli lokadagur vertíðarinnar. Orðið aflakóngur hefði gjarnan mátt nota með tilvitnun í Pétur Pétursson, útgerðarmann og skipstjóra, í fréttinni, en ekki er vitað til þess að nokkru sinni hafi vertíðarbátur komið með eins mikinn afla að landi og þeir á Bárði gerðu í vetur. Á móti Pétri eldri var Pétur sonur hans skipstjóri.

Arnar Sigurmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Vestmannaeyjum og áhugamaður um sögu Eyjanna, segir aflann hjá áhöfninni á Bárði vera með ólíkindum. „Þetta er fantamikill afli, mér hefði þótt þetta myndarlegt þótt aflinn hefði verið allt að þúsund tonnum minni,“ segir Arnar.

Virðing fylgdi titlinum

Hann segir að virðing hafi fylgt aflakóngstitlinum og því að koma með mestan bolfiskafla á land í Eyjum á vetrarvertíðum. Sérstakur gripur hafi verið afhentur á sjómannadaginn árlega, en einnig voru afhent verðlaun fyrir að koma með mest verðmæti að landi yfir árið. Hér er orðið aflakóngur notað um mestan afla.

Bátar frá Grindavík, Þorlákshöfn og fleiri stöðum kepptu um sæmdarheitin á landsvísu við aflaklær úr Eyjum. Meðal þessara aflaskipa má nefna Jóhann Gíslason ÁR, Geirfugl GK, Albert GK, Jón á Hofi ÁR, Skarðsvík SH, Friðrik Sigurðsson ÁR og Arnfirðing II RE. Víða í sjávarplássum voru aflakóngar verðlaunaðir og umfjöllun um keppni manna og báta á milli mátti sjá í blöðum.

Arnar segir að margir merkir skipstjórar hafi orðið aflakóngar í Eyjum og ekki sé auðvelt að gera upp á milli. Í hans huga standi þrír menn þó upp úr; Benóný Friðriksson eða Binni í Gröf, á Gullborginni, Hilmar Rósmundsson á Sæbjörgu og Sigurjón Óskarsson á Þórunni Sveinsdóttur.

Í Morgunblaðinu 5. júní 1977 var sagt um Binna í …
Í Morgunblaðinu 5. júní 1977 var sagt um Binna í Gröf að hann væri „nafntoguð aflakló.“ Skjáskot

„Binni varð aflakóngur alls sjö sinnum á árunum frá 1953-1961, þar af sex sinnum í röð. Stundum var hann ekki líklegur til afreka þegar leið á aprílmánuð, en þá fór hann oft austur í Bugtir og lagði tvisvar í róðri. Hann kom síðan með mikinn afla að landi og blússaði fram úr hinum köllunum. Hilmar varð aflakóngur þrjú ár í röð 1967-69. Síðasta árið var hann með ótrúlega mikinn afla eða 1.654 tonn, en samt var Sæbjörgin ekki nema 67 tonna eikarbátur. Sigurjón er yngstur þessara þremenninga og varð aflakóngur ellefu sinnum á áttunda og níunda áratugnum. Það var síðan Sigurjón sem blés þessa keppni af hér í Eyjum,“ segir Arnar.

Breyting með kvótakerfinu

Í sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1989 er viðtal við aflakónginn Sigurjón, sem hafði komið með 1.917 tonn að landi á vertíðinni, sem þá var met. Framundan hjá honum var að taka við silfurskipinu, verðlaunagripnum fyrir mestan afla.

Sigurjón hefur orðið: „Nei, nú ætla ég að afþakka það. Það er gott og ágætt að slá met þegar maður getur það og hefur aðstæður til þess. En mín tillaga er sú að verðlaunaskipið verði geymt í byggðasafninu meðan við fiskum eftir kvótakerfi. Menn eru ekki að fiska á jafnréttisgrundvelli meðan það er í gildi. Menn voru að taka netin upp í apríl í mokfiskiríi af því að þeir voru búnir með kvótann.

Við gátum aftur á móti haldið áfram af því að við höfðum stærri kvóta og þá er ekki lengur um jafnrétti að ræða, menn eiga ekki að fá verðlaun með forgjöf. Af þeim sökum ætla ég ekki að taka á móti skipinu á sjómannadaginn. En þann dag sem allir standa jafnir að vígi, verður ekkert því til fyrirstöðu að keppa á ný,“ sagði Sigurjón fyrir röskum 30 árum.

Arnar segir að verðlaunagripurinn, silfurslegið víkingaskip, sé geymdur í Sagnheimum í Byggðasafninu í Vestmannaeyjum. Gripurinn segi mikla sögu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: