Vinnumálastofnun heimilt að krefjast endurgreiðslu

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og standa að frumvörpunum sem og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frum­vörp er varða fram­hald á hlutastar­fa­leið stjórn­valda, aðstoð vegna launa­kostnaðar á upp­sagn­ar­fresti, ein­föld­un á fjár­hags­legri skipu­lagn­ingu fyr­ir­tækja og at­vinnu­rekstr­ar­bann til að sporna við kenni­töluflakki voru samþykkt á rík­is­stjórn­ar­fundi í morg­un.

Frum­vörp­in eru hluti af fram­haldsaðgerðum stjórn­valda í efna­hags­mál­um vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru sem kynnt­ar voru 28. apríl sl. Þetta kem­ur fram á vef Stjórn­ar­ráðsins.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, Ásmund­ur Daði Ein­ars­son, fé­lags- og barna­málaráðherra, og Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­málaráðherra standa að frum­vörp­un­um og gert er ráð fyr­ir því að þau verði sett á dag­skrá þing­fund­ar á mánu­dag­inn.

Minnk­ar lík­ur á fjölda­gjaldþrot­um

Bjarni greindi frá frum­varp­inu í sam­tali við mbl.is fyrr í dag og sagði að um nýtt úrræði væri að ræða. Um er að ræða fjár­stuðning úr rík­is­sjóði til greiðslu hluta launa­kostnaðar at­vinnu­rek­enda á upp­sagn­ar­fresti launþega með það að mark­miði að draga úr lík­um á fjölda­gjaldþrot­um fyr­ir­tækja og tryggja rétt­indi launa­fólks.

Skil­yrði fyr­ir stuðningn­um eru að veru­leg fjár­hags­leg rösk­un hafi orðið á at­vinnu­rekstri  vegna ráðstaf­ana sem gripið hef­ur verið til eða aðstæðna sem hafa skap­ast vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru.

„Stuðning­ur­inn nem­ur að há­marki 85% af launa­kostnaði starfs­manns á upp­sagn­ar­fresti, þó að há­marki 633.000 kr. á mánuði vegna launa og að há­marki 85.455 kr. á mánuði vegna líf­eyr­is­sjóðsiðgjalds­hluta at­vinnu­rek­anda og að há­marki 1.014.000 kr. vegna or­lofs­launa sem launamaður kann að eiga rétt á, fyr­ir fullt starf og hlut­falls­lega fyr­ir hlutastarf. Stuðning­ur­inn er veitt­ur á samn­ings­bundn­um upp­sagn­ar­fresti starfs­manns, þó aldrei leng­ur en í þrjá mánuði,“ seg­ir á vef Stjórn­ar­ráðsins.

Eng­ar arðgreiðslur og eng­in kaup á eig­in bréf­um

Frum­varp fé­lags­málaráðherra um hlutastar­fa­leiðina ger­ir ráð fyr­ir því að hún verði fram­lengd til 31. ág­úst á þessu ári en með til­tekn­um breyt­ing­um. Meðal breyt­inga er skil­yrði um 25% sam­drátt í starf­semi vinnu­veit­anda frá 1. mars og til þess dags sem launþegi sæk­ir um at­vinnu­leys­is­bæt­ur eða staðfest­ir áfram­hald­andi nýt­ingu sína á hluta­bóta­leiðinni.

Vinnu­mála­stofn­un fær aukn­ar heim­ild­ir til gagna­öfl­un­ar og verður þannig heim­ilt að krefja vinnu­veit­end­ur um end­ur­greiðslu at­vinnu­leys­is­bóta auk 15% álags komi í ljós að skil­yrði fyr­ir greiðslu bót­anna hafi ekki verið upp­fyllt.

„Vinnu­veit­end­um sem nýta leiðina verður gert að staðfesta að þeir hafi ekki í hyggju að greiða út arð til hlut­hafa, lækka hluta­fé með greiðslu til hlut­hafa, greiða óum­samda kaupauka, kaupa eig­in hluta­bréf eða greiða eig­end­um sín­um eða æðstu stjórn­end­um mánaðarlaun sem nema hærri fjár­hæð en 3.000.000 kr til 31. maí 2023. Þá verður Vinnu­mála­stofn­un heim­ilt að birta lista yfir vinnu­veit­end­ur launa­fólks sem fær greidd­ar bæt­ur sam­hliða minnkuðu starfs­hlut­falli,“ seg­ir um frum­varpið.

Fyr­ir­tæki kom­ist í greiðslu­skjól með ein­fald­ari hætti

Frum­vörp dóms­málaráðherra snú­ast ann­ars veg­ar um tíma­bundna ein­föld­un á fjár­hags­legri end­ur­skipu­lagn­ingu og hins veg­ar um aðgerðir gegn kenni­töluflakki.

Komið verður á fót nýju úrræði sem snýr að fjár­hags­legri end­ur­skipu­lagn­ingu þannig að fyr­ir­tækj­um, sem orðið hafa fyr­ir veru­legri af­komurösk­un, verði heim­ilt að fá greiðslu­skjól á meðan unnið er að end­ur­skipu­lagn­ingu á fjár­hag þess að upp­fyllt­um til­tekn­um skil­yrðum. Úrræðið mun hjálpa fyr­ir­tækj­um að kom­ast í skjól með ein­fald­ari og kostnaðarminni hætti.

Dóm­ara heim­ilt að úr­sk­urða fólk í at­vinnu­rekstr­ar­bann

Með frum­varpi um aðgerðir gegn kenni­töluflakki verða gerðar breyt­ing­ar til að sporna við kenni­töluflakki og mis­notk­un hluta­fé­laga­forms­ins. Dóm­ara verður heim­ilt að úr­sk­urða þann sem ekki telst hæf­ur til að stýra hluta­fé­lagi, einka­hluta­fé­lagi og í viss­um til­vik­um sam­lags­hluta­fé­lagi, í at­vinnu­rekstr­ar­bann sem að meg­in­reglu vari í þrjú ár vegna al­var­legri til­vika.

Til­gang­ur frum­varps­ins er að vernda al­menn­ing og sam­fé­lagið í heild sinni fyr­ir mis­notk­un á hluta­fé­laga­form­inu og á ekki að þrengja að frum­kvöðla­starf­semi né draga úr hvata til að taka þátt í at­vinnu­rekstri. 

mbl.is