Ísland hið fullkomna afdrep frá COVID-19

Blaðamaður Bloomberg segir Ísland geta verið öðrum ríkjum fyrirmynd um …
Blaðamaður Bloomberg segir Ísland geta verið öðrum ríkjum fyrirmynd um viðbrögð við heimsfaraldri og hvernig megi koma ferðaþjónustu aftur af stað. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ísland er hið full­komna af­drep frá kór­ónu­veirunni. Því held­ur banda­ríski miðill­inn Bloom­berg í það minnsta fram, en áform stjórn­valda um að opna landa­mæri á ný fyr­ir ferðafólki í næsta mánuði eru til um­fjöll­un­ar hjá miðlin­um í dag.

Aðgerðir stjórn­valda hér á landi vegna veirunn­ar eru þar rakt­ar og sagt að þjóðin hafi verið til­bú­in með aðgerðaáætl­un vegna far­ald­urs og, það sem meira er, haldið sig við hana. Um­fangs­mik­il sýna­taka frá því áður en fyrsta til­felli greind­ist, öfl­ug smitrakn­ing og sótt­kví hafi orðið til þess að land­inu tókst að sleppa við íþyngj­andi aðgerðir á borð við út­göngu­bann án þess að leyfa veirunni að leika laus­um hala. Útkom­an sé ein­ung­is tíu dauðsföll eða 28 á hverja millj­ón íbúa. Um tí­und af dauðsföll­um í Banda­ríkj­un­um, miðað við höfðatölu.

Í stað þess að hefja viðræður við ör­ugg ríki um mynd­un ein­hvers kon­ar ferðasvæðis (e. tra­vel bubble) þar sem íbú­ar viðkom­andi ríkja geta ferðast inn­an ná­granna­ríkja hafi Íslend­ing­ar ákveðið að hleypa öll­um ferðamönn­um hingað til lands gegn því að und­ir­gang­ast sýna­töku eða fara í sótt­kví. Þetta þykir Bloom­berg-liðum skyn­sam­leg ráðstöf­un og segja létt­vægt að þurfa að hala niður smitrakn­ing­arapp­inu Rakn­ing C-19 í ljósi öfl­ugr­ar per­sónu­vernd­ar­lög­gjaf­ar hér á landi.

Þótt ekki sé víst hve marga ferðamenn Íslend­ing­um muni tak­ast að laða til lands­ins í miðjum heims­far­aldri sé til­raun­in engu að síður góðra gjalda verð í landi þar sem ferðaþjón­usta er jafnsnar þátt­ur í efna­hags­kerf­inu og hér er raun­in.

mbl.is