Aldrei fyrr skapað eins traust öryggisnet

Aðgerðir stjórnvalda eru sagðar hafa verið ómissandi.
Aðgerðir stjórnvalda eru sagðar hafa verið ómissandi. mbl.is/Golli

Hag­fræðideild Lands­bank­ans reikn­ar með að at­vinnu­leysi verði meira næstu tvö ár en það hef­ur verið frá ár­un­um 2011-2012. Þetta kem­ur fram í ný­út­gef­inni hag­sjá bank­ans, en þar seg­ir að bú­ist sé við um 7% at­vinnu­leysi að meðaltali árið 2021, og um 6% árið 2022.

Skráð at­vinnu­leysi í lok apríl var 17,8% af áætluðum fjölda fólks á vinnu­markaði. Alls voru um 49.200 manns á at­vinnu­leys­is­skrá, þar af 16.400 at­vinnu­laus­ir og 32.800 í skertu starfs­hlut­falli.

At­vinnu­leysi í mars var 9,2% og hafði þá auk­ist frá 5% í fe­brú­ar.

Hag­fræðideild­in seg­ist reikna með að sí­fellt fleiri þeirra sem nú fái greiðslur í gegn­um aðgerðir stjórn­valda komi inn á at­vinnu­leys­is­skrá eft­ir því sem líður á sum­arið.

At­vinnu­leysi fari í 13% í ág­úst og sept­em­ber

„Fólki í hluta­bóta­leiðinni fækk­ar sí­fellt og lítið er nú um ný­skrán­ing­ar í úrræðið. Ætla má að flest­ir þeirra sem hafa lent í hópupp­sögn­um komi inn í at­vinnu­leys­is­bóta­kerfið í ág­úst hafi þeir ekki horfið til fyrri eða annarra starfa í millitíðinni. Við reikn­um þannig með því að at­vinnu­leysið fari hæst í 13% í ág­úst og sept­em­ber en lækki svo aft­ur síðustu mánuði árs­ins.“

Bent er á að stjórn­völd hinna ýmsu ríkja hafi aldrei fyrr skapað eins traust ör­ygg­is­net fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki og á síðustu vik­um.

„Þess­ar aðgerðir hafa í raun verið ómiss­andi í ljósi þess hversu mikið tekj­ur allra hafa lækkað. Alltaf hef­ur legið fyr­ir að þess­ar aðgerðir væru tíma­bundn­ar og í upp­hafi veirufar­ald­urs­ins ríkti bjart­sýni um að krepp­an yrði stutt. Krepp­an hef­ur held­ur lengst frek­ar en hitt og sam­tím­is er ljóst að stjórn­völd þurfa að huga að út­göngu­leið hvað þenn­an mikla stuðning varðar.“

Erfið aðlög­un hugs­an­lega fram und­an

Hér á landi hafi fyrstu skref­in verið tek­in, þar sem ljóst sé að hlutastar­fa­leiðin muni renna sitt skeið á enda í lok ág­úst.

„Hér, eins og ann­ars staðar, var litið á þess­ar aðgerðir sem leið til þess að halda hag­kerf­inu á floti um stund þannig að það gæti verið til­búið í snatri þegar allt færi af stað aft­ur. Nú eru hins veg­ar tölu­verðar lík­ur á því að hag­kerf­in og hegðun fólks muni taka var­an­leg­um breyt­ing­um hvað marga þætti varðar.

Fólk sem vinn­ur í mik­illi ná­lægð við aðra gæti t.d. farið fram á hærri laun eða dýr­ar ör­yggisaðgerðir við að vinna þau störf. Grein­ar sem hafa byggt mikið á er­lendu vinnu­afli gætu í aukn­um mæli þurft að reiða sig á inn­lent vinnu­afl vegna harðara landa­mæra­eft­ir­lits og meiri aðgæslu með út­lend­ing­um svo dæmi séu nefnd,“ seg­ir í hag­sjá bank­ans.

„Vinnu­markaður­inn á því mögu­lega eft­ir að breyt­ast mikið á næstu árum og á hugs­an­lega eft­ir að fara í gegn­um erfiða aðlög­un. Sú aðlög­un get­ur ekki haf­ist á meðan rík­is­sjóður greiðir starfs­fólki fyr­ir að bíða eft­ir þeim störf­um sem það vann áður – sum þess­ara starfa verða mögu­lega ekki til áfram. Stjórn­völd munu eft­ir sem áður gegna stóru hlut­verki við að hjálpa fólki að finna ný störf og smyrja hjól at­vinnu­lífs­ins eft­ir bestu getu.“

mbl.is