Skýrsla starfshóps um stöðumat og aðgerðaáætlun um eflingu þjónustu ríkisins á Suðurnesjum verður kynnt í þinginu á morgun. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir um að ræða 17 tillögur sem unnar hafi verið með heimamönnum.
Ráðherra bendir á að upphaflega hafi starfshópurinn verið stofnaður vegna „vaxtaverkja“ á Suðurnesjum og bendir á að undanfarin sjö ár hafi íbúafjölgun á svæðinu verið um það bil 30%. Á sama tíma var hún 13% á landsvísu.
„Starfshópurinn skoðaði þetta en á endanum breyttist svolítið staðan í þetta ástand sem við horfum upp á,“ segir Sigurður Ingi og vísar til þess að atvinnuleysi á Suðurnesjum hafi aukist mjög í kórónuveirufaraldrinum.
„Við settum í aðgerðapakka tvö 250 milljónir til aðgerða á Suðurnesjum. Í skýrslunni eru 17 tillögur sem lúta að ýmsu; allt frá því að viðhalda þessum samráðshópi, stuðningsaðgerðir við erlenda ríkisborgara, yfir í stuðning við Reykjanes Geopark,“ segir ráðherra.
„Tillögurnar eru af ólíkum toga en unnar með heimamönnum.“
Sigurður Ingi segir að verkefnin séu að mestu fjármögnuð og fari af stað bráðlega. Auk þess nefnir hann aðrar aðgerðir, líkt og fjölgun sumarstarfa á Suðurnesjum, sem eigi að vinna sérstaklega á atvinnuleysinu á svæðinu.